Leikfélag Hólmavíkur |
|||
|
Fréttir
af leikárinu 2006-7 með því að smella
hérna.
Furðuleikar í Sævangi Dagskrá Hamingjudaga á Hólmavík heldur áfram af fullum krafti í dag eftir góðan dag í gær. Furðuleikarnir hjá Sauðfjársetrinu í Sævangi verða haldnir á eftir og hefjast klukkan tvö. Þar er keppt í margvíslegum furðugreinum og fá allir sem áhuga hafa að vera með, ungir sem aldnir. Til dæmis er keppt í öskri, belgjahoppi, kvennahlaupi (þar sem karlarnir hlaupa með konur sínar), skítkasti, ruslatínslu og fleiru. Félagar í Leikfélagi Hólmavíkur sjá um að mála börnin og taka þátt í hinum ýmsu keppnisgreinum í búningum. Hinn sívinsæli trjónufótbolti er meðal sýningargreina og kaffihlaðborð verður á boðstólum í kaffistofunni. Frítt er inn á svæðið en selt á kaffihlaðborðið og sögusýninguna. Fleira er á dagskránni í dag, messa er nýhafin í Hólmavíkurkirkju og kl. 13.00 hefst golftmót á Skeljavíkurvelli. Klukkan eitt er einnig draugadagur á Galdrasýningunni þar sem galdramaður af Ströndum kveður niður draug með aðstoð áhorfenda. Hamingju-Hróflur, hliðvörður í Sævangi, er virkur limur í Leikfélagi Hólmavíkur [Innsett 2. júlí 2006 - JJ]
Leikfélagið tekur þátt í Hamingjudögum Mikið var um að vera um síðustu helgi á Hólmavík þegar Hamingjudagar voru haldnir þar. Dagskráin var fjölbreytt og skiptust á skin og skúrir - þarna var hljómsveitarkeppni og margvísleg tónlistaratriði, Brúðubíllinn sýndi atriði og Leiksmiðja undir stjórn Skúla Gautasonar og Þórhildar Örvarsdóttir fór um svæðið. Félagar í Leikfélagi Hólmavíkur voru virkir í henni. Strandahestar voru á staðnum, listsýningar, sölubásar og leiktæki fyrir börnin að hoppa á. [Innsett 1. júlí 2006 - JJ]
Lokasýning á Dransnesi í kvöld Í kvöld verður lokasýning á leikritinu Fiskar á þurru landi sem Leikfélag Hólmavíkur setti upp í vetur. Sýningin verður í Samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi kl. 21:00 og eru allir sem enn eiga eftir að sjá stykkið hvattir til að mæta og eiga góða kvöldstund með Leikfélaginu. Leikritið Fiskar á þurru landi er gamanleikrit eftir Árna Ibsen og eru leikendur fjórir. [Innsett 23. maí 2006 - JJ]
Leiksýning á Hólmavík fellur niður Í fréttatilkynningu frá Leikfélagi Hólmavíkur kemur fram að ekkert verður af sýningu á gamanleikritinu Fiskar á þurru landi á Hólmavík í kvöld, vegna ónógra pantana. Þeim sem hugðust skella sér á leikrit í kvöld er bent á lokasýningu leikritsins sem verður í Samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi kl. 21:00 á þriðjudaginn kemur. Leikritið Fiskar á þurru landi er gamanleikrit eftir Árna Ibsen og eru leikendur fjórir. [Innsett 21. maí 2006 - JJ]
Lokasýningar á Fiskunum Í fréttatilkynningu frá Leikfélagi Hólmavíkur kemur fram að næstkomandi sunnudag 21. maí verður aukasýning á gamanleiknum Fiskum á þurru landi í Bragganum á Hólmavík kl. 20:00 og þriðjudaginn 23. maí verður lokasýning í Samkomuhúsinu Baldri á Drangnesi kl. 21:00. Sýningin á Hólmavík verður því aðeins ef nægar pantanir berast fyrir laugardaginn í síma 865-3838. Leikritið hefur verið sýnt átta sinnum til þessa, víðs vegar um landið. [Innsett 16. maí 2006 - JJ]
Sýning í Mosfellsbæ í kvöld Leikfélag Hólmavíkur leggur enn á ný land undir fót og sýnir gamanleikritið Fiskar á þurru landi eftir Árna Ibsen í Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ í kvöld. Sýningin hefst kl. 19:00 og eru allir Strandamenn á stór-höfuðborgarsvæðinu hvattir til að mæta og eiga ánægjulega kvöldstund með Leikfélaginu. Leikhópurinn hefur lagt í töluverðar leikferðir með stykkið og sýnt í Ketilási, Árneshreppi, Þingeyri, Bolungarvík, auk Hólmavíkur. [Innsett 7. maí 2006 - JJ]
Leikfélagið sýnir í Mosfellsbæ Leikfélag Hólmavíkur mun eins og fleiri Strandamenn heimsækja höfuðborgarsvæðið á sunnudaginn, en þá verður sýning á gamanleikritinu Fiskum á þurru landi eftir Árna Ibsen í Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ. Sýningin hefst kl. 19:00. Leikfélagið hefur lagt í töluverðar leikferðir með stykkið og sýnt í Ketilási, Árneshreppi, Þingeyri, Bolungarvík, auk Hólmavíkur. [Innsett 5. maí 2006 - JJ]
Leikfélagið í útrás Leikfélag Hólmavíkur sýnir gamanleikinn Fiskar á þurru landi eftir Árna Ibsen í Víkurbæ í Bolungarvík næstkomandi laugardag, þann 29. apríl kl. 17.00. Einnig er sýning í félagsheimilinu á Þingeyri kl. 20.00 sunnudaginn 30. apríl. Leikstjóri er Kolbrún Erna Pétursdóttur, en fjórir leikarar fara með hlutverk í sýningunni. Það eru Jóhanna Ása Einarsdóttir, Úlfar Örn Hjartarson, Rúna Stína Ásgrímsdóttir og Gunnar Melsted. Auk leikaranna fylgir fjöldi aðstoðarfólks í svona sýningarferð. Einnig eru áformaðar sýningar í Mosfellsbæ 7. maí, kl. 19:00 og á Drangsnesi á næstu vikum. Þegar hafa verið þrjár sýningar á Hólmavík og einnig sýnt í Árnesi í Trékyllisvík og Ketilási í Fljótum. Nánari upplýsingar og miðapantanir í síma 865-3838. [Innsett 27. apr. 2006 - JJ]
Leikfélagið leggur land undir hjól Leikfélag Hólmavíkur gerir víðförult næstu daga með gamanleikinn Fiskar á þurru landi eftir Árna Ibsen. Félagið hyggst sýna í Árneshreppi á morgun kl. 20:00 ef fært verður og á laugardaginn verður sýning á Ketilási í Fljótum og hefst sú sýning kl. 21:00. Helgina eftir eða laugardaginn 29. apríl verður sýning í Bolungarvík og daginn eftir þann 30. apríl verður sýnt á Þingeyri. Báðar þær sýningar hefjast kl. 20:00. Eins er ætlunin að sýna í Mosfellsbæ þann 7. maí og á Hvammstanga 13. maí. Vel hefur gengið með sýningarnar það sem af er þó aðsókn hefði mátt vera betri á Hólmavík. [Innsett 19. apr. 2006 - JJ]
Fiskarnir á Hólmavík í kvöld Þriðja sýning á gamanleiknum Fiskar á þurru landi eftir Árna Ibsen verður í Bragganum á Hólmavík í kvöld, mánudaginn 17. apríl og hefst kl. 20:00. Jafnframt er um að ræða síðustu sýningu á Hólmavík í bili, en Leikfélag Hólmavíkur hyggur á útrás með stykkið á næstu vikum. Sýnt verður í Ketilási í Fljótum næsta laugardag og hefst sýningin þar kl. 21:00. Fjórir leikarar leika í verkinu, en leikstjóri er Kolbrún Erna Pétursdóttir. [Innsett 17. apr. 2006 - JJ]
Gagnrýni frá Ása á Hnitbjörgum Leikfélag Hólmavíkur frumsýndi í gær leikritið Fiskar á þurru landi eftir Árna Ibsen og var gerður góður rómur að. Vefnum hefur borist fyrsta leikhúsgagnrýnin sem er birt hér að neðan, en það var Áskell Benediktsson á Hnitbjörgum sem setti saman gagnrýni eftir frumsýninguna. Næstu sýningar eru á laugardag og mánudag og hefjast báðar kl. 20:00 í Bragganum á Hólmavík. Einnig er ritstjórn kunnugt um sýningu í Ketilási í Fljótum laugardaginn 22. apríl, kl. 21:00. Leikhúsrýni - Leikfélag Hólmavíkur:
Fiskar á þurru landi Fimmtudaginn
13. apríl frumsýndi
Leikfélag Hólmavíkur Fiska á þurru landi
eftir Árna Ibsen. Leikstjóri er Kolbrún Erna Pétursdóttir. [Innsett 14. apr. 2006 - JJ]
Frumsýning í kvöld Leikfélag Hólmavíkur frumsýnir í kvöld gamanleikritið Fiskar á þurru landi eftir Árna Ibsen í Bragganum á Hólmavík og hefst kl. 20:00. Þetta er 31. stóra verkefni Leikfélagsins frá upphafi en Leikfélag Hólmavíkur var stofnað þann 3. maí 1981, svo það fagnar brátt 25 ára afmælisdegi sínum. Fjórir leikarar taka þátt í þessari uppfærslu leikfélagsins auk fjölda annarra sem ævinlega þarf til að koma upp einu leikriti. Leikstjóri er hin góðkunna leikkona Kolbrún Erna Pétursdóttir. Önnur sýning verður á laugardaginn á sama tíma og þriðja sýning annan í páskum. Gunnar B. Melsted, Úlfar Örn Hjartarson, Rúna Stína Ásgrímsdóttir og Jóhanna Ása Einarsdóttir leika í sýningunni og eins og venjulega taka margir félagar í Leikfélaginu þátt í vinnu við sviðsmynd, búninga, leikskrá, förðun og önnur verkefni sem tilheyra svona uppsetningu. Eins og venjulega hugar Leikfélagið svo á leikferðir með verkið, en leikfélagið er þekkt fyrir hversu víðförult þar er. Hér í nágrenninu er hugmyndin að fara í Króksfjarðarnes, Drangsnes, Árneshrepp og á Hvammstanga, en ætlunin er líka að heimsækja Ketilás í Skagafirði, Bolungarvík, Þingeyri og Mosfellsbæ og sýna þar. [Innsett 13. apr. 2006 - JJ]
Frumsýning framundan Leikritið Fiskar á þurru landi eftir Árna Ibsen sem Leikfélag Hólmavíkur hefur verið að æfa undanfarnar vikur verður frumsýnt um páskana. Frumsýning verður á skírdag, 13. apríl, og einnig verða sýningar laugardaginn 15. apríl og á annan í páskum, mánudaginn 17. apríl. Þessar þrjár fyrstu sýningar fara allar fram í Bragganum á Hólmavík og hefjast kl. 20:00. Leikstjóri er Kolbrún Erna Pétursdóttir. Eins og venjulega hyggur Leikfélagið svo á leikferðir með verkið, en leikfélagið er þekkt fyrir hversu víðförult þar er. Hér í nágrenninu er hugmyndin að fara í Króksfjarðarnes, Drangsnes, Árneshrepp og á Hvammstanga, en ætlunin er líka að heimsækja Ketilás, Bolungarvík, Þingeyri og Mosfellsbæ og sýna þar. [Innsett 4. apr. 2006 - JJ]
Leikfélagið rétt missti af viskubikarnum Á sunnudaginn fylgdust Strandamenn með æsispennandi lokabaráttu í Spurningakeppni Strandamanna 2006. Stóð baráttan milli þeirra fjögurra liða sem eftir stóðu eftir 12 liða keppni sem hófst í febrúar. Keppnirnar voru allar hnífjafnar og réðust úrslit í þeim öllum í síðustu spurningum. Í fyrri umferð sigruðu Strandamenn í Kennaraháskóla Íslands lið kennara við Grunnskólann á Hólmavík og starfsmenn Hólmdrangs sigruðu Leikfélag Hólmavíkur. Báðum viðureignunum lauk með eins stigs mun. Í úrslitaviðureigninni sigraði svo Hólmadrangur Strandamenn í KHÍ 17-14, en úrslitin réðust í síðari vísbendingaspurningunni. Fyrir utan heiðurinn hlutu þeir Viskubikarinn að launum til varðveislu í eitt ár og vegleg bókaverðlaun ásamt páskaeggi. Umsjónarmenn spurningakeppninnar í ár sem Sauðfjársetrið stendur fyrir voru þau Jón Jónsson spyrill, Ester Sigfúsdóttir, Kristján Sigurðsson og Matthías Lýðsson, auk þess sem fjölskyldur þeirra og Svanhildar Jónsdóttur komu að undirbúningnum. Í lok keppninnar var tilkynnt að Arnar Snæberg Jónsson hefði tekið að sér hlutverk spyrils á næsta ári. Allir sem nefndir voru í þessari málsgrein eru virkir meðlimir Leikfélags Hólmavíkur. [Innsett 28. mars 2006 - JJ]
Leikfélagið í úrslit !!! Nú er orðið ljóst hverjir keppa til úrslita í Spurningakeppni Strandamanna á lokakvöldinu sem fram fer sunnudaginn 26. mars næstkomandi. Það eru lið Hólmadrangs, Kennarar við Grunnskólann á Hólmavík, Leikfélag Hólmavíkur og Strandamenn í Kennaraháskólanum sem tryggðu sér þátttöku á úrslitakvöldinu í feykilega spennandi spurningakeppni sem fram fór í gær í Félagsheimilinu á Hólmavík. Mjótt var á munum í öllum keppnum kvöldsins og úrslitin réðust ekki fyrr en í vísbendingaspurningunum tveim í lokin í öllum keppnunum. Reyndar í sjálfri lokaspurningunni í tveimur keppnum af þremur. Hólmadrangur lagði lið Strandamanna í Kennaraháskólanum í fyrstu keppni kvöldsins með 20 stigum gegn 17. Úrslitin réðust þar með þriggja stiga svari við vísbendingaspurningu í lokin. Niðurstaðan varð þó að lokum sú að bæði lið komust áfram í 4-liða úrslitin, því Kennaranemarnir voru stigahæsta tapliðið í keppnum kvöldsins og komust áfram á því. Önnur keppni kvöldsins var ekki síður spennandi á milli Sparisjóðs Strandamanna og Leikfélags Hólmavíkur. Þar réðust úrslitin einnig með þriggja stiga svari við vísbendingarspurningu sem var næstsíðasta spurning kvöldsins. Stigaskorið var 19-15 fyrir Leikfélaginu að lokum. Í þriðju keppni kvöldsins lögðu Kennarar við Grunnskólann á Hólmavík síðan lið Kaupfélags Steingrímsfjarðar með 12 stigum gegn 10 þar sem úrslitin réðust ekki heldur fyrr en í lokaspurningu. Þorbjörg Matthíasdóttir í Húsavík spilaði á þverflautu fyrir gesti eftir hléið, en það hefur verið venja í vetur að hafa tónlistaratriði á spurningakeppninni þar sem nemendur í Grunnskólanum á Hólmavík koma fram. Í lok kvöldsins var dregið fyrir úrslitakvöldið og var niðurstaðan sú að Strandamenn í Kennaraháskólanum mæta Kennurum við Grunnskólann á Hólmavík. Hólmadrangur mætir hins vegar Leikfélagi Hólmavíkur og sigurliðin úr þessum viðureignum keppa síðan til úrslita sama kvöld. [Innsett 13. mars 2006 - JJ]
Fiskar á þurru landi Leikfélag Hólmavíkur er farið af stað með æfingar á nýju leikriti. Leikverkið sem stefnt er að að setja upp heitir Fiskar á þurru landi og er eftir Árna Ibsen. Leikstjóri er Kolbrún Erna Pétursdóttir. Fjórir leikarar taka þátt í sýningunni, tveir karlmenn og tvær konur. Fyrsti leiklestur var 1. mars og áætluð frumsýning er sex vikum síðar eða fimmtudaginn 13. apríl (skírdag). Eins og alltaf hjá leikfélaginu verða nokkrar sýningar hér á Hólmavík, farið verður líklega síðan af stað og sýnt á Drangsnesi, Árnesi og mörgum fleiri stöðum. [Innsett 3. mars 2006 - JJ]
Leikfélagið komst áfram !!! Síðastliðinn sunnudag fóru fram þrjár viðureignir í fyrstu umferð Spurningakeppni Sauðfjársetursins 2006. Þar mættu Strandamenn í Kennaraháskólanum liði nemenda við Grunnskólann á Hólmavík í fyrstu umferð og fóru leikar þannig að kennaranemarnir unnu 21-10. Önnur keppni kvöldsins var sú jafnasta í keppninni til þessa. Þar mættust lið Leikfélags Hólmavíkur og kennarar við Grunnskólann á Drangsnesi og var jafnt að lokum 20-20. Kom til bráðabana í keppninni þar sem Leikfélagið svaraði spurningunni rétt. Þriðja keppnin var milli Félagsmiðstöðvarinnar Ozon og kennara í Grunnskólanum á Hólmavík þar sem kennarar sigruðu 19-10. Í lok kvöldsins var dregið í sex liða úrslitum sem fram fara þann 12. mars í Félagsheimilinu á Hólmavík. Þau lið sem mætast þar eru:
Búast má við jöfnum og spennandi keppnum þar sem sigurliðin þrjú komast áfram á úrslitakvöldið, ásamt því tapliði sem verður stigahæst. [Innsett 2. mars 2006 - JJ]
Leikfélagar með spunaleik á menningarhátíð. Lista- og menningarhátíð sem undirbúin er og skipulögð af unglingum í félagsmiðstöðinni Ozon er orðinn að árlegum viðburði í menningarlífi á Ströndum. Að þessu sinni verður hátíðin haldin í félagsheimilinu á Hólmavík 25. febrúar nk. Einar Már Guðmundsson rithöfundur verður aðalgestur kvöldsins, les úr verkum sínum og spjallar við samkomugesti. Aðrir sem koma fram eru m.a. Stefanía Sigurgeirsdóttir píanóleikari og Þorbjörg Matthíasdóttir þverflautuleikari, félagar úr Leikfélagi Hólmavíkur, uppistand með Júlla hinum eina sanna, fjölbreytt atriði frá unglingunum í Ozon, tónlistarmennirnir Hjörtur og Rósi Núma ásamt söngvaranum Lýð Jónssyni. Þá skemmta unglingahljómsveitirnar Dansband Victors og Micado, Söngvaskáldið Kristján Sigurðsson og Lára G. Agnarsdóttir söngkona, sönghópurinn Bjútí and ðe bíst, Stefán Jónsson píanóleikari, Bjarni Ómar & beibís, kvikmyndagerðarmenn úr Stuntman hópnum sýna brot af því besta, siguratriðið í Vestfjarðariðli söngvakeppni Samfés o.fl. Þeir leikfélagar sem reyna með sér í spunaleik á Menningarhátíðinni að þessu sinni eru Jón Jónsson, Jóhanna Ása Einarsdóttir, Bjarki Þórðarson og Úlfar Hjartarson. [Innsett 21. feb. 2006 - JJ]
Fundur hjá Leikfélaginu Fundur verður haldinn hjá Leikfélagi Hólmavíkur á miðvikudagskvöld klukkan 20:30 í félagsheimilinu, vegna komandi uppfærslu. Allir sem áhuga hafa á að vera með í leikriti þetta vorið eru hvattir til að mæta og minnt er á að Leikfélagið vantar mjög tilfinnanlega karla til að manna ýmis hlutverk. Verið er að ganga frá ráðningu leikstjóra og endanlegu vali á stykki. [Innsett 14. feb. 2006 - JJ] Leikfélagið í spurningakeppni Nú fyrir skemmstu var dregið í fyrstu umferð í Spurningakeppni Strandamanna árið 2006, sem Sauðfjársetur á Ströndum stendur fyrir. Tólf lið skráðu sig til leiks að þessu sinni og verður fyrsta umferðin háð nú á sunnudaginn 12. febrúar í Félagsheimilinu á Hólmavík og hefst keppnin kl. 20:00. Þrjár viðureignir fara fram á sunnudaginn, en hinar þrjár keppnirnar í fyrstu umferð fara fram sunnudaginn 26. febrúar. Sigurliðin í þessum viðureignum komast áfram í keppninni. Viðureignir sunnudaginn 12. febrúar: Kaupfélag
Steingrímsfjarðar - Félag eldri borgara Viðureignir sunnudaginn 26. febrúar: Strandamenn
í KHÍ - Nemendur Hólmavíkurskóla [Innsett 7. feb. 2006 - JJ]
Leiklestur á Klerkum í klípu Fimmtudaginn 12. janúar verður Leikfélag Hólmavíkur með leiklestur á hinu gamalkunna gamanleikriti Klerkar í klípu eftir Philip King klukkan 20:00 í Félagsheimilinu á Hólmavík. Allir sem hafa áhuga á að starfa með við uppsetningu á vorverki félagsins eru hvattir til að mæta, einnig þeir sem vilja gera eitthvað allt annað en að leika en fjölda starfa þarf að inna af hendi til að koma upp einni leiksýningu. Karlmenn eru sérstaklega hvattir til að láta sjá sig og kynnast starfseminni en í tilkynningu frá leikfélaginu segir að frekar erfitt hafi verið að fá karlmenn til að taka þátt og eru þeir því sérstaklega hvattir til að koma og vera með. [Innsett 10. jan. 2006 - JJ]
Jón Ingimundarson að meika það ... Leikfélag Menntaskólans á Akureyri sýnir nú leikritið Ósýnilega köttinn, norskan gamansöngleik sem er þýddur af einum nemanda við skólann, Hafliða Arnari Hafliðasyni. Söngtextana gerði Ævar Þór Benediktsson og leikstýrur eru Ester Talia Casey og Álfrún Örnólfsdóttir sem gera það gott hjá Leikfélagi Akureyrar um þessar mundir. Hljómsveitarstjóri er Jón Ingimundarson (Jóhannssonar) leikfélagi vor frá Hólmavík og fer hann fyrir fríðum flokki hæfileikaríkra tónlistamanna við skólann sem taka þátt í sýningunni, ásamt 23 leikurum og fjölmörgum ómissandi hjálparkokkum. Um er að ræða er frumsýningu á Ósýnilega kettinum á íslenskri grundu, en höfundar verksins eru Norðmennirnir Ewoud van Veen og Sigurd Fischer Olsen. Leikritið fjallar um konunginn af Fáránlandi og köttinn hans sem enginn annar en hann getur séð. Verkið verður sýnt í Kvosinni fram undir jól. Jón og bekkjarsystir hans troða upp sem forsöngvarar á árshátíð MA sem haldin er 1. des ár hvert. [Innsett 12. des. 2005 - JJ]
Ekkert varð af Bændahátíðinni Bændahátíð sem átti að vera í Sævangi í kvöld hefur verið aflýst vegna ónógrar þátttöku. "Skráningin byrjaði ágætlega, en svo kom nánast ekkert í viðbót seinni part vikunnar og frekar að menn heltust úr lestinni," segir Jón Jónsson framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins. "Okkur finnst leiðinlegt að aflýsa vegna þeirra sem þó ætluðu að mæta. En við mætum bara tvíefldir til leiks á næsta ári og þá á öðrum tíma og reynum líklega jafnframt að víkka út markhópinn sem höfðað er til með Bændahátíðinni. Fólki hefur fækkað umtalsvert hér í sveitunum og menn hafa heldur ekkert yngst síðustu árin. Aðstæður hafa þannig breyst töluvert á þessum fimm árum sem liðin eru frá því við endurvöktum hátíðina og við verðum bara að vinna í samræmi við það." Jón Jónsson og Svanhildur Jónsdóttir voru "búin" að semja skemmtiatriði fyrir Leikfélag Hólmavíkur og var rétt byrjað að æfa þau. Ekki þýðir þó að gráta Björn bónda, því þau verða væntanlega notuð einhvern tíma í óljósri framtíð. [Innsett 20. nóv. 2005 - JJ]
Æft fyrir Bændahátið Samvalinn hópur úr Leikfélagi Hólmavíkur æfir nú stíft skemmtidagskrá fyrir Bændahátíð á Ströndum sem haldin verður nú á laugardaginn. Prógrammið er að mestu sett saman af systkinunum Jóni og Svanhildi Jónsbörnum frá Steinadal og er skotið þéttingsfast í allar áttir að venju. Heyrst hefur að meðal annars verði litið inn á miðilsfund á Ströndum í skemmtiatriðunum miðjum þar sem yfirnáttúrulegir atburðir gerast og einnig verði litið á piparsveinasamkeppni á Ströndum sam haldin er í anda raunveruleikaþátta sem nú eru mjög vinsælir í sjónvarpi. [Innsett 16. nóv. 2005 - JJ]
Nýtt spunatröll valið Árlegt leikhússport Leikfélags Hólmavíkur fór fram í gærkvöld. Fjögur tveggja manna lið reyndu þar með sér í spunaleik og var dregið í lið á staðnum. Gekk leikurum að venju misjafnlega að skapa söguþráð af fingrum fram og halda sig við þann stíl sem ákveðið var á örskotsstundu að leika í hverju sinni, en bæði áhorfendur og leikarar skemmtu sér hið besta. Liðið Hjónakornin fór að lokum með sigur af hólmi, en það skipuðu hjónin Jón Jónsson og Ester Sigfúsdóttir á Kirkjubóli. Áhorfendur völdu einnig Spunatröll Leikfélagsins og sigraði Jón í þeirri kosningu og tekur við titlinum af Bjarka Þórðarsyni sem sigraði í fyrra. Þrír dómarar, Áskell Benediktsson á Hnitbjörgum, Ásdís Leifsdóttir og Salbjörg Engilbertsdóttir dæmdu keppnina. Núverandi formaður Leikfélagsins er Jóhanna Ása Einarsdóttir. [Innsett 13. nóv. 2005 - JJ]
Spunakvöld um helgina Eins og venjulega er ýmislegt um að vera um helgina á Ströndum. Hæst ber Spunakvöld hjá Leikfélagi Hólmavíkur sem haldið verður í Bragganum á Hólmavík laugardagskvöldið kl. 20:30. Þar reyna leikfélagar með sér í leikhússporti eða spunaleik og allir sem áhuga hafa á góðri skemmtun mæta og fylgjast með. Slíkt kvöld var einnig haldið fyrir ári og var mikið fjör þar sem fjögur lið kepptu hvert við annað í spunaleik. [Innsett 11. nóv. 2005 - JJ]
Námskeið og spunakvöld framundan Í kvöld hefst almennt leiklistarnámskeið á vegum Leikfélags Hólmavíkur sem stendur út þessa viku. Það er Elvar Logi Hannesson sem kennir á námskeiðinu en farið verður í margvíslega grunnþætti eins og framsögn og öndun og fleira skemmtilegt. Námskeiðið er haldið í Félagsheimilinu og hefst kl. 20:00. Enn er hægt að bæta nokkrum við á námskeiðið og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband og skrá sig í síma 865-3838. Í framhaldi af námskeiðinu verður um næstu helgi, þann 12. nóvember, haldið spunakvöld í Bragganum. Hefst sú skemmtun klukkan 20:30. Allir áhugasamir eru velkomnir á spunakvöldið, hvort sem er til að gera sér dagamun eða skemmta öðrum með leik sínum. [Innsett 7. nóv. 2005 - JJ]
Leiklistarnámskeið á Ströndum Dagana 7.-11. nóvember mun Arnfirðingurinn Elvar Logi Hannesson halda almennt leiklistarnámskeið á Hólmavík. Kennd verður öndun, framsögn og fleira sem tilheyrir leiklistinni. Kennt verður 5 kvöld í röð. Allir áhugasamir eru hvattir til að skrá sig og í dreifibréfi Leikfélags Hólmavíkur eru bæði óreyndir og reyndir leikarar, kórfólk og aðrir söngvarar, sveitarstjórnarmenn og allir aðrir sem þurfa að koma fram opinberlega hvattir til að mæta. Skráning er í síma 865-3838. [Innsett 31. okt. 2005 - JJ]
Lýst er eftir leikara Leikfélag Hólmavíkur sárvantar eitt stykki leikara til að taka þátt í uppfærslu á stuttu gamanstykki sem ætlunin er að setja upp og sýna á skemmtikvöldi í október. Ekki eru gerðar miklar kröfur til viðkomandi, helst þær að hann sé karlkyns eða líti að minnsta kosti út fyrir að vera karlkyns. Allir karlar sem vilja spreyta sig í viðráðanlegu litlu verki eru því hvattir til að hafa samband við Ásu Einarsdóttur formann Leikfélagsins í síma 456-3626 - fljótt, í snatri og undireins. [Innsett 26. sept. 2005 - JJ]
Bændahátíð undirbúin Ákveðið hefur verið að árleg Bændahátíð Sauðfjárseturs á Ströndum verði ekki haldin fyrr en í seinni hluta október þetta árið. Síðustu ár hefur hátíðin verið haldin fyrstu eða aðra helgi í september, en báðar hafa reynst erfiðar fyrir hluta bændafólks vegna anna við smalamennskur. Því er nú ákveðið að gera tilraun með að halda Bændahátíðina nokkru seinna á árinu en áður og vonast til að það takist áður en veður gerast válynd. Leikfélag Hólmavíkur mun sjá um skemmtiatriðin að venju. [Innsett 7. sept. 2005 - JJ]
Vefurinn í dvala Eins og hvert gáfumenni getur séð hefur Leikfélagslúðurinn legið í dvala um hríð. Það er þó kannski ekki bara vegna þess að ekkert hefur gerst. Þvert á móti hefur ýmislegt gerst. Leikfélagið tók t.a.m. þátt í Hamingjudögum á Hólmavík sumarið 2005 og nýr formaður tók við af þeim gamla sem flutti til Reykjavíkur. Það er Jóhanna Ása Einarsdóttir sem tók völdin, eftir að Arnar hvarf sviplega í byrjun sumars. Ekkert leikrit var þó sett á svið vorið 2005, eins og að var stefnt, fór það fyrir ofan garð og neðan af ýmsum ástæðum. [Innsett 27. ágúst. 2005 - JJ]
Leikfélaginu boðið í kaffi Sauðfjársetrið í Sævangi hefur ákveðið að bjóða félögum í Leikfélagi Hólmavíkur í kaffi, kleinur og snúða, í Sævangi á morgun, sunnudaginn 28. ágúst kl. 16:00. Allir virkir leikfélagar sem hafa tekið þátt í starfi félagsins síðustu árin eru hjartanlega velkomnir og líka þeir sem hafa áhuga á að vinna með félaginu í vetur. Ætlunin er að spjalla um hitt og þetta tengt Leikfélaginu og samstarfi þessara aðila, en ekki er um formlegan fund að ræða. Einnig er öllum þeim sem aðstoðað hafa Sauðfjársetrið við uppákomur og atburði eða troðið upp á atburðum á vegum safnsins boðið í kaffi á sama tíma á morgun. Þar sem ómögulegt er að láta alla vita af kaffiboðinu eru menn hvattir til að láta fagnaðarerindið spyrjast út. [Innsett 27. ágúst. 2005 - JJ] |
||
Spakmæli síðunnar: „Eitt er um að tala, annað að framkvæma.“ |
|