Leikfélag Hólmavíkur |
|||
|
Fréttir
af leikárinu 2006-7 með því að smella
hérna.
Þjóðsagnasprell á Hamingjudögum á Hólmavík Leikfélag Hólmavíkur lét ekki sitt eftir liggja á Hamingjudögum á Hólmavík og stóð fyrir skemmtiatriði sem var á dagskránni á laugardeginum. Hér var um að ræða þjóðsagnasprell sem vakti mikla lukku. Voru þar sagðar sögur og þær leiknar, spilað og sungið, við mikinn fögnuð áhorfenda. Dagskráin á Hamingjudögum var færð inn í Félagsheimilið á Hólmavík á laugardeginum vegna veðurs, en kom það ekki að sök við atriði Leikfélagsins. [Innsett
1. júlí 2008 - JJ] Þriðji ísbjörninn á Hamingjudögum Í gönguferð að kvöldlagi á Hamingjudögum á Hólmavík þar sem Jón Alfreðsson sá um leiðsögn mættu göngumenn björgunarsveitarmanni sem benti þeim á þreytulegan ísbjörn sem lá í laut í grenndinni. Kom í ljós við nánari eftirgrennslan að þarna var mættur þriðji björninn sem heimsækir Ísland í vor. Þríbjörn er vingjarnlegur bangsi sem urraði heilmikið, en rétti þó fram hramminn og heilsaði Einari Ögmundssyni með virktum eins og sjá má á mynd hér að neðan, virtist kannast við kauða. Eins og allir vita eru ísbirnir stórhættulegir, þannig að menn gengu í að reyna að svæfa björninn og gaf Snorri Jónsson gaf honum bjór í því skyni, sem björninn svolgraði í sig með bestu lyst. Fór hann síðan glaður í bragði inn í búr og var farið með hann niður í Hólmadrang og þar er hann nú alveg rorrandi að gæða sér á rækjum. Grunur leikur á að Leikfélag Hólmavíkur hafi vélað björninn á svæðið. Ríkislögreglustjóri rannsakar nú málið.
Ísbjörninn færður á brott - ljósm. Svanhildur Jónsdóttir [Innsett
28. júní 2008 - JJ] Þjóðsagnadagskrá á Heilbrigðisstofnuninni á Hólmavík Eftir hádegi í dag héldu félagar í leikfélagi Hólmavíkur forsýningu á þjóðsagnadagskrá sem verður hluti af útidagskránni á Klifstúni á Hamingjudögum á Hólmavík. Forsýningin fór fram á sjúkradeild Heilbrigðistofnunarinnar þar sem þakklátir vistmenn og starfsmenn nutu dagskrár með leik, söng, flautuleik og látbragði. Dagskráin var sett saman í tilefni Hamingjudaga, af Hrafnhildi Guðbjörnsdóttur, sem jafnframt leikstýrir þjóðsagnaverkefninu. Síðar í sumar verður heilstæð dagskrá með þjóðsagnaþema sett upp á vegum Leikfélags Hólmavíkur í samvinnu við Félag eldri borgara. [Innsett
27. júní 2008 - JJ] Menningarstyrkjum úthlutað á Hólmavík Það var sannkölluð hátíðarstemmning í Félagsheimilinu á Hólmavík sumardaginn fyrsta, en þar úthlutaði Menningarráð Vestfjarða styrkjum sínum við formlega athöfn. Þessi styrkúthlutun var sú fyrri á þessu ári, en aftur verður úthlutað í október. Við athöfnina voru flutt erindi í tilefni af úthlutun Menningarráðsins og opnun Þróunarseturs á Hólmavík, auk þess sem Leikfélag Hólmavíkur, Grunnskólinn og Tónskólinn buðu upp á skemmtiatriði úr sýningunni Dýrunum í Hálsaskógi. Samtals voru veittir styrkir til 47 verkefna að þessu sinni, samtals að upphæð 17,6 milljónir og fóru nokkrir þeirra á Strandir til ólíkra og skemmtilegra verkefna. Hér fyrir neðan má sjá myndir frá athöfninni. Tveir styrkir rötuðu til Leikfélags Hólmavíkur að þessu sinni. Fjölmenni var við úthlutunina. Í ræðupúlti má sjá Jón Jónsson, menningarfulltrúa Vestfjarða. Hálsaskógarbandið í fullum herklæðum. Menningarráð Vestfjarða, f.v. Arnar S. Jónsson, Dagbjört Hjaltadóttir, Gerður Eðvarsdóttir, Sveinn Valgeirsson, Ólína Þorvarðardóttir og menningarfulltrúinn Jón Jónsson. Í tréinu trónir síðan Gunnar Hallsson formaður Menningarráðsins, en Leifur Ragnar Jónsson átti ekki heimangengt frá Patreksfirði. Ánægðir styrkþegar á sviðinu í félagsheimilinu ásamt Menningarráði - ljósm. Hildur Guðjónsdóttir Meðal
verkefna sem styrkt voru, öllum til ánægju: [Innsett
30. apríl 2008 - JJ] Dýrin í Hálsaskógi sýnd 9. apríl Fjórða sýning á leikritinu Dýrin í Hálsaskógi verður í Félagsheimilinu á Hólmavík miðvikudagskvöldið 9. apríl og hefst kl. 19:00. Búið er að sýna leikritið tvisvar áður á Hólmavík og einnig var farið í leikferð í Króksfjarðarnes og eru á fjórða hundrað áhorfendur búnir að sjá stykkið. Verkið er samvinnuverkefni Grunnskólans og Tónskólans á Hólmavík og Leikfélags Hólmavíkur (www.holmavik.is/leikfelag) og er uppsetningin styrkt af Menningarráði Vestfjarða. Allir sem eiga eftir að sjá þessa skemmtilegu uppfærslu eru hvattir til að mæta á sýninguna. [Innsett
8. apríl 2008 - JJ] Einþáttungar á sviðið í vor Í fréttatilkynningu frá Leikfélagi Hólmavíkur kemur fram að á döfinni er að setja upp nokkra einþáttunga á vegum félagsins sem áætlað er að frumsýna í maí. Áhugasamir leikarar eru því beðnir um að gefa sig fram við stjórn félagsins hið fyrsta og ekki seinna en sunnudaginn 30. mars, þar sem hefja á æfingar í byrjun apríl. Endanlegu vali á þáttum er ekki lokið, en verið er að skoða ýmsa möguleika. Heimamenn verða ráðnir til að leikstýra leikþáttunum að þessu sinni. Nánari upplýsingar gefa stjórnarmenn í Leikfélagi Hólmavíkur: Ása 456-3626, Svanhildur 451-3178 og Salbjörg 865-3838. [Innsett
21. mars 2008 - JJ] Sýningar á Dýrunum í Hálsaskógi ganga vel Leiksýningin Dýrin í Hálsaskógi hefur verið ljómandi vel sótt, en tvær sýningar eru búnar á Hólmavík og vel á þriðja hundrað manns hafa mætt á leikritið. Í dag heldur leikhópurinn í leikferð með allt sitt hafurtask, sviðsmynd og búninga, ljós og leikara, hljómsveit, hjálparhellur og tæknimenn. Ætlunin er að sýna í Vogalandi í Króksfjarðarnesi í dag kl. 17:00 og lögðu sviðsmenn af stað í rauða býtið til að undirbúa allt. Alls taka næstum 60 manns þátt í uppsetningunni með einum eða öðrum hætti, en verkefnið er samstarfsverkefni Grunnskólans og Tónskólans á Hólmavík og Leikfélags Hólmavíkur. Megin uppistaða leikarahópsins er í elstu þremur bekkjum Grunnskólans, en einnig taka reyndir leikarar þátt í uppsetningunni. Ljósm. Jón Jónsson, Þórður Halldórsson, Ester Sigfúsdóttir og fleiri. [Innsett
. 16. mars 2008 - JJ] Dýrin í Hálsaskógi frumsýnd í kvöld Í kvöld verður söng- og barnaleikritið Dýrin í Hálsaskógi frumsýnt á Hólmavík. Leikritið er samvinnuverkefni Grunnskólans og Tónskólans á Hólmavík og Leikfélags Hólmavíkur og hafa stífar æfingar staðið yfir síðustu vikur undir stjórn Hrafnhildar Guðbjörnsdóttur og Bjarna Ómars Haraldssonar. Önnur sýning er á morgun laugardag kl. 15:00 og þriðja sýning í Króksfjarðarnesi á sunnudag kl. 17:00. Leikhópurinn sem samanstendur bæði af unglingum og fullorðnum leikurum vonast eftir að sem allra flestir mæti til að sjá afrakstur erfiðisins. Alls hafa 52 einstaklingar unnið að uppsetningunni. [Innsett
. 14. mars 2008 - JJ] Litið við á leikæfingu Frumsýning Leikfélags Hólmavíkur, Tónskóla Hólmavíkur og Grunnskólans á Hólmavík á hinu geysivinsæla leikverki Dýrin í Hálsaskógi eftir Norðmanninn Thorbjørn Egner nálgast nú óðfluga. Uppsetningin er samstarfsverkefni fyrnefndra stofnana og félags, en leikstjóri er Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir og tónlistarstjóri er Bjarni Ómar Haraldsson. Frumsýnt verður í félagsheimilinu á Hólmavík nk. föstudag, þann 14. mars kl. 19:00. Önnur sýning verður einnig í félagsheimilinu 15. mars kl. 15:00 og síðasta sýningin fer síðan fram í Vogalandi í Króksfjarðarnesi á pálmasunnudag kl. 17:00. Fréttaritari strandir.is kíkti á fjöruga æfingu í gærkvöldi og smellti af nokkrum myndum. Bakaradrengurinn og Bangsi litli (Daníel og Magnús). Hér mætast kynslóðir - og fjölskyldur. Kristján Sigurðsson og Agnes Kristjánsdóttir hamra á hljóðfærin. Nokkrir snillingar sjá um hljóðið - Lárus Orri Eðvarðsson er einn af þeim. Leikæfingar geta verið langar og strangar. Hér sefur Bóndinn (Jón Gústi Jónsson) svefni hinna ranglátu. Stórleikarinn Einar Indriðason fer listilega með hlutverk Mikka Refs. Marteinn Skógarmús (Arna Margrét Ólafsdóttir) er helsti verkalýðsforkólfurinn í Hálsaskógi. Leikhópurinn eins og hann leggur sig - nema hundurinn Habbakúk (leikinn af Jóni Jónssyni). Hann er of vitlaus til að vera með í svona virðulegri myndatöku. - Ljósm. Arnar S. Jónsson [Innsett
11. mars 2008 - JJ] Félagatal Leikfélagsins endurvakið Á aðalfundi Leikfélags Hólmavíkur sem haldinn var nýlega, var samþykkt að endurvekja félagatal Leikfélagsins. Þeir sem vilja verða skráðir leikfélagar eru því beðnir að senda tölvupóst til ritara leikfélagsins á svanajon@holmavik.is og verða þeir einnig settir á póstlista félagsins. Ef menn hafa ekki aðgang að tölvu og sjá þarafleiðandi ekki þessa tilkynningu, geta þeir hringt í Svanhildi Jónsdóttur ritara (s: 451-3178) þegar þeir frétta af þessu og verða þá skráðir félagar. Einnig langar Leikfélag Hólmavíkur að biðja þá sem eiga myndir frá undirbúningi og sýningum á leikverkum síðustu tveggja ára, að lána þær til að setja á vef félagsins og má koma þeim til stjórnarmanna sem eru nú sem áður Ása, Salbjörg og Svanhildur. [Innsett
2. mars 2008 - JJ] Leikfélagið hyggst heiðra Stein Steinarr Á fundi sem haldin var í Menningarmálanefnd Strandabyggðar fimmtudaginn 7. febrúar 2008 kom fram að 100 ára fæðingarafmæli skáldsins Steins Steinarr er nú í haust 8. október 2008. Jóhanna Ása Einarsdóttir, formaður Leikfélags Hólmavíkur, greindi á fundinum frá því að leikfélagið hefði áhuga á að setja upp verk í tilefni af því, byggt á ævi Steins Steinars. Í umræðunni hefur verið að Menningarmálanefnd standi fyrir hátíðarhöldum í tilefni þessa. [Innsett
20. feb. 2008 - JJ] Leikfélag Hólmavíkur (aðal)fundar kl. 17:00 Í fréttatilkynningu frá Leikfélagi Hólmavíkur kemur fram að aðalfundur félagsins verður haldinn í dag, sunnudaginn 17. febrúar kl. 17:00 í félagsheimilinu á Hólmavík. Áður hafði verið auglýst að fundurinn yrði kl. 16:00. Á aðalfundi eru yfirleitt venjuleg aðalfundarstörf á dagskránni, nammiát og margvíslegt spjall um liðna tíð og fyrirhuguð framtíðarafrek.
Aðalfundi Leikfélags Hólmavíkur frestað Í fréttatilkynningu frá Leikfélagi Hólmavíkur kemur fram að aðalfundi félagsins sem halda átti á morgun hefur verið frestað til sunnudagsins 17. febrúar og verður hann þá haldinn kl. 16:00 í félagsheimilinu á Hólmavík. Á aðalfundi eru yfirleitt venjuleg aðalfundarstörf á dagskránni, nammiát og margvíslegt spjall um liðna tíð og fyrirhuguð framtíðarafrek.
Strandabyggð styrkir menningarstarf Á fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar í gær voru teknar fyrir beiðnir frá Leikfélagi Hólmavíkur og kvennakórnum Norðurljós um stuðning við fyrirhuguð verkefni. Báðar styrkumsóknirnar fengu jákvæða afgreiðslu. Samþykkt var samhljóða að styrkja kvennakórinn Norðurljós um 50 þúsund vegna fyrirhugaðrar útgáfu hljómdisks í sumar og Leikfélag Hólmavíkur um 200 þúsund vegna fyrirhugaðrar sýningar á Dýrunum í Hálsaskógi í samvinnu við Grunnskólann á Hólmavík og Tónskóla Hólmavíkur. Er þessi afgreiðsla mikið gleðiefni. [Innsett
30. jan. 2008 - JJ] Jólastund á Hólmavík Í dag var haldin svokölluð Jólastund hjá Leikfélagi Hólmavíkur, þar sem jólalög, upplestur og fróðleikur um gömlu íslensku jólasveinana og ættingja þeirra var til skemmtunar. Mæting var fremur dræm, en þeir sem komu virtust skemmta sér ágætlega. Auk atriðanna voru kaffi, djús og piparkökur á boðstólum og sá nemendur í 8. og 9. bekk í Grunnskólanum á Hólmavík um þá hlið mála, enda eru þeir að safna fyrir Danmerkurferð næstkomandi haust. Jóhanna Ása Einarsdóttir, núverandi formaður Leikfélags Hólmavíkur, hafði veg og vanda af undirbúningi og skipulagningu dagskrárinnar. Jólastund hjá Leikfélaginu - ljósm. Dagrún Ósk, Jón Jónsson og Ester Sigfúsdóttir [Innsett
16. des. 2007 - JJ] Jólastund hjá Leikfélagi Hólmavíkur í dag Í dag kl. 17:00 verður svokölluð Jólastund á vegum Leikfélags Hólmavíkur í Félagsheimilinu á Hólmavík, en þar verður söngur og spil, upplestur og frásagnir sem tengjast jólunum til skemmtunar. Einnig er á boðstólum kaffi, djús og piparkökur til snæðings, en aðgangseyrir að skemmtuninni er kr. 500. Þetta er í fyrsta skipti sem Leikfélagið stendur að slíkri Jólastund í aðdraganda jólanna. [Innsett
16. des. 2007 - JJ] Frá leiksýningu 8.-10. bekkjar Grunnskólans á Hólmavík Krakkarnir í 8.-10. bekk Grunnskólans á Hólmavík héldu boðssýningu fyrir foreldra og ættingja sína í Félagsheimilinu á Hólmavík í síðustu viku. Þar var sýndur afraksturinn af verkefnavinnu í tjáningu sem bar yfirskriftina Frá hugmynd að sýningu. Alls voru sýndar 4 leiksýningar, frumsamið efni eða leikgerðir. Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir og Bjarni Ómar Haraldsson unnu að sýningunni með nemendunum. Ýmsir nemendur sýndu góða takta við leiklistina og ljóst má vera að Leikfélag Hólmavíkur þarf ekki að kvíða framtíðinni. Frá boðssýningu nemenda við Grunnskólann á Hólmavík - ljósm. Ester Sigfúsdóttir [Innsett 15. des. 2007 - JJ] Jólastund í Félagsheimilinu á Hólmavík Leikfélag Hólmavíkur stendur fyrir jólastund og jólagleði í Félagsheimilinu á Hólmavík kl. 17.00 sunnudaginn 16. desember. Sagðar verða jólasögur, sungin jólalög og fleira gert til skemmtunar, auk þess sem kaffi, djús og piparkökur verða til snæðings. Miðaverð á skemmtunina er 500 krónur. Forsvarsmenn Leikfélags Hólmavíkur vilja benda á að leikfélagið hefur ekki aðgang að posavél að þessu sinni.
Verkefnið Tónleikur fær styrk frá Menningarráði Vestfjarða Menningarráð Vestfjarða úthlutaði styrkjum í fyrsta sinn á föstudaginn við hátíðlega athöfn í Náttúrugripasafninu í Bolungarvík. Alls voru veitt framlög til 52 verkefna, en umsóknir voru 104. Hæstu framlögin að upphæð 1,5 milljónir fengu fyrirhugað Skrímslasetur á Bíldudal og fyrirhugað Sjóræningjahús á Patreksfirði til hönnunar og uppsetninga sýninga. Nokkur framlög komu til verkefna á Ströndum, þar á meðal styrkur að upphæð 500 þús. til verkefnisins Tónleikur sem Grunnskólinn og Tónskólinn á Hólmavík standa að með Leikfélagi Hólmavíkur. Yfirlit um allar úthlutanir má nálgast á vef Menningarráðs Vestfjarða á slóðinni www.vestfirskmenning.is undir tenglinum Styrkir. Fram kom að aftur verður auglýst eftir styrkumsóknum í febrúar 2008. [Innsett
11. des. 2007 - JJ] Tónleikar með Herði Torfa í kvöld Stórtónleikar verða á Café Riis á Hólmavík í kvöld þegar söngvaskáldið Hörður Torfa heldur þar tónleika. Í tilefni dagsins er pizzuhlaðborð á Café Riis frá 18:00-20:00 og barinn verður opinn á eftir. Hörður
hefur oft heimsótt
Hólmvíkinga, bæði með tónleikahald og einnig hefur hann
leikstýrt hjá Leikfélagi Hólmavíkur og er kærkominn
gestur. Hann hefur nýlega gefið út nýja plötu sem heitir Jarðsaga
og svo er alltaf fjöldinn allur af gömlum og góðum lögum á
dagskránni. Tónleikarnir hefjast kl. 20:30. [Innsett 21. sept. 2007 - JJ]
|
||
Spakmæli síðunnar: „Eitt er um að tala, annað að framkvæma.“ |
|