Leikfélag Hólmavíkur |
|||
Ljósameistarar Leikfélags Hólmavíkur eru í einni erfiðustu vinnu í heimi. Það er ekki nóg með að ljósaborðið hafi í áranna rás verið bilað mest allan tímann eða einhverjir kaplar týndir þegar á að fara að nota það, heldur þurfa þessir garpar að klöngrast skjálfandi upp í margra metra háa hálfónýta stiga til að festa upp ljóskastara. Oftar en ekki kemur svo í ljós að þeir eru bilaðir líka. Hvað í ósköpunum fær menn þá til að gera þetta ár eftir ár? Því er erfitt að svara, en sennilega gera þetta flestir af illri nauðsyn. Kannski eru þeir líka jafn bilaðir og kastararnir. Fremstir í flokki í ljósamálum Leikfélagsins hafa í gegnum tíðina verið Magnús Rafnsson, Einar Indriðason og Sigurður Atlason. Einnig mætti nefna Bjarka, Sigga Marra og Jóa sem vel heppnaða ljósameistara. Ef engin eru ljósin er ekki hægt að sýna. Áhorfendur og leikarar á einni sýningu á Það er list að lifa fengu heldur betur að kynnast nauðsyn ljósanna þegar rafmagnið fór skyndilega af. Þá var komið fram að miðjum síðasta einþáttungnum og fátt til ráða. Einhverjum datt þó í hug að klára leikþáttinn með vasaljósum. Sú tilraun var dæmd til að mistakast og í fyrsta og eina skiptið í sögu Leikfélags Hólmavíkur var hætt í miðri sýningu og henni frestað. Það er erfitt að ímynda sér leiksvið án ljósa og hvað þá án sviðsmyndar. Sviðsmyndin er einskonar gjafapappír utan um sýninguna. Ef hún er hræðilega hallærisleg eða ljót getur fólk ekki annað en starað á hana í forundran og þar með missir það af öllu því sem gerist á sviðinu. Þetta hefur blessunarlega sjaldan eða aldrei gerst hjá Leikfélagi Hólmavíkur. Þvert á móti er leikfélagið þekkt fyrir að vera með flottar sviðsmyndir. Sú vandaðasta var án efa notuð í leikritinu Skjaldhömrum, en á sviðinu voru þá meðal annars kolaeldavél, eldhúsborð og stólar, rúm auk óteljandi aukahluta sem sköpuðu hárrétta stemmningu fyrir leikara og áhorfendur. Meira að segja var búinn til kjallari með framlengingu framan við sviðið. Í leikferðinni um Vestfirði mátti á hverri sýningu heyra húsvörðinn grípa andann á lofti af undrun þegar Kormákur vitavörður reif upp hlerann í gólfinu. Í Tobacco Road var reistur hrörlegur kofi og girðing allt í kring auk þess sem gríðarstór vatnsbrunnur var settur á mitt sviðið. Á sýningu í Freyvangi þurft að halda við kofann lengi vel meðan sýningin stóð yfir því einhverjar festingar gáfu sig. Honum var fest betur á næstu sýningu. Miklu betur. Einn besti leikmyndasmiður sem um getur hjá Leikfélagi Hólmavíkur var Ásmundur Vermundsson sem nú er búsettur syðra. Hann smíðaði óteljandi sviðsmyndir og muni fyrir leikfélagið og alltaf var allt jafn vel gert. Ásmundur er líka frábær sviðsmaður og allsherjar reddari.
|
|||
Spakmælið: „Ljósið kemur langt og mjótt ...“ |
|