Leikfélag Hólmavíkur

Búningahorn

Sminkhorn

Ljósahorn

Hvíslarahorn

 
Leikfélagið

Nýjustu fréttir

Leiksýningar

Ferðalög

Glens og grín

Leikarar o.fl.

Upphafssíðan
 

Gestabók
Skrá á póstlista

 


 

     
Leikfélagslúðurinn 2004-2005

Fréttir af leikárinu 2006-7 með því að smella hérna.
Fréttir af leikárinu 2005-6 með því að smella hérna.
Fréttir af leikárinu 2004-5 með því að smella hérna.
Fréttir af leikárinu 2003-4 með því að smella hérna.
Fréttir af leikárinu 2002-3 með því að smella hérna.

 

Þátttaka í Hamingjudögum

Leikfélag Hólmavíkur tók virkan þátt í fyrstu Hamingjudögunum sem haldnir voru á Hólmavík um mánaðarmótin júní og júli. Leikfélagið var með óvæntar uppákomur víða um bæinn, m.a. í gönguferð um Borgirnar.

 Vefstjóra er annars ekki nógu vel kunnugt um þátttöku Leikfélagsins í hátíðinni til að skrifa meira af viti.

[Innsett 5. júlí 2005 - JJ]

 

Fjör á Furðuleikum

Heilmikið fjör var á Furðuleikum 2005 í Sævangi í gær, þótt veðrið hafi verið afbragðsvont sem hefur örugglega haft áhrif á mætinguna. 50-60 manns létu sjá sig og flestum keppnisgreinum sem halda átti úti var slegið á frest fram á sumarhátíð. Þó létu þeir allra hörðustu sig hafa það að fara út til að læra og leika hinn æfaforna knattleik Hringlanda.

Hins vegar var þeim mun meira um að vera inni og sannaðist að Strandamenn geta alveg eins verið furðulegir inni og úti. Öskurkeppni fór fram í anddyrinu og heilmikil Grettukeppni í kaffistofunni þar sem menn spiluðu líka og sungu. Þá var farið í heilmikinn Vísbendinga- eða ratleik inni á sögusýningunni og vakti hann mikla lukku.

[Innsett 20. júní 2005 - JJ]

 

Furðuleikar á sunnudag


Á morgun, sunnudag, verða haldnir Furðuleikar 2005 á Sauðfjársetrinu í Sævangi og hefjast kl. 14:00. Jón Jónsson framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins segist vonast til að töluvert af fólki mæti á svæðið. Félagar í Leikfélagi Hólmavíkur setja svip á hátíðina og vonandi mæta fleiri í viðeigandi búning. Gestir og gangandi keppa í alls konar furðugreinum. 

„Við ætlum í vísbendingaleik á safninu, keppum í trjónuhlaupi og fílafótbolta, öskrum og afturgöngum, svo eitthvað sé nefnt," sagði Jón í samtali við fréttaritara. „Svo er líka ætlunin fara í stórfiskaleik og keppa í girðingastaurakasti, auk þess sem við ætlum að kynna knattleikinn Hringlanda sem vísbendingar eru um að iðkaður hafi verið á Ströndum fyrr á öldum." Kaffihlaðborð verður í kaffistofunni Sævangi kl. 14-18 og allir eru velkomnir á Furðuleikana

[Innsett 18. júní 2005 - JJ]

 

Furðuleikar framundan

Undirbúningur fyrir Furðuleika á Ströndum 2005 sem verða sunnudaginn 19. júní er kominn vel af stað og hugmyndavinna um furðulegar keppnisgreinar í fullum gangi. Leikfélag Hólmavíkur tekur virkan þátt í Furðuleikunum í ár eins og í fyrra þegar fyrst var gerð tilraun með þessa einstöku keppni. Myndir frá Furðuleikunum 2004 má nálgast á þessari vefsíðu.

[Innsett 12. júní 2005 - JJ]

 

Almennur félagsfundur

Leikfélag Hólmavíkur heldur almennan félagafund á sunnudagskvöldið klukkan 20:00 í félagsheimilinu á Hólmavík. Efni fundarins verður Hamingjudagar á Hólmavík og þátttaka félagsins í þeim hátíðahöldum og undirbúningur fyrir Furðuleika Sauðfjársetursins sem félagið tekur líka þátt í. Jafnframt verður væntanlega skrafað og skeggrætt um ýmis önnur skemmtileg mál sem liggja þungt á fundarmönnum.

Ekkert varð af uppsetningu á leikriti þetta vorið vegna ýmissa ástæðna.

[Innsett 3. júní 2005 - JJ]

 

Okkar maður að meika það ...

Strandamaðurinn og leikarinn Smári Gunnarsson frá Hólmavík stendur nú í stórræðum í Reykjavík, en þar tekur hann þátt uppfærslu Leikfélagsins Thalíu á söngleiknum Komin til að sjá og sigra, en Thalía er leikfélag Menntaskólans við Sund þar sem Smári stundar nám. Söngleikurinn sem er sýndur í Loftkastalanum er spunaverkefni og er byggt á Stuðmannamyndinni frægu, Með allt á hreinu. Smári fer með hlutverk Frímanns sem er eitt af aðalhlutverkunum.

Verkið var frumsýnt í Loftkastalanum þriðjudaginn 15. febrúar og Smári sagði í samtali við Leikfélagslúðurinn að móttökurnar við verkinu hafi verið vægast sagt frábærar. "Salurinn var frábær og fólkið var gífurlega ánægt eftir sjóvið. Þetta leikrit er spunaverkefni en við studdum okkur aðeins við grunnkonseptið úr gömlu myndinni og breyttum miklu," sagði Smári. "Gömlu góðu lögin eru í nýjum búningum en við, leikararnir í sýningunni, sáum um tónlistina og við spilum nokkur lögin "live" á sviðinu í Loftkastalanum. Þetta eru Stuðmanna- og Grýlulögin úr myndinni og svo er eitt frumsamið lag og texti eftir sjálfan mig sem ég samdi til að dýpka samband aðalpersónanna í verkinu."

Verkið hefur fengið afar góða dóma og m.a. fékk það 4 og hálfa stjörnu af 5 mögulegum á vefnum www.leiklist.is. Hér fyrir neðan getur fólk nálgast og hlaðið niður tveim hljóðskrám sem innihalda lög úr leikverkinu. Smellið á nöfn laganna og þá opnast hljóðskráin, eða hægrismellið og ýtið síðan á "Save target as".

Hér er lagið og textinn Vinátta sem Smári Gunnarsson samdi.
Hér er lagið Fljúgðu sem einnig er í verkinu.

[Innsett 21. feb. 2005 - JJ]

 

Spunatröll á menningarhátíð

Menningarhátíð Félagsmiðstöðvarinnar Ozon sem haldin var í Félagsheimilinu á Hólmavík í gærkvöldi tókst með miklum ágætum. Vel á annað hundrað manns fylgdust með dagskránni sem stóð til klukkan rúmlega ellefu. Fjöldi listamanna tók þátt í hátíðinni og gáfu þeir allir vinnu sína. Þá lögðu foreldrar til glæsilega kaffiveitingar og gáfu allar veitingar. Unglingarnir í félagsmiðstöðinni fluttu mikið af tónlistaratriðum og spuna og einnig komu fullorðnir tónlistarmenn fram, auk þess sem spunatröll úr Leikfélagi Hólmavíkur stigu á stokk og sýndu listir sínar, þeir Úlfar Hjartarson og Bjarki Þórðarson.

Gestur á hátíðinni var Bergur Thorberg myndlistarmaður sem málaði myndir úr kaffi í hléi og ávarpaði svo samkomuna og tók lagið. Bergur færði nemendafélaginu listaverk og þær Hlíf Hrólfsdóttir, Ásdís Jónsdóttir og Salbjörg Engilbertsdóttir færðu tónlistarskólanum átta rása mixer, til viðbótar við hljóðfærakost skólans.

[Innsett 13. feb. 2005 - JJ]

 

Músagildran á svið í vor?

Stjórn Leikfélags Hólmavíkur hefur tekið ákvörðun um hvaða leikverk verður sett upp nú í vor. Það er hið heimsfræga sakamálaleikrit Músagildran eftir hina velþekktu Agöthu Christie.

"Það hefur gengið vel að plata fólk til að taka þátt í uppsetningunni og góðar líkur eru á að búið sé að fullmanna í hlutverk," sagði Salbjörg Engilbertsdóttir gjaldkeri félagsins þegar Leikfélagslúðurinn heyrði í henni nú í dag.

Hlutverkin í Músagildrunni samanstanda af átta hlutverkum; fimm eru ætluð karlkyns leikurum og þrjú kvenfólki. Víðidalsárbóndinn Skúli Gautason er fyrsti kostur sem leikstjóri, en eitthvað á stjórn Leikfélagsins þó eftir að púsla saman hvernig fyrirhugað æfingatímabil verður skipulagt, sökum óheyrilegra vinsælda á uppsetningu Leikfélags Akureyrar, Óliver. Þar leikur Skúli nokkuð stórt hlutverk og á erfitt með að komast frá sökum vinsælda verksins.

Þá hafa borist fregnir af því að endanleg ákvörðun um það hvort þeir Lárus Ýmir Óskarsson og Jón Karl Helgason muni gera heimildarmynd um Leikfélagið verði tekin þann tuttugasta og fjórða þessa mánaðar.

[Innsett 19. jan. 2005 - JJ]

 

Leikfélagið sýnir íþróttahæfileika sína

Meðal þess sem til skemmtunar var við vígslu Íþróttahússins á Hólmavík í dag var svokallaður Trjónufótbolti. Þar attu kappi Leikfélag Hólmavíkur og Sauðfjársetur á Ströndum í magnaðri keppni sem kitlaði einkum hláturtaugar áhorfenda. Sauðfjársetrið hefur áður keppt í þessari óvenjulegu keppnisgrein á Furðuleikunum síðasta sumar og síðan íþróttahúsið var tekið í notkun hafa kapparnir æft vikulega, að því er fram kom í máli fyrirliða Sauðfjársetursins. Leikurinn fór 1-1 og keppendur og áhorfendur eru óðum að ná sér.


Image
 
Nei, þetta er ekki fundur, leikurinn er í fullum gangi - ljósm. Gunnar Logi

Image

Hvar er boltinn - hvar er boltinn? - ljósm. ES

Image
 
Image
Vignir Örn Pálsson fékk tilþrifaverðlaunin - ljósm. Gunnar Logi

Image
 
Í liði Sauðfjárseturs voru Jón Jónsson, Matthías Lýðsson, Kristján Sigurðsson og Lýður Jónsson - ljósm. Gunnar Logi

Image
 
Í liði Leikfélagsins voru Arnar S. Jónsson, Jóhann L. Jónsson og nafnarnir Vignir Örn Pálsson og Victor Örn Victorsson - ljósm. Gunnar Logi

[Innsett 15. jan. 2005 - JJ]

 

Samlestur á Deleríum Búbónis

Nú hefur verið ákveðið hvaða leikrit verður lesið á samlestri Leikfélags Hólmavíkur sem verður haldinn í Félagsheimilinu þriðjudagskvöldið 11. janúar kl. 20:00. Það er hið sívinsæla og skemmtilega gamanleikrit Deleríum Búbónis eftir þá bræður Jónas og Jón Múla Árnasyni. Hér með eru allir sem hafa áhuga á því að vera með í uppsetningu vetrarins hvattir til að mæta. Þetta eru þó ekki einu fréttirnar af Leikfélagi Hólmavíkur því ýmislegt annað er í bígerð.

Þar ber helst að nefna að kvikmyndagerðarmennirnir Lárus Ýmir Óskarsson og Jón Karl Helgason hafa um nokkurt skeið haft hug á því að taka upp heimildarmynd um uppsetningu á leikriti hjá litlu leikfélagi úti á landi. Hafa þeir síðustu misserin einkum horft til Leikfélags Hólmavíkur sem og þorpsins sjálfs sem heppilegan vettvang fyrir slíka kvikmyndagerð.

Aðspurður segist Lárus Ýmir ekki enn vera viss um að af þessu verkefni verði þetta árið en þeir félagar halda þó enn í vonina um að það verði hægt. Skortur á fjármagni mun vera helsti ásteytingarsteinninn. Það er þó vonandi að af þessu geti orðið því það yrði óneitanlega gaman að virða fyrir sér ankringislæti félaga í Leikfélagi Hólmavíkur á hvíta tjaldinu.

[Innsett 10. jan. 2005 - JJ]

 

Kvikmynd?

Eins og fram kom hér á vefnum síðasta haust hafa kvikmyndagerðarmennirnir Lárus Ýmir Óskarsson og Jón Karl Helgason hug á að koma til Hólmavíkur og gera heimildamynd um Leikfélagið. Formaður félagsins hafði samband við Lárus Ými nú nýverið til að kanna stöðuna á málinu, enda fer nú að styttast í framkvæmdir hjá Leikfélaginu. 

Það er skemmst frá því að segja að Lárus heldur enn í vonina um að hægt verði að gera myndina, en það veltur mjög á fjármögnun sem er enn sem komið er í nokkurri óvissu. Það ætti að koma í ljós innan skamms hvernig málið fer og hvort peningar fást. Við höldum í vonina og hvetjum þá félaga áfram til dáða - áfram strákar!

[Innsett 7. jan. 2005 - ASJ]

Leikstjóri

Búið er að redda leikstjóra - sem vill meira að segja ólmur koma til okkar. Það er enginn annar en hinn magnaði Skúli Gautason sem hefur leikstýrt okkur tvisvar sinnum áður, í Tobacco Road og fyrir tveimur árum í Sex í Sveit.

Skúli mun án efa nota tækifærið og vinna í sveitasetrinu Víðidalsá eins og vitlaus maður. Ríkir almenn hræðsla meðal leikfélaga um að þeim verði refsað fyrir lélega frammistöðu á sviði, t.d. með því að þurfa að vinna múrverk og þess háttar óþverrastörf í húsi leikstjórans.

[Innsett 7. jan. 2005 - ASJ]
 

Leiklestur verður haldinn ...

Þá erum við á leiðinni að setja upp leikrit, gott fólk! Ætlunin er að setja upp stórt leikverk, frumsýna það um páskana og sýna það síðan á þessum venjulegu stöðum. Til þess að þetta megi heppnast blæs stjórn Leikfélagsins nú blásið til samlestrar á leikriti í félagsheimilinu á Hólmavík þriðjudaginn 11. janúar næstkomandi kl. 20:00.

Þar verða lesin eitt eða tvö af þeim verkum sem koma til greina sem uppsetning vetrarins, en stjórn Leikfélagsins hefur undanfarið unnið að því að finna hentug leikrit. Samkomur sem þessar eru rómaðar fyrir gaman, glens, gott kaffi og jafnvel sælgæti og því eru allir Strandamenn velkomnir og hvattir til að mæta, hvort sem þá dreymir um frama á leiklistarsviðinu eður ei!

[Innsett 7. jan. 2005 - ASJ]

Leikfélagar á bókasafnskveldi

Meðlimir og velunnarar leikfélagsins gerðu sér glatt kvöld á bókasafnskvöldi Héraðsbókasafns Strandasýslu fimmtudaginn 2. des. sl. Svanhildur, Hrafnhildur, Árný og Einar leiklásu söguna Truflanir eftir ísraelska snillinginn Ephraim Kishon, en um 20 manns hlýddu á lesturinn og fögnuðu vel og lengi í lokin, ekki síst þegar rakvélin brann yfir. (Það skal tekið fram að undirritaður hefur ekki hugmynd um hvort þetta var svona eða ekki. Hann var fyrir sunnan hjá tannlækni þegar þetta gerðist. Hann veit bara að sagan sem var lesin er örugglega sú sem greint er frá hér að ofan.)

Einnig söng barnakór á kvöldinu nokkur jólalög. Næst á dagskránni hjá leikfélaginu núna er að myndast við að aðstoða við uppsetningu á söngleiknum Friðarbarnið, en hin eitilharða tjáningarkennslukona og leikfélagi Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir leikstýrir verkinu. Friðarbarnið er sett upp af æskulýðsfélagi Hólmavíkurkirkju, en uppsetningin hlaut nýlega styrk úr Æskulýðssjóði Menntamálaráðuneytisins. 

[Innsett 7. des. 2004 - ASJ]

Samlestur á engu

Ekki varð nú mikið úr fyrirhuguðum samlestri á Músagildrunni sem má sjá auglýstan hér neðar. Þegar til átti að taka mættu aðeins þrír leikfélagar, Ási, Svanhildur og Arnar, til að lesa verkið þrátt fyrir að samlesturinn hafi verið vel auglýstur. Það var strax ljóst að það yrði erfitt fyrir þrjár manneskjur að lesa átta manna leikrit... þannig að menn ákváðu bara að koma sér heim og lesa verkið þar.

Óvíst er hvenær aftur verður reynt að hafa samlestur, en það er þó alveg öruggt að það verður reynt sem fyrst. Það verður nánar auglýst hér - fylgist með eins og þið lifandi getið.

[Innsett 7. des. 2004 - ASJ]

Samlestur á Músagildrunni

Nú er komið að því að taka verður ákvörðun afar fljótlega um verkefni vetrarins. Í tilefni þess verður hittingur og samlestur á leikritinu Músagildrunni eftir Agöthu Christie haldinn heima hjá Söbbu (Víkurtúni 2), næstkomandi miðvikudag, þann 1. des. kl. 20:00.

Allir sem hafa áhuga á að leika í vetur eru hvattir til að mæta og þeir sem hafa alls ekki áhuga á því að vera með ættu endilega að mæta líka því það er svo gaman á svona samlestrum. Samlestur á leikriti er skemmtun fyrir alla, unga sem aldna, konur sem karla, smábæjarrottur og sveitalarfa.

Athygli skal vakin á því að ekki er víst að samlesturinn verði auglýstur með dreifibréfi - a.m.k. ekki um alla sýsluna. Því eru menn hér með hvattir til að láta alla sem þeir hitta vita af atburðinum og reka þá til að mæta.

[Innsett 23. nóv. 2004 - ASJ]

Skemmtilegt spunakvöld

Eftirfarandi texti er tekinn af bloggsíðu stórleikarans Jóns Jónssonar á Kirkjubóli. Hann á heiður skilinn fyrir þessa ítarlegu lýsingu á þessu skemmtilega kvöldi, en hún er birt hér óbreytt: 

Dómnefndin var skipuð Sigga Atla sem dæmdi leiktækni, Hrafnhildi sem dæmdi söguþráð og Ása á Hnitbjörgum sem dæmdi skemmtigildið. Þau gáfu einkunn frá 0 og upp í 5 og voru bara býsna hörð í dómum á köflum.

Af því aðeins 8 höfðu skráð sig til þátttöku og
mætt á staðinn ákvað dómnefndin að 2 yrðu í hverju liði og liðin yrðu 4. Aðferðin til að raða í lið var sú að númer voru skrifuð á miða og menn drógu sig saman. Hvert lið fór síðan baksviðs og ákvað nafn og liðstjóra. Þannig urðu til liðin Ungmennafélagið sem innihélt Bjarka og Úlfar, Títuprjónarnir sem innihélt Ásdísi og Matthías, Búbbulínurnar sem innihélt Hildi og Salbjörgu og The Singing Brothers sem innihélt Jón og Arnar. Held það sé hægt að fullyrða að samsetning liðanna hefði getað verið heppilegri, en kvöldið varð samt býsna gott.

Fyrst kepptu Búbbulínurnar við
Ungmennafélagið og skoruðu á strákana að leika "Leiðinlegan flugfarþega". Ungmennafélagið gerði þetta í hálfvitastíl, Búbbulínurnar voru í sápuóperustíl. Þarna fengu menn að kynnast afar dónalegum flugfarþega hjá stelpunum og drukknum hjá strákunum. Úlfar hélt sér vel í karakter sem sauðdrukkinn farþegi og meðferðin á honum eftir að hann dó brennivínsdauða var kostuleg.

Síðan tóku hin 2 liðin við og léku
fyrri hlutann af sinni keppni. The Singing Brothers skoruðu á Títuprjónana að leika "Á tali-spuna" sem gekk frekar brösuglega hjá báðum liðum. Títuprjónarnir sögðust ætla að gera það í viðtals- og óperustíl, en gleymdu sér nokkuð með stílinn, byrjuðu aðeins í óperustílnum en héldu sér við viðtalið eftir það. Við bræðurnir gerðum þetta í farsa-stíl, en gekk líka ílla að halda okkur í stílnum og söguþráðurinn varð lítill sem enginn.

Þá skoraði Ungmennafélagið á
Búbbulínurnar að leika "Tveir á báti" spuna. Þær Búbbúlínur gerðu þetta í náttúrulífsmynda-stíl og réru um fljótið og blöðruðu út í eitt um ýmsar dýrategundir sem þær sáu og voru á köflum mjög fyndnar. Lítið fór hins vegar fyrir söguþræðinum. Þeir félagar fóru síðan á kostum í einu besta atriði kvöldsins þar sem þeir tóku veiðiferð í gamanleikjastíl og fóru á kostum bæði í leik og texta. Voru með afbragðs sögu líka. Hugsa að þetta hafi verið besta atriði kvöldsins hjá báðum liðum.

Strax á eftir tók við
seinna atriðið í hinni keppninni þar sem Títuprjónarnir skoruðu á The Singing Brothers að leika "Rauðhettu-spuna". Það gerðum við bræður í óperustíl og lékum síðan söguna í gegn á miklum hraða og skiptum ótt og títt um karaktera. Áhorfendur virtust mjög hamingjusamir, en dómnefndin var ekki alveg jafn glöð. Hraðinn var örugglega allt af mikill fyrir stílinn, en samt lagði þessi þáttur grunninn að því að við bræður náðum saman í leiknum og tökum á forminu. Títuprjónarnir tóku þetta atriði í dramastíl, en verkið varð frekar absúrd hjá þeim og þau náðu ekki að spila vel saman, til dæmis varð úlfurinn lítið var við það þegar Rauðhetta sprautaði Maze úðanum framan í hann og skaut hann síðan tveimur skotum í skrokkinn - þó voru fínir sprettir inn á milli.

Þegar hér var komið sögu var tveimur keppnum lokið og urðu úrslit þau að Ungmennafélagið vann Búbbulínurnar og The Singing Brothers unnu Títuprjónana. Var þá gert hlé á skemmtuninni. Eftir hlé var svo spunnið um 1. sætið í keppni milli Ungmennafélagsins og The Singing Brothers og 3. sætið milli Búbbulínanna og Títuprjónanna.

Eftir hlé:

Búbbulínurnar skoruðu á Títuprjónana að leika Stubba-spuna. Eftir á að hyggja hefði sennilega ekki átt að leyfa þessa áskorun, þar sem hún er í raun og veru stíll en ekki spunaefni. Títuprjónarnir gerðu þetta í "smáum stíl" og fengu að láni úr salnum dráttarvél, klósettsetu og haugsugu. Held að þau hafi ekki fengið góða einkunn fyrir þetta atriði hjá dómnefnd, enda ókunnug Stubbunum og stíllinn hvarf fljótlega út í veður og vind. Að mínu mati var þessi sena samt sú besta hjá Títuprjónunum um kvöldið og þau gerðu sér töluverðan mat úr tillögunum úr salnum og voru allfyndin á köflum á frekar ósmekklegan hátt. Búbbulínurnar gerðu síðan sama atriði í stubbastíl, en voru í verulegum vandræðum með að búa til söguþráð úr þessu og halda út nógu lengi og einnig með að nýta sér gjafir úr salnum sem voru gullfiskur, lambhúshetta og skalli. Leiktæknin og stíllinn var hins vegar á hreinu.

Þessu næst var fyrri hluti af keppninni um 1. sætið þegar Ungmennafélagið skoraði á The Singing Brothers að leika spuna sem kallaður var "að moka flórinn". Við bræður tókum þetta í sápuóperustíl þar sem við skiptumst á að moka flórinn í gríð og erg á meðan við lékum, en að öðru leyti kom þessi flór lítið við sögu, þar til í lokin þegar ég (sem var upphaflega strákur en var nú komplexuð stúlka eftir hafði farið í kynskiptaðgerð til að geta gifst manni sem síðan reyndist föðurbróður minn) drap þennan félaga minn í flórnum með fjósaskóflunni, enda hafði ég þá komist að leyndarmálinu um hvað hafði orðið um Lilla litla og mannskrattinn ætlaði að skjóta mig fyrir það. Þarna náðum við afbragðsgóðum tengslum við stíllinn, sem við héldum út kvöldið. Ungmennafélagið tók þetta atriði í splúnkunýjum stíl sem þeir kölluðu útlendingsstíl og byggði á misskilningi á öðrum stíl. Hann virkaði þannig að annar var útlendingur og talaði tóma steypu, en hinn Íslendingur sem þoldi ekki útlendinginn og ruglið í honum. Þetta tókst ágætlega hjá þeim, en mikið held ég að Úlfar hafi svitnað við að reyna að búa til söguþráð, verandi sé eini sem talaði í leiknum.

Þá var komið að lokaspunanum í keppninni um þriðja sætið. Títuprjónarnir skoruðu þá á Búbbulínurnar að leika spunann "Afleysingarmanneskja við afgreiðslu í búð og óánægður viðskiptavinur". Búbbulínurnar báðu salinn um þrjú hugtök og fengu kurteisi, lágt vöruverð og dónaskap. Þær léku þetta síðan í hálfvitastíl sem þær héldu sig nú ekki sérlega kröftuglega í og töluvert fór nú meira fyrir dónaskapnum en kurteisinni í þessum þætti. Þá tóku Títuprjónarnir til við sína útgáfu og gerðu hana einnig í hálfvitastíl og héldu sér nokkuð vel í karakterum, sem óánægður viðskiptavinur og sérstaklega hálfvitalegur afgreiðslumaður. Söguþráðinn vantaði samt næstum algjörlega.

Lokakeppni kvöldsins var svo þegar The Singing Brothers skoraði á Ungmennafélagið að leika spunann "Innbrot á Hrafnistu". Þeir tóku það í klaufabárðastíl og voru báðir innbrotsþjófar - gekk leikurinn um víðan völl, meðal annars niður í líkhúsið og í lyfjaskápinn. Þarna sýndi Bjarki feykigóða takta. Við tókum síðan sama spuna í Shakespeare-stíl og var Arnar gamalmenni sem átti gyllta snjósköfu sem við fengum að láni úr salnum, en ég var þjófurinn sem ætlaði að ræna sköfunni en iðraðist síðan gjörða minna eftir áhrifaríkt samtal við gamla manninn. Þarna vorum við komnir í þvílíkan leikham að Arnar talaði í ljóðum og atriðið endaði gæfusamlega á hárréttum tíma. Eitt af fáum atriðum kvöldsins með lokahnykk í sögunni. Að mínu mati besti spunaþáttur kvöldsins hjá okkur söngbræðrum.

Úrslit voru síðan kunngjörð - The Singing Brothers fór með sigur af hólmi, Ungmennafélagið átti annað sætið skilið, Búbbulínurnar urðu þriðju og Títuprjónarnir fjórðu. Áhorfendur kusu síðan Spunatröll kvöldsins á meðan The Singing Brothers söng sigursönginn. Dómnefndin fór síðan á svið eftir áskorun sigurvegara kvöldsins sem skoruðu á hana að leika fótboltaspuna í þrjár mínútur, sem þau fóru auðvitað létt með í harmleikjastíl. Spunatröllið var síðan kunngjört og fór Bjarki Þórðarson sem var meðlimur í Ungmennafélaginu með sigur af hólmi í þeirri keppni.

[Innsett 23. nóv. 2004 - ASJ]

Enn bætist við Leikfélagsvefinn

Nú hefur einnig verið sett upp síða um leikstjóra sem unnið hafa með Leikfélagi Hólmavíkur og einnig er byrjað að vinna í lista um handrit sem til eru í fórum Leikfélags Hólmavíkur og umsögnum um þau. Þar verður nóg að iðja næstu vikur fyrir stjórn félagsins og aðra lesglaða félagsmenn að fylla umsagnasíðuna af gagnlegum fróðleik.

Við viljum svo enn og aftur minna á póstlistann góða og spunakvöldið sem verður eftir viku, ef nógu margir skrá sig til þátttöku. 

[Innsett 14. nóv. 2004 - JJ]

Vefstjórinn í talningarham

Vefstjóranum datt sú fáránlega tímasóun í hug um hádegisbilið í dag að telja hversu margir hefðu leikið í leikritum með Leikfélagi Hólmavíkur frá upphafi. Niðurstaðan er nú loksins að koma í ljós, nú undir miðnættið.

Niðurstaðan er semsagt sú að alls hafa 93 leikarar stigið á svið í uppsetningum á stórum leikritum hjá Leikfélagi Hólmavíkur frá stofnun þess 1981 til vors 2004. Á þessari síðu hér eru allir þessir leikarar taldir upp og einnig verkefni þeirra. Ef þeim sem hafa tekið þátt í formlegum samvinnuverkefnum og leiksýningum Leikfélags Hólmavíkur, Grunnskólans og Hólmavíkurkirkju er bætt við hækkar talan upp í 149 leikara. Ekki eru taldar með ótal smærri uppákomur og dagskrár.

[Innsett 13. nóv. 2004 - JJ]

Líf og friður 1993

Enn einni síðu hefur nú verið bætt við listann um gömul og góð leikrit. Nýverið komst vefstjórinn yfir leikskrá úr söngleiknum Líf og friður sem sett var upp árið 1993 í Hólmavíkurkirkju og bjó að sjálfsögðu samstundis til síðu um þetta stykki, sem nálgast má á þessum tengli. Myndir frá uppsetningunni væru vel þegnar, eigi einhver slíkar gersemar inni í skáp.

[Innsett 13. nóv. 2004 - JJ]

Póstlistinn mikli

Nú er búið að koma upp póstlista hér á þennan sívinsæla og sívaxandi vef. Hann virkar þannig að ef menn skrá sig í þar til gert hólf á þessari síðu þá fá menn uppfrá þeim degi tölvupóst í hvert skipti sem þessi vefsíða er uppfærð.

Það eru þá jafnan einhverjar nýjar og spennandi fréttir, margvíslegar gamansögur, upplýsingar um gömul og ný leikrit, nýjar myndir eða tilkynningar um partí og samkomur. Þetta hljómar mjög spennandi. Sendu okkur netfangið þitt og fáðu reglulega glaðning í pósthólfið. Hahahæ. Ég hlæ.

[Innsett 12. nóv. 2004 - JJ]

Spunakvöld (leikhússport framundan)

Eru ekki allir búnir að skrá sig í Leikhússportið? Á Hólmavík, þann 20. nóvember, kl. 20:00. Í Bragganum. Verið viðbúin!

 [Innsett 11. nóv 2004 - JJ]

Fleiri nýjar gamlar myndir

Eins og frá var greint í fréttum helstu fjölmiðla í heiminum fundust nýverið ómetanlegir gripir tengdir sögu Leikfélags Hólmavíkur. Þetta voru 73 myndir úr leikritinu Köld eru kvennaráð, sem sett var upp 1985, hver og ein á stærð við smávaxið frímerki. Ekki hefur tekist að rekja sögu þessara mynda, en talið er víst að þær séu ófalsaðar. 

Það var einn úr fríðum flokki fyrrum formanna félagsins sem kom myndunum undir manna hendur, Sigurður Atlason stórleikari. Eru gersemar þessar nú komnar á Strandir með flugpósti, en dágóða stund tekur að vinna þessar myndir þannig að þær verði birtingarhæfar. Hér er samt smá forsmekkur:

 [Innsett 11. nóv 2004 - JJ]

Spunakvöld (leikhússport framundan)

Leikfélag Hólmavíkur hefur ákveðið að standa fyrir leikhússporti í Bragganum á Hólmavík laugardagskvöldið 20. nóvember næstkomandi kl. 20:00. Allir sem vettlingi geta valdið eru hvattir til að mæta og verða vitni að þeirri uppákomu, enda góðar líkur á að þátttakendur verði sér stórlega til skammar sökum kunnáttuleysis í þess konar sporti. Eins og þeir sem urðu vitni að spunakeppni Leikfélags Hólmavíkur og Stúdentaleikhússins um verslunarmannahelgina í sumar vita, er líklegt að hér verði um bráðskemmtilega uppákomu að ræða.

Keppt er í 3-4 manna liðum. Þeir sem áhuga hafa á að taka þátt í spunakeppninni þurfa að gefa sig fram við Arnar S. Jónsson formann félagsins í síðasta lagi næstkomandi sunnudag 14. nóvember. Bæði er hægt að skrá lið í heilu lagi og einstaklinga sem er svo raðað saman í lið.

Þriggja manna dómnefnd gefur liðunum einkunn fyrir frammistöðuna, einn fyrir leiktækni, annar fyrir skemmtigildi og þriðji fyrir söguþráð. Áhorfendum er svo falið að velja þann einstakling sem sýnir bestu frammistöðuna og verður sá útnefndur spunatröll Leikfélagsins.

 [Innsett 8. nóv 2004 - JJ]
 

Skemmilegt vídókvöld

Hópur leikfélaga kom saman sunnudagskvöldið 7. nóvember heima hjá Salbjörgu og Sverri og skoðuðu nýja húsið þeirra í krók og kima, drukku kaffi, átu kökur og æðibita sem formaðurinn kom með, og horfði saman á upptöku frá skemmtiatriðunum á Bændahátíðinni. Höfðu menn gaman af og sögðu margir að atriðin hefðu verið töluvert betri en þá minnti.

 [Innsett 8. nóv 2004 - JJ]
 

Merkustu forngripir

Mikil og stórfengleg tíðindi gerðust í leiklistasögu Stranda þann nístingskalda haustmorgun 23. október, þar sem snjókafald setti svip á mannlífið norður á Ströndum. Þennan morgun komu í leitirnar 73 myndir úr leikritinu Köld eru kvennaráð og 12 myndir úr Húrra krakka

Var það einn úr fríðum flokki fyrrum formanna félagsins sem kom myndunum undir manna hendur, Sigurður Atlason stórleikari. Eru gersemar þessar nú komnar á Strandir með flugpósti og hafa myndirnar úr Húrra krakka þegar verið settar inn.

[Innsett 4. nóv 2004 - JJ]

Vídeókvöld fyrir alla

Næsta sunnudagskvöld, 7. nóvember, kl. 20:00 verður samkoma heima hjá gjaldkera félagsins - Salbjörgu í Víkurtúninu. Þar ætla leikfélagslimir að sötra kaffidreitil og horfa saman á upptöku frá skemmtiatriðum á Bændahátíðinni.

Leikarar á Bændahátíðinni - Arnar, Matthías, Jón, Kristín, Svanhildur, Nonni Villa, Viggi og Jón Gísli - eru að sjálfsögðu hvattir til að mæta og aðrir leikfélagar sem áhuga hafa á samkomunni og að sjá þennan mikla leiksigur á vídeósnældu eru líka velkomnir.

[Innsett 2. nóv 2004 - ASJ]
 

Spunakvöld - leikhússport

Leikfélagið hyggst standa fyrir spunakeppni laugardagskvöldið 20. nóv. nk. Staðsetning og nánari tímasetning er ekki alveg á tæru, en þeir sem hafa áhuga á að vinna vegleg verðlaun ættu alla vega að dusta rykið af leikhæfileikunum. Formaður félagsins, Arnar S. Jónsson, tekur á móti skráningum á förnum vegi og í þessu netfangi.

[Innsett 2. nóv 2004 - ASJ]
 

Fundargerð frá aðalfundinum

Aðalfundur Leikfélagsins var haldinn á sama tíma og til stóð, sunnudaginn 31. okt. kl. 20:00 í félagsheimilinu. Mættir voru Inga, Einar, Stína, Ester, Jón, Matti, Ása, Svana, Sabba, mamma og Addi. Hildur kíkti við á leiðinni heim af skemmtinefndarfundi, en þá voru eiginlega allir farnir. Svanhildur bar leikfélaginu góðar kveðjur frá Jóni Gústa Jónssyni sem nú er að leik í Járnhausnum með Skagaleikflokknum. Þeim kveðjum var vel fagnað.

Nammi var í boði að venju. Sabba útbýtti reikningum og þeir voru skoðaðir vandlega. Eigum við ekki bara að byrja sagði Salbjörg. Enginn hlustaði.

Þegar allir höfðu ekkert meira að segja var rennt í skýrslu stjórnar. Hún var ekki til og Salbjörg og Einar gerðu lélega tilraun til að losna við að fara með hana. Jón tók af skarið og talaði heilmikið um það sem hefði verið gert. Það stendur allt hér á fréttavefnum þannig að ég þarf ekki að skrifa það.

Nú fóru Jón og Ester að tala og tala og þau töluðu lengi og ekki var við neitt ráðið. Þau vilja hafa spunaleikhús fyrir áramót. Fá aðra félaga. Væri gaman að hafa svona mót á landsvísu - Íslandsmót í spuna á Hólmavík. Ótrúlega skemmtilegt og enginn undirbúningur. Vívíví.  Nú voru þau komin langt út fyrir skýrslu stjórnar. Jón talaði mjög mikið um þetta. Einu sinni þurfti hann að hugsa sig um því hann átti að leika mann á frystitogara fyrir utan Hawaii. Það var rosa gaman. Menn tóku vel í hugmyndina.

Því sem næst var kíkt á reikninga félagsins. Í þeim gaf að líta skemmtilegan samanburð á Sex í Sveit og Frænkunni. Frænkan skilaði hagnaði, Sexið ekki. Nokkrar umræður urðu um reikningana. Það er miklu betra að prenta leikskrár og jafnvel ódýrara.

Starfsemi félagsins skilaði hagnaði á síðasta leikári upp á 171.000. Það á núna 300.000 á reikningi. Því verður öllu eytt í vín, sígarettur og villtar meyjar.

Eftir mikið málþóf um allt og ekkert voru reikningarnir samþykktir.

Þriðja mál á dagskrá var kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga.

Gengið var til leynilegra kosninga með miklum látum. Einar sem hefur verið formaður lengst allra, eða frá 1999, ákvað að gefa ekki kost á sér í stjórn. Fyrst var kosið um þrjá aðalmenn og fór kosningin þannig:

Arnar 11 atkvæði

Salbjörg 11 atkvæði

Einar 2 atkvæði

Matthías 2 atkvæði

Stína 2 atkvæði

Ester 2 atkvæði

Jón fékk 1

Svanhildur fékk líka 1

Ása fékk 1

og aðrir ekki neitt ...

 

Þar með voru Sabba og Addi komin í stjórn. Nú voru menn komnir í ham og vildu kjósa meira. Það þurfti líka því að það vantaði þriðja mann í stjórn. Þá var kosið milli þeirra sem höfðu fengið 2 atkvæði, en Einari var hlíft við kosningunni. Seinni kosning fór þannig að ...

 

Ester fékk 5 atkvæði

Kristín fékk 4 atkvæði

Matti fékk 2 atkvæði

 

... og Ester þar með lent í stjórn. Nú voru menn orðnir virkilega kosningaþyrstir og til tals kom að kjósa ætti besta leikarann o.s.frv. en ég stoppaði það af því ég vildi ekki særa Jón. Núna var kosið um þriggja manna varastjórn. Sú kosning fór þannig að ...

 

Ása fékk átta atkvæðI

Jón fékk sex atkvæði

Matti fékk sex atkvæði

Kristín fékk fimm atkvæði

Svana fékk fjögur atkvæði

Ásdís fékk tvö atkvæði

Einar og Inga fengu hvort eitt atkvæði

 

Ása, Jón og Matti þar með komin í varastjórnarmennsku. Nú upphófust þrætur miklar milli Jóns og Matthíasar um það hvor væri annar varamaður. Deilan var að lokum til lykta leidd með því að láta þá draga spil, en einhver hafði tekið stokk með sér ef svona skyldi koma upp. Lyktir urðu þær að Matthías fékk tígulkónginn, en Jón fékk tvist.

 

Síðast en ekki síst voru Inga og Svana kosnar skoðunarmenn reikninga með miklu lófataki, enda Sparisjóðskonur miklar.

 

Þegar hér var komið sögu var tilfinningastreymi leikfélaga í hámarki, enda um sögulegan viðburð að ræða; Einar hættur í stjórn. Æsingurinn varð svo mikil að Jón Jónsson hélt hjartnæma ræðu um Einar og síðan var skálað fyrir honum (ekki í kampavíni að vísu, mest í appelsíni eða tómum glösum).

Nu var komið að fundarliðnum "verkefni næsta leikárs". Það var farið afar skipulega í að leyfa fólki að tala um þetta. Ummælin eru birt hér eins og þau voru skrifuð inn á fundinum:

Svanhildur - Vill taka gamanleikrit – heyrist á fólki að drama sé eitthvað inn. Söngleikur – gömul klassísk saga.

Matthías – það eru engar yfirlýsingar að svo stöddu. Í Skjaldhömrum tekst að skapa persónur sem áhorfendum finnst vænt um.

Jón Jónsson – helvítis vitleysa að hlusta á áhorfendur. Setja upp eitthvað krefjandi. Erum með góðan leikhóp og hann á að fá að njóta sín. Fá aðstoð einhverra fagmanna. Yfirleitt gaman að leika gamanleikrit. Þess utan hefur hann miklu meiri áhuga á því sem ætti að gerast utan við þetta eina stóra leikverk. Hafa námskeið, spunakvöld. Fá nýtt fólk inni í félagið.

Ásdís – finnst að við eigum að taka leikrit eftir íslenskan höfund, drama og söng í bland. Krefjandi og skemmtilegt með góðum söguþræði. Ef Sabba er slæm í fótunum leikur hún konu í hjólastól. Þið munið hann Jörund. Þessir farsar – það er komið svo mikið af þeim. Skjaldhamrar voru góðir – íslenskan söguþráð.

Ester – ágætt að breyta aðeins til. Gömlu gamanleikritin eru svo svipuð.

Stína – svolítið að spá í þetta. Hún sem áhorfandi, skilur alveg eins eftir hjá sér íslensk leikrit. Söngleikur rosalega spennandi. Gamanleikur – eitthvað gamalt íslenskt Jónas, Jón Múli, Jón Thoroddsen

Einar – ákveðið verkefni sem er kannski framundan hjá okkur; samstarf við Lárus Ými Óskarsson. Ekkert auðveldara að leika gamanleikrit, jafn krefjandi – samt persónubundið. Ósammála því að við eigum ekki að gera fyrir áhorfendur. Aðeins að sýna leikrit sem áhorfendur horfa á. Söngleikur er freistandi verkefni. Héldum í fyrra að við yrðum ekki í vandræðum með mannskap þá. Kannski aðeins að skoða vel og vandlega.

Inga – bara tjáir sig ekki. Söngleikur mjög spennandi.

Sabba – Skúli kom og sagði að hann gæti komið í janúar og svo aftur í mars. Leikrit sem hægt er að brosa að. Sakamálaleikrit kemur til greina. Sabba er búin að lesa nokkur stykki.

Arnar – fékk andskotann ekki að segja neitt því nú voru allir byrjaðir að tala á fullu, eina ferðina enn.

Nú fóru fram miklar umræður sem fundarritari náði ekki að festa á blað. Það var talað mikið um námskeið alla vega - einu sinni var fullt af fólki á námskeiði. Það þarf að hafa ljósavinnunámskeið. Leiklistarnámskeið.

Mikið var rætt um möguleg verkefni. Allir opnir fyrir öllu. Það verður að ákveða þetta sem fyrst.

Hugmyndirnar sem komu fram voru í meginatriðum þessar:

Leiklistarnámskeið einhvern tímann.

Spunakeppni fyrir áramót.

Partý fyrir áramót.

 Stórt leikrit eftir áramót.

Kaffileikhús eftir áramót.

 Núna fóru allir nema nokkrir. Rétt áður en allir nema nokkrir fóru var fundin dagsetning á spunakvöldið. Það á að vera laugardagskvöldið 20. nóvember.

Þegar nokkrir voru eftir var rætt aðeins um leikfélagsvefinn. Hann á að efla með ráðum og dáð. Það verður nú gaman. Fundi var síðan slitið í kringum 11 leytið og þá tóku allir til, eða a.m.k. þeir sem voru eftir.

 [Innsett 2. nóv 2004 - ASJ]

Aðalfundur!

Aðalfundur Leikfélagsins verður haldinn í félagsheimilinu á Hólmavík nk. sunnudag, 31. okt. Hann hefst kl. 20:00 stundvíslega. Allir sem hafa áhuga á starfsemi leikfélagsins eru hvattir til að mæta.

 [Innsett 26. okt 2004 - ASJ]

 

Bændahátíðin gekk vel

Sauðfjársetur á Ströndum og Leikfélag Hólmavíkur höfðu að venju samstarf um skemmtiatriði á Bændahátíðinni í Sævangi sem haldin var 11. september þetta árið. Allt gekk vel og sómasamlega fyrir sig og gerðu Ólympíuleikar bændanna mikla lukku meðal áhorfenda. 

 [Innsett 13. sept 2004 - JJ]

 

Skemmtilegur fundur í Sævangi

Stórskemmtilegur spjallfundur var haldinn í Sauðfjársetrinu í Sævangi í gærkvöld. Þar hittu yfir 20 leikfélagsmenn kvikmyndagerðarmennina Lárus Ými Óskarsson (sem nánar má kynnast á vefslóðinni www.this.is/larus) og Jón Karl Helgason. Er skemmst frá því að segja að leikfélagsmenn sögðu sögur og skemmtu sér hið besta, eins og þeir eru vanir og virtust kvikmyndatökumenn vera heitir fyrir að fylgjast með uppsetningu hjá okkur í vetur, ef þeim tekst að fjármagna verkefnið.

 [Innsett 31. ágúst 2004 - JJ]

 

Leikfélagshittingur

Þær fregnir hafa borist til fallegra eyrna ritara Leikfélagsins að fundur verði haldinn í Sauðfjársetrinu í Sævangi kl. 20:00 í kvöld. Fundurinn er til þess ætlaður að kynna leikfélagið og meðlimi þess fyrir Lárusi Ými Óskarssyni kvikmyndagerðarmanni og leikstjóra, en hann hefur uppi áform um að taka upp heimildamynd um lítið leikfélag á landsbyggðinni. Þar gæti Leikfélag Hólmavíkur komið inn í (kvik)myndina.

Hér með eru allir sem hafa áhuga hvattir til að mæta í Sævang í kvöld. Kaffi verður á boðstólum auk hefðbundinna atriða (þetta venjulega, þið vitið - allir leikfélagar jarma eins og kindur í rétt og flissa hver ofan í annan um leið og þeir tala með háum, hvellum og skerandi rómi, án þess að heyra orð af því sem aðrir eru að segja með jarmandi háum, flissandi, hvellum og skerandi rómi án þess að hlusta á þá sem eru ekki heldur að hlusta á þá).

Þetta verður aldeilis fjör.

 [Innsett 30. ágúst 2004 - ASJ]

Leikfélagið að vakna úr sumardvalanum

Leikfélag Hólmavíkur lagðist í hýði í sumar, eftir að sýningum á Frænkunni lauk. Risinn virðist þó aðeins vera að rumska þessa dagana. Ástsæll ritari félagins, Arnar S. Jónsson, hefur æ oftar á orði að fara að skella hér inn á vefinn myndum og ferðasögum frá því í vor.

Þó var dauðinn ekki algjör í sumar. Leikfélagar tóku þannig þátt í Furðuleikum á Sauðfjársetrinu í Sævangi í júní - eins og lög gera ráð fyrir. Allmargar kunnar persónur sáust þar í margvíslegu sprelli, jólasveinar, bakkabræður, búandkarlar og Frænka Charleys kepptu öll í margvíslegum greinum. Myndir af því eru hér á vef Sauðfjársetursins í kvínni myndir.

Eins má nefna hina stórkostlegu heimsókn Stúdentaleikhússins sem kom á Strandir um verslunarmannahelgina og var með götuleikhús á ólíklegum og líklegum stöðum, m.a. við sundlaugina, söluskálann, Galdrasýninguna, á Sauðfjársetrinu og víðar. Á laugardagskvöldið var svo keppni í leikhússporti á Café Riis á Hólmavík, þar sem lið Leikfélags Hólmavíkur keppti ásamt tveimur liðum frá Stúdentaleikhúsinu.

Er skemmst frá því að segja að lið Leikfélags Hólmavíkur gjörsigraði báða andstæðinga sína í þessari skemmtilegu spunakeppni. Í sigurliðinu voru Strandamennirnir Jón Jónsson, Sigurður Atlason, Harpa Hlín Haraldsdóttir og liðið fékk liðsauka í eðalmenninu Árna Tryggvasyni sem var staddur í salnum.

Einnig nálgast sú árvissa skemmtun Bændahátíðin eins og óður geitungur, en hún verður haldinn þann 11. september í Sævangi. Að venju stendur Sauðfjársetur á Ströndum fyrir herlegheitunum, en leitað verður til leikfélagslima um framlag í formi skemmtiatriða. Hefur samstarf þessarra helstu stofnanna menningarlífsins á Ströndum verið með miklum ágætum síðustu misserin.

 [Innsett 18. og 29. ágúst 2004 - JJ]

 

Spakmæli síðunnar: „Eitt er um að tala, annað að framkvæma.“

 
Vefur
: SÖGUSMIÐJAN
© 2002