Leikfélag Hólmavíkur |
|||
|
Fréttir
af leikárinu 2006-7 með því að smella
hérna.
Sýningum á Sex í sveit lokið Þá er sýningum á Sex í sveit lokið. Því miður gefst ekki tækifæri til að fara í Króksfjarðarnes að þessu sinni en grannar okkar þar eiga þá bara inni hjá okkur sýningu seinna meir. Sýningar á Norðurlandi gengu með eindæmum vel eins og reyndar ferðin öll. Ferðasagan er í smíðum og hægt verður að lesa hana hér á vefnum einhverntímann í haust. Það komu samtals u.þ.b. 870 manns á sýningarnar á Sex í sveit. Það er mikið gott og gaman, enda hefur þá komið 72.5 manneskjur á hverja sýningu. Jibbíjibbígamangaman - nema fyrir þennan hálfa. [Inns. 19. júní 2003 - ASJ]
Ráðist á Norðurland Leikfélagið leggur af stað í ferðalag á morgun föstudaginn 13. júní. Stefnan er tekin á Ketilás, en þar verður sýnt á laugardagskveldið og síðan á Akureyri mánudaginn 16. júní í hlöðunni við Litla-Garð (hjá okkar ástkæru Skúla og Þórhildi). Báðar sýningarnar hefjast klukkan 20:00 og aðgangseyrir verður sá sami og venjulega. Við
vonum að leikhúsþyrstir
Norðlendingar mæti vel og
rækilega á sýningarnar sem verða betri en þær bestu sem í boði
eru um allt land. [Inns. 12. júní 2003 - ASJ]
Fín sýning í Bragganum Sýningin í Bragganum tókst bara býsna vel. Aðsóknin var að vísu heldur dræm, en tæplega 30 manns mættu í Braggann. Lítið var um klikk sem er í rauninni ótrúlegt eftir jafn langa pásu og við tókum að þessu sinni, en sumum í leikhópnum fannst að hraðinn hefði getað verið meiri og það er sennilega rétt. En hvað um það, þetta var bara “helvíti fínt” og gaman og að sjálfsögðu góður undurbúningur fyrir litlu leikferðina okkar sem við förum í á næstu helgi. Össur Skarphéðinsson var á sýningunni í bragganum. Jóhann Ársælsson kom á sýninguna í Borgarnesi þannig að Samfylkingin er 2-0 yfir gegn öðrum stjórnmálaflokkum hvað varðar mætingu þingmanna á leikritið okkar. Hér með hvetjum við alla þingmenn til að mæta á næstu sýningar okkar í Ketilási og Akureyri. Úrslitin í stjórnmálamannakeppninni verða kynnt þegar sýningum lýkur. [Inns. 12. júní 2003 - ASJ]
ATHUGIÐ! Síðasta sýningin á Sex í sveit á Hólmavík verður í Bragganum laugardaginn 7. júní nk. kl. 17:00. Síðasta tækifæri fyrir leikhúsþyrsta Hólmvíkinga eða ferðamenn og fermingargesti stadda á Hólmavík til að fara og sjá einstaklega skemmtilega og drepfyndna sýningu við allra hæfi. Aðgangseyrir er aðeins kr. 1.500.- fyrir fullorðna, kr. 800.- fyrir 6-16 ára og 67 ára og eldri, og frítt inn fyrir sex ára og yngri. Lægra miðaverð finnst varla. Hægt er að panta miða á báðar sýningar í síma 865-3838. [Inns. 5. júní 2003 - ASJ]
Dregur til tíðinda Nú dregur til tíðinda enn á ný hjá leikfélaginu. Það verður æft á miðvikudaginn, sett upp á fimmtudaginn í Bragganum og sennilega æft þá um kvöldið og síðan verður sýnt í Bragganum kl. 17:00 næsta laugardag, 7. júní. Þessi undarlega tímasetning er tilkomin af því að daginn eftir er fermingarveisla í Bragganum og leikfélagið vill ekki vera fyrir. Við erum öðlingar inni við beinið. Sýningaplan er einnig ekki alveg á hreinu og það stefnir í stíf fundarhöld til að finna út úr því hvað verður gert í þeim málum. Það er a.m.k. öruggt að það verður farið í smá leikferð um Norðurland 13-17 júní, en það hefur reynst örðugara að finna dagsetningu sem hentar öllum á sýninguna í Króksfjarðarnesi. Það mun sennilega allt koma í ljós í dag eða á morgun. [Inns. 3. júní 2003 - ASJ]
Júróvisjónpartý Nokkrir leikfélagar hittust að kveldi hins 24. maí heima hjá Rúnu Stínu og Victori til að stara saman á Júróvisjón. Keppnin var æsispennandi en engu minni spenna ríkti meðal leikfélaga um það hver myndi hreppa bjórpottinn fyrir að giska rétt á þrjú efstu sætin. Það er skemmst frá því að segja að enginn vann pottinn, en nokkrir urðu sér til skammar með því að setja lög í fyrstu sætin sem enduðu síðan í neðstu sætunum. Victor tippaði til dæmis á sigur Slóveníu, hehehehehohohohihihihihihihihæhæhæhæhæ. Sabba skemmti síðan fólkinu eftir keppni með gömlum Eurovisionmyndböndum sem bara hún og Addi mundu eftir. Út af því leystist partíið mun fyrr upp en það hefði annars gert. Það vakti mikla athygli í partýinu þegar tveir félagar úr leikfélaginu, Vignir og Jón Gísli, birtust og létu öllum illum látum. Muna menn ekki annað eins brjálæði, nema ef vera skyldi ákveðin atvik úr leikfélagspartýum fyrir 10-15 árum. Skuðhendurnar flugu veggja á milli og hnykkirnir létu heldur ekki á sér standa. Ægilegt. [Inns. 3. júní 2003 - ASJ]
Vöfflufundur hjá Veisluþjónustu Saxbautans Stína bauð upp á kaffi, vöfflur, rjóma, sýróp, jarðarberjagraut(!) og ýmislegt fleira í heimboði miðvikudagskvöldið 21. maí. Það er ekki eins og allir séu orðnir saddir eftir að hafa troðið í sig á leikferðum lapkássum, ungverskum réttum og gúllasi frá himnaríki. O nei. Það er sko enn étið og étið. Addi og Hildur kíktu í heimsókn og Rúna Stína og Sabba komu í kvennakórsnáttkjólunum eftir tónleika hjá eldrakarlakórnum Kátum körlum. Það var rabbað um daginn og veginn eins og gengur og gerist, Eurovision bar oft á góma og komandi sýningar og dagsetningar á þeim voru ræddar í þaula. Samþykkt að stytta ferðina um Norðurlandið aðeins. [Inns. 23. maí 2003 - ASJ]
Kærar þakkir Leikfélag Hólmavíkur vill koma kærum þökkum á framfæri til starfsstúlkunnar á Hótel Borg sem lét skuggalegan ókunnugan mann með ljótan hökutopp, sem þar að auki kom beint inn af götunni, fá 23 kíló af ísklökum síðasta laugardagskvöld eftir að hann hafði beðið um "bara smá ís". Greiðvikni þessarar stúlku varð til þess að Sverrir, Einar og Kristín blotnuðu meira en nokkru sinni fyrr og áhorfendur skemmtu sér betur yfir ísbaðinu en nokkru sinni fyrr. Það er öruggt að við munum leita aftur til hennar fyrir næstu sýningar. [Inns. 23. maí 2003 - ASJ]
Rokk í Reykjavík Leikhópurinn vaknaði frekar þreyttur í Reykjavík. Sabba og Sverrir höfðu t.d. sofið í hótelherbergi sem að sögn Salbjargar daginn eftir var "alltof bjart inní" til að geta sofið nokkuð að ráði. Stór hluti fólksins hittist í Tjarnarbíói um eittleytið og hófst handa við að setja upp sviðið. Það var heldur hátt til lofts og sviðsmyndin var við fyrstu sýn eins og krækiber í hel.íti. Við tróðum litlu kösturunum okkar upp á milli risakastaranna sem héngu uppi í salnum og nýttum okkur nokkra af risakösturunum. Menn voru heldur rólegri í tíðinni heldur en í Borgarnesi kvöldið áður, enda nægur tími fram undan. Um miðjan dag var tekið matarhlé og eftir það var lokið við að setja upp sviðsmyndina sem var tilbúin klukkutíma fyrir sýningu!! Nýtt met. Sýningin gekk vel, u.þ.b. 100 manns mættu og allir hlógu allan tímann. Eins og venjulega. Eftir sýningu bauð fyrrum formaður og núverandi snillingur og galdramaður Sigurður Atlason leikhópnum í lapkássu og bjór. Lapkássan gerði gríðarlega lukku, ekki síst karamellujógúrtin sem var borðuð með henni. Menn voru heldur latari í því að eiga við bjórinn enda þreyta í hópnum eftir strembna helgi. Við kunnum Sigga hinar bestu þakkir fyrir heimboðið sem var höfðinglegt og einstaklega skemmtilegt í alla staði. Hann á inni eilífðarfrímiða á sýningar hjá leikfélaginu (sem hann vill reyndar ekki nýta sér). Köttur úti í mýri...nei, heyrðu - það er fullt af sýningum eftir. [Inns. 22. maí 2003 - ASJ]
Viðburðarík ferð í Borgarnes Menn lögðu af stað pollrólegir um hádegi á föstudag, konurnar fóru með Jóni Ragnari en Addi og Sverrir komu á eftir á Toyota Hiace bíl sem var lánaður af smíðafyrirtækinu Grundarási. Þeir félagar höfðu gaman af ferðalaginu, leist vel á veðrið og sýningarnar og grínuðust góðlátlega: "Nú vantar bara að bíllinn bili, hohohohoho hehehehe hihihi." Það gerðist akkúrat í Brú, nokkrum mínútum eftir að þessi orð féllu. Þá voru menn þöglir í bragði og sárir í sinni. Sem betur fer voru vaskir menn í Borgarnesi reiðubúnir að rétta fram hjálpandi hönd og leikmunirnir ásamt Adda og Sverri voru sóttir í Brú. Bilunin þýddi samt að uppsetningu á sviðinu hafði seinkað um 2-3 tíma og þess vegna þurfti að hafa hraðar hendur. Samt þótti ljóst að sá möguleiki væri fyrir hendi að fresta þyrfti sýningunni um einhvern tíma. Oseiseiussuss. Þegar þarna var komið sögu var hungrið farið að sverfa að og því var ákveðið að nýta sér höfðinglegt heimboð Stebba og Bjarkar sem búa einmitt í Borgarnesi og eru snillingar í ungverskri matargerð (og ýmsu fleiru). Maturinn var gríðarlega góður, ungversk gúllassúpa og heimabakaðar bollur hurfu á mettíma í svanga leikfélaga. Þá var tekið til við að ljúka við sviðið og nokkur bjartsýni ríkti um að sýningin gæti hafist á réttum tíma, en þá kom að sjálfsögðu upp óvænt atvik í sambandi við rafmagnsmál sem Einar þurfti að laga í snatri. Þá var ekki hægt að stilla ljósin strax og þess vegna var sýningunni frestað um tæpan hálftíma, sennilega í fyrsta sinn í sögu leikfélagsins. Þegar hún loksins komst af stað gekk hún ágætlega. Sumir voru þó aðeins orðnir ryðgaðir og hvíslarinn hafði ærinn starfa á köflum. Salurinn var mjög góður, mikið hlegið og klappað eins og vanalega. Ýmislegt kom upp á, t.d. kom Benóný inn á sviðið í heilmiklum leðurgalla sem laðaði fram bros á vörum annarra leikara. Einar og Stína gleymdu sér á bakvið í einni senunni og Hildur labbaði tvisvar að hurðinni og hvæsti á þau að drífa sig inn. Bráðfyndið. Addi fékk nærri því hníf í hausinn þegar hann var að glápa upp stiga í þann mund sem Solla hendir hnífapörunum á borðið. Hnífurinn stóð fastur í stiganum en Addi slapp með skrekkinn. Sabba fór á taugum og fékk óstöðvandi hláturskast og ekki varð við neitt ráðið. Úff. Eftir sýningu buðu Stebbi og Björk aftur upp á hressingu, í þetta skiptið var það ungversk jarðarberjaterta sem metti maga okkar ásamt borgfirsku kranavatni, kaffi og finnskum Búdapestkaramellum. Kunnum við þeim Stebba og Björk bestu þakkir fyrir allan matinn. Hann bjargaði okkur. Við vorum síðan komin til Reykjavíkur seint og um síðir, nánar tiltekið um 3-4 leytið um nóttina. Þar gistu sumir á hóteli og aðrir í heimahúsum en flestir sváfu eins og steinar. Það er næsta víst. [Inns. 19. maí 2003 - ASJ]
Leikfélagar týnast suður Leikfélagar
eru óðum að huga að suðurferð,
sumir eru meira að segja farnir og aðrir alveg að fara. Fyrrihluti
leikritsins var lesinn yfir á mánudags- Við vonumst eftir góðri aðsókn á báðum stöðum. Við höfum aldrei sýnt í Borgarnesi áður, bara sýnt í nágrenni bæjarins, og hlökkum mikið til. Við hlökkum líka til að sýna í Reykjavík, Tjarnarbíó er sérlega skemmtilegur staður til að sýna á, og að sjálfsögðu mætir fólk í stórum stíl, enda er búið að auglýsa sýninguna villt og galið. [Inns. 15. maí 2003 - ASJ]
Sýningarnar nálgast Nú líður óðum að sýningum í Borgarnesi og Reykjavík. Sennilega verður leikritið æft eitthvað í næstu viku, einu sinni eða tvisvar eftir því sem þurfa þykir. Það er óneitanlega fiðringur í leikhópnum og menn farnir að sakna persónanna sinna. Þessi ferð verður líka svo óheyrilega skemmtileg. Sýningin í Borgarnesi verður í Félagsmiðstöðinni Óðali föstudaginn 16. maí kl. 21:00, en sýningin í Reykjavík verður í Tjarnarbíó daginn eftir, laugardaginn 17. maí. Hún hefst hins vegar kl. 20:30. Aðgangseyrir að báðum sýningunum er kr. 1.500.- fyrir fullorðna, kr. 800.- fyrir 6-16 ára og 67 ára og eldri, og frítt inn fyrir sex ára og yngri. Það er óhætt að fullyrða að jafn lágt miðaverð sé vandfundið í íslensku leikhúsi. Hægt er að panta miða á báðar sýningar í síma 865-3838. Við hvetjum lesendur vefsins sem ætla að kíkja á okkur til að panta miða, þá eruð þið örugg með sæti - það er nefnilega alltaf troðfullt á sýningunum hjá okkur :o) [Inns. 8. maí 2003 - ASJ]
Smá pása Nú fer leikhópurinn í örlitla pásu. Hún kemur til með að standa yfir í 2 vikur, en þann 16. maí sýnum við í Borgarnesi og þann 17. í Reykjavík. Hópnum veitir í raun ekki af hvíld fyrir átökin framundan því stefnan hefur verið tekin á það að næstu tvær sýningar verði enn betri en þær sem búnar eru, og aðsóknin slái öll fyrri met allra leikfélaga á báðum stöðum (veit það verður erfitt í Reykjavík, en við ætlum samt að reyna). [Inns. 2. maí 2003 - ASJ]
Frábær leikferð! Það var engin ástæða til að vera hræddur við veðrið eins og fréttaritarinn var í færslunni hér fyrir neðan. Það var fínt veður - samt svolítið kalt - allan tímann. Móttökurnar í Bolungarvík sáu um að ylja manni í kuldanum. Við komum í Bolungarvík á rútunni um kl. 15:00. Þegar við höfðum komist inn í húsið tók við sama venjulega streðið við að koma upp sviðsmynd og ljósum, að vísu var streðað óvenju mikið að þessu sinni við að koma upp ljósunum. Það vandamál var til komið af því að Bolvíkingar nota ekki svokallað "ríkisrör" til að hengja kastarana sína á. Allt heppnaðist þetta þó að lokum og allir voru sáttir. Kl. 18:00 var síðan skundað í mat til Birnu Pálsdóttur, en hún hafði boðið okkur að koma og fá smá matarbita. Hjá Birnu beið okkar risastórt hlaðborð og tvíréttuð máltíð, heimagerður graflax og dýrindis kjötgúllas. Eftir mikið japl, uml, smjatt og slurp var drukkið kaffi og með því hökkuðu leikfélagar í sig súkkulaði.Við höfum sjaldan eða aldrei fengið jafn höfðinglegar móttökur og þökkum við Birnu enn og aftur kærlega fyrir okkur. Sýningin hófst síðan kl. 21:00 um kvöldið og gekk hún frábærlega. 105 manns mættu og skellihlógu og klöppuðu allan tímann - það var meira að segja klappað fyrir fyndnum setningum í miðju leikriti. Við vorum síðan leyst út með ræðuhöldum, blómum og lítilli galdranorn á kústi, sem var umsvifalaust skipuð verndari sýningarinnar. Við tókum síðan allt draslið saman, pökkuðum því út í rútu og lögðum af stað í bústað OV í Engidal, en þar gistum við um nóttina. Síðan lögðum við af stað heim um kl. 14:00 daginn eftir, þreytt en ánægð með ferðina. Vorum komin á Hólmavík einhverntíma seinna, ég man ekki hvenær, því ég svaf eins og steinn megnið af leiðinni. Frábær aðsókn, skemmtilegt fólk, góður matur, góð sýning, frábærar móttökur, rúta og gisting - hvað er hægt að biðja um meira í einni leikferð? [Inns. 2. maí 2003 - ASJ]
Djísús kræst Það er skítaveður úti. Brottför eftir rúmlega tvo tíma. Sýning í kvöld. Heim á morgun. Ef það verður fært. [Inns. 30. apríl 2003 - ASJ]
Leikferð á morgun Það verður lagt af stað til Bolungarvíkur stundvíslega kl. 11:00 á morgun. Veðurútlit er skítsæmilegt og við erum komin með bílstjóra og stóra rútu til að keyra okkur á staðinn. Það er hugur í mönnum og von um góða aðsókn í Bolungarvík, því í öll skiptin sem leikfélagið hefur sýnt þar hefur aðsóknin verið með miklum ágætum - aldrei undir 70 manns. Leikfélagar munu síðan gista í sumarbústað Orkubús Vestfjarða um nóttina og keyra heim daginn eftir, verkalýðsdaginn 1. maí. Það verður nú aldeilis fjör. Það er nú það og það er nú svo. Ferðasagan mun koma hér inn á fréttasíðuna þegar undirritaður kemur til baka. [Inns. 29. apríl 2003 - ASJ]
Veðbankinn Veðbanki
leikfélagsins
hóf starfsemi á ný fyrir sýninguna í Drangsnesi. Starfsemi hans snýst
um það að fólk giskar á hversu margir komi á sýninguna og sá sem
er næstur réttri tölu vinnur. Sögusagnir hafa gengið um að
sigurvegarinn fái 10 % af innkomunni, en það er ekki rétt. Því miður. Sigurvegarar fyrsta veðmálsins voru afmælisbarnið Unnur Ingimundardóttir og Arnar S. Jónsson. Unnur giskaði á 59 manns, en Arnar giskaði á að 53 myndu koma, en alls komu 56 manns. Það verður spennandi að sjá hverjir vinna giskkeppnina í Bolangarvík. Fylgist með málinu hér á vefnum. [Inns. 28. apríl 2003 - ASJ]
Sex í sveit á
Drangsnesi
Sýningin
á Sex í sveit á Drangsnesi tókst sérlega
vel. Aðsókn var góð - 56
manns mættu í samkomuhúsið Baldur til að skemmta sér.
Karlmennirnir í leikhópnum fóru út á Drangsnes kl. 13:00 ásamt röskum
hjálparkokkum. Stúlkurnar komu síðan klukkan tæplega fimm og lögðu
kvenlegt mat á uppsetningu sviðsins og fínstilltu allt saman. Sabba,
sem var hvíslari á sýningunni, eldaði dýrindis blómkálssúpu sem
var “borin á borð og étin” eins og segir í leikritinu. Sýningin
tókst vel og hlógu áhorfendur
frá sér allt vit. Sumir hlógu svo mikið að þeir gátu ekki hætt að
hlæja þó það væri hlé og ekkert að gerast á sviðinu (þetta er
sko alveg satt). Ekkert alvarlegt kom upp á í sýningunni nema það að
Benedikt (Sverrir) týndi flestöllum peningunum sínum og fann þá
alls ekki þrátt fyrir mikla leit. Þeir fundust síðar í jakkavasa
Ragnars (Einars), sem er sterklega grunaður um að hafa ætlað að
stinga þeim undan. Næsta sýning á Sex í sveit verður í Víkurbæ í Bolungarvík kl. 21:00 nk. miðvikudagskvöld. [Inns. 28. apríl 2003 - ASJ]
Leikferð
í Árneshrepp Síðasta
föstudag rifu vaskir menn
og konur niður sviðið og ljósin, pökkuðu niður búningum,
leikmunum og öðru glingri, settu allt út í rútu og biðu síðan
fram á laugardagsmorguninn, en þá var lagt af stað. Leikhópnum sóttist
ferðin vel þrátt fyrir slabb á Veiðileysuhálsi og í Reykjarfirði.
Góður liðsstyrkur var með í för, hin ofurröska Svanhildur Jónsdóttir
og börnin hennar, og “hinn aldni” Áskell Bendiktsson stórleikari. Menn voru
komnir í Trékyllisvík
laust eftir hádegi og enginn dró af sér við að setja upp sviðið
og koma öllu á sinn stað. Sund- og kaupfélagsferðinni var meira að
segja sleppt að þessu sinni. Um miðjan dag eldaði Sabba pottrétt og
Sverrir rauðmaga sem allir átu með bestu lyst (alla vega pottréttinn).
Einar sýndi mikla dirfsku með því að tengja ljósaborðið beint
inn í rafmagnstöflu hússins. Addi lék lasinn í fyrsta skipti á ævinni. Sýningin
tókst ágætlega, en 37 manns mættu á svæðið
og hlógu sig máttlausa. Það er gaman að sýna í Árneshreppi því
þar eru þakklátustu áhorfendur í heimi. T.d. stóð enginn upp og fór
beint heim þegar sýningin var búin, heldur dvaldi fólk í nokkurn tíma
og spjallaði við okkur og hvort annað og þakkaði fyrir sig. Gaman að
því. Síðan
var öllu draslinu pakkað inn
í bíl aftur og lagt af stað heim á miðnætti. Skafrenningur
og snjókoma á heimleiðinni varð til þess að við vorum ekki komin á Hólmavík
fyrr en tæplega hálf þrjú um nóttina. Svo er það
Drangsnes
í kvöld, þar verður hrikalega gaman að sýna - eins og venjulega. [Inns. 27. apríl 2003 - ASJ]
Síðasta sýning á Hólmavík
- í bili
Við sýndum í Bragganum að kvöldi fyrsta sumardags, og þá er bara ein sýning eftir þar. Aðsókn var með miklum ágætum, en tæplega 70 manns mættu til að horfa og allir skemmtu sér vel. Á fyrstu fjórar sýningarnar á Hólmavík komu u.þ.b. 340 manns, sem er býsna góð aðsókn. Kunnum við Hólmvíkingum og nærsveitamönnum hinar bestu þakkir fyrir þennan mikla og góða áhuga á leikdútlinu. [Inns. 26. apríl 2003 - ASJ]
Gagnrýni í Mogganum
Þorgeir
Tryggvason, leikhúsfíkill,
félagi í Hugleik og gagnrýnandi hjá Morgunblaðinu, kom á frumsýninguna
og páraði þar niður nokkur orð um hvernig honum þótti takast til.
Rýnin er þó nokkuð jákvæð, þó kemur fram að hann var ekki ánægður með
textaklikk – sem var vissulega sérlega áberandi á frumsýningunni.
Þorgeir er aftur á móti mjög sáttur við annað í leikritinu,
leikinn, leikstjórnina og umgjörð sýningarinnar. Gaman að fá svona gagnrýni og við þökkum Togga kærlega fyrir að gefa sér tíma til að kíkja á okkur. Velkominn aftur! [Inns. 26. apríl 2003 - ASJ]
Sýningar í fullum gangi Sex í sveit var sýnt þrisvar sinnum yfir páskana. Frumsýningin var fimmtudaginn 17. apríl, önnur sýning laugardaginn 19. apríl og sú þriðja var mánudaginn 21. apríl. Góð aðsókn var að sýningunum, en um 70 manns mættu á þá fyrstu, rúmlega 100 á nr. tvö og tæplega 100 á sýningu nr. þrjú. Ef við sleppum allri tölfræði og skoðum sýninguna sjálfa, þá er óhætt að segja að hún hafi gengið ósköp vel - alla vega hafa áhorfendur hlegið mikið og vel er látið af sýningunni (kannski þorir enginn að segja neitt annað). Dálítið var um textaklikk í frumsýningarstressinu en það hefur jafnað sig og leikhópurinn hefur verið ánægðari með seinni sýningarnar. Um helgina verður farið í fyrstu leikferðina, í Árneshreppinn og Drangsnes - við hlökkum mikið til að hitta fólkið þar, enda öðlingar upp til hópa. [Inns. 23. apríl 2003 - ASJ]
Kveðju- og frumsýningarhóf Það er nú kannski of formlegt að kalla frumsýningarpartý hóf, því yfirleitt eru þessar samkomur með órólegra móti.Í partýinu núna, sem var haldið heima hjá Stínu, höfðu leikarar og aðstandendur þó frekar hægt um sig enda eru menn farnir að eldast og grána í vöngum. Eitthvað var samt sungið og þó nokkuð skrafað og dulítið etið og smávegis drukkið. Hápunktur partýsins var þegar Arnar S. Jónsson fékk korn í augað og gat ekki losnað við það þrátt fyrir hjálp frá fjölskyldu sinni og hjúkrunarfræðingum sem þarna voru staddir. Daginn eftir, föstudaginn langa, héldu Skúli og Þórhildur heilmikið afmælis- og kveðjuhóf í gistiheimilinu á Kirkjubóli. Þórhildur varð 27 ára og leikfélagar sungu að sjálfsögðu afmælislagið fyrir hana ásamt því að éta tertur og drekka gos. Skúli hélt hjartnæma ræðu og grét fögrum tárum yfir því hvað við erum æðisleg. Svo fóru karlmennirnir út í fótboltaleik sem stóð yfir í tvo klukkutíma. Ég er enn með harðsperrur. [Inns. 23. apríl 2003 - ASJ]
3 dagar í frumsýningu! Nú eru einungis þrír dagar í frumsýningu. Leikhópurinn æfði um helgina eins og hann ætti lífið að leysa, og því verður væntanlega haldið áfram þá daga sem eftir eru. Það er ekki laust við að frumsýningarstressið margfræga sé aðeins farið að gera vart við sig. Það er líka nóg annað að gera, Addi og Stína hafa setið sveitt við gerð leikskrár yfir helgina, en hún virðist ætla að verða þykkri en oft áður. Það er aðallega vegna þess að hún inniheldur fleiri auglýsingar en oft áður, en Ester Sigfúsdóttir auglýsinga- og styrktarlínusali heillaði fólk og fyrirtæki upp úr skónum með sölumannsröddinni. Sabba fór í verslunarferð í bæinn og kemur til baka í kvöld með búningana sem vantar til að fullkomna verkið. Viddi hennar Rúnu Stínu er að gera við símhringinguna. Palli Sæsa teiknaði svaka flotta mynd á forsíðu leikskrárinnar. Jón Gísli setti upp nýja ljósaslá og alla kastarana á hana. Það er allt að gerast enda ekki seinna vænna. [Inns. 14. apríl 2003 - ASJ]
Leikarar framtíðarinnar Sýningin á Litla forvitna fílnum á fimmtudagskvöldið heppnaðist með eindæmum vel. Aðsókn var einstaklega góð, en u.þ.b. 140 manns létu sjá sig þannig að Bragginn var troðfullur. Það var mikið klappað meðan á sýningunni stóð og stemmningin var gríðarlega góð. Eftir að sýningunni lauk var Þórhildi leikstjóra færðar svokallaðar galdrakrúsir að gjöf og síðan bauð Grunnskólinn upp á kaff, gos og kökur á efri hæð Braggans. Það má ráða það af uppsetningunni á Litla forvitna fílnum að Leikfélagið þarf ekki að örvænta næstu áratugina, það er nóg til af upprennandi stórleikurum og söngvurum á Hólmavík. Leikfélagið þakkar Þórhildi Örvarsdóttur leikstjóra sérlega vel fyrir vel unnið starf. [Inns. 14. apríl 2003 - ASJ]
Litli forvitni fíllinn Ekki gleyma að fara á sýninguna um Litla forvitna fílinn í kvöld, fimmtudaginn 10. apríl. Hún hefst kl. 20:00 í Bragganum og stendur yfir í u.þ.b. hálftíma. Aðgangseyrir er kr. 300 fyrir fullorðna, en frítt inn fyrir börn. [Inns. 10. apríl 2003 - ASJ]
Sýningar á Sex í sveit Þá er nokkurn veginn búið að negla niður væntanlegt sýningahald á Sex í sveit. Planið var samþykkt á æfingu í gær og voru menn og konur mjög ósammála og hnakkrifust og slógust eins og hrútar að vori um hvert ætti að fara og hvert ekki... en niðurstaðan varð að lokum þessi:
Það er kominn tími til að auglýsa, Sabba, svona - haskaðu þér! [Inns. 10. apríl 2003 - ASJ]
Litli forvitni fíllinn Undanfarna daga hafa staðið yfir æfingar á Litla forvitna fílnum, sem er leikþáttur unninn upp úr sögu eftir Rudyard Kipling. Nemendur 5. og 6. bekkjar Grunnskólans á Hólmavík skipa leikaraflokkinn. Sýningin, sem er skemmtilegur söngleikur, er sett upp af Leikfélagi Hólmavíkur sem með þessu uppátæki hyggst í samvinnu við Grunnskólann á Hólmavík leggja drög að nægu framboði á leikurum næstu 200 árin. Þórhildur "kona leikstjórans" Örvarsdóttir hefur stjórnað uppsetningu sýningarinnar. Þess má geta að í Grunnskólanum á Hólmavík er krökkunum kennd tjáning allt frá 1. bekk og mun það einsdæmi á landinu. Litli forvitni fíllinn verður sýndur í Bragganum fimmtudaginn 10. apríl kl. 20:00. Hér með hvetjum við alla til að mæta á sýninguna. [Inns. 7. apríl 2003 - ASJ og JJ]
Biðin styttist... Í dag eru bara 10 dagar í frumsýningu á Sex í sveit. Aðstandendur sýningarinnar eru komnir með örlítinn fiðring í magann - enda ekki seinna vænna. Frumsýningin verður sem sagt í Bragganum fimmtudagskvöldið 17. apríl (skírdag) ef ekkert kemur upp á. Fleiri sýningar verða síðan á Hólmavík um páskana. Sjálfsagt verða hengdar upp og sendar út auglýsingar um sýningardagana von bráðar. Vegna þess hversu stutt er í sýningaflóðið er rétt að benda fólki á að skella sér í hláturkirtlaæfingar, því það er öruggt að það mun mikið mæða á blessuðum kirtlunum á sýningum á Sex í Sveit. [Inns. 7. apríl 2003 - ASJ]
Allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó Leikhópurinn er sem sagt kominn til baka eftir geysilega árangursríka og skemmtilega æfingaferð í Reykjanes. Ferðin einkenndist öðru fremur af stífum æfingum - ólíkt því sem síðasti fréttaritari heldur fram. Hann er bara öfundsjúkur yfir því að hafa ekki fengið að vera með. Hehe. Að sjálfsögðu skrapp fólk líka í sund og langa göngutúra auk þess að syngja, spila á gítar og trommur sem fundust í kjallaraherbergi, leika sér í borðtennis, fótbolta og körfubolta, borða góðan mat, horfa á sjónvarpið, tefla, spila á spil og fara í skoðunarferð um skólann með leiðsögumanni sem sagði krassandi draugasögur um herbergi 238 (þar sváfu Rúna Stína og Viktor). Einnig var drukkið öl í hæfilega litlu magni. Leikfélagið átti 30 fulltrúa þessa helgi í Reykjanesi. Þar af voru 16 börn. [Inns. 7. apríl 2003 - ASJ]
Dvalist í Reykjanesi Leikhópurinn í Sex í sveit er nú í æfingabúðum í Reykjanesi við Djúp, fór í gær og kemur til baka í dag. Að vísu hafa þeir sem heima sitja grun um að lítið sé æft, en í staðinn geri menn töluvert af því að skemmta sér í sundlauginni og borða góðan mat. Nánari fréttir af þessu ævintýri þegar því er lokið. [Innsett 6. apríl 2003 - JJ]
Óskum eftir áhættuleikurum Í gær var verið að æfa bardagaatriðin svokölluðu í leikritinu Sex í Sveit. Það kostaði blóð og svita, en að vísu engin tár - svo vitað sé. Sverrir Guðbrandsson, sem leikur Benedikt, ku vera frekar aumur í vinstri kinn eftir stöðuga kinnhesta frá Hildi (viðhaldinu) og Arnar S. Jónsson, sem fer með hlutverk Benónýs er illa rispaður í andliti eftir átök við neglur leikkvennanna. Einnig fékk sófinn sem er á sviðinu það óþvegið, en Einar Indriðason braut úr honum bakið þegar hann lét sig detta á gólfið fyrir aftan hann. Í ljósi þessara válegu atburða erum við að íhuga vandlega hvort við ættum að fá áhættuleikara í þessi atriði. Hér með er sem sagt auglýst eftir fólki sem er vant að fá kinnhesta og/eða er klórað til blóðs nokkuð reglulega. [Innsett 2. apríl 2003 - ASJ]
Ljósaborðið ónýtt? Nýja, dýra og fína ljósaborðið sem við keyptum um daginn hefur verið sent suður í gjörgæslu. Gjörgæslan er tilkomin vegna þess að í lok æfingar í gær vafraði Einar Indriðason að ljósaborðinu til að slökkva á því. Þá vildi ekki betur til en svo að hann hrasaði illa um fatahrúgu á gólfinu og þar með skvettist innihald kaffibolla sem hann hélt á yfir tækniundrið. Vissulega slokknaði á öllum kösturunum um leið, en innan nokkurra sekúndna steig reykur upp úr borðinu og nokkru síðar eldur. Sem betur fer var slökkviliðsstjóri Hólmavíkur staddur á svæðinu og hann slökkti eldinn með restinni af kaffinu og því varð engum meint af - nema ljósaborðinu. Það er enn ekki ljóst hversu illa það er farið. [1. aprílgabbið 2003 - ASJ]
Þrotlausar æfingar... Núna standa æfingar á Sex í sveit yfir - alveg á hundrað - og óhætt er að segja að leikfélagar hafi aldrei sýnt af sér aðra eins hörku nema ef vera skyldi stundum. Fólk er að miklu leyti búið að læra rullurnar sínar og karakterar eru óðum að fæðast. Svo er náttúrulega unnið á fullu við að koma fólki í þokkalega búninga, finna props og hanna og smíða leikmyndina. Æfingar á verkinu fara fram í Bragganum á Hólmavík en við höfum fengið inni í gömlu flugstöðinni og íþróttahúsinu í bæði skiptin sem Bragginn hefur verið upptekinn. Samlestrar voru líka Sauðhúsinu til að byrja með. Einnig má geta þess að leikhópurinn stefnir að því að fara í æfingabúðir og fjölskylduskemmtiferð í Reykjanes fyrstu helgina í apríl. [Innsett 25. mars 2003 - ASJ]
Sýningar á sýningar
ofan
Í augnablikinu er stefnt að því að frumsýna Sex í sveit fimmtudaginn 17. apríl (skírdag). Einnig verða fleiri sýningar á Hólmavík yfir páskana. Að sjálfsögðu er stefnt á frekari landvinninga, m.a. hafa komið fram hugmyndir um að sýna í Reykjavík, Bolungarvík, Hvammstanga, Hrísey, Akureyri og Flæðarmálseyri, svo fáeinir staðir séu nefndir. Þetta skýrist
þó allt betur síðar en það er ljóst
að Leikfélag Hólmavíkur ætlar
ekki að láta titilinn “Ferðabrjálaðasta leikfélag landsins” af
hendi næstu misserin. [Innsett 25. mars 2003 - ASJ]
Partýdýrin bregða á
leik ... Síðasta
laugardag,
nánar tiltekið 22. mars var haldið leikhópssamhristipartý heima hjá
Stínu og Alfreð. Leikhópssamhristipartý eru partý þar sem allir
leikhópurinn kemur saman og hristir sig saman eða þannig sko ...
úff. Teitið fór
vel fram í flesta
staði. Við byrjuðum á því að borða dýrindis grillkjöt með gómsætu
meðlæti, þar sem kalda hvítlaukssósan hennar Stínu bar af. Skúli
leikstjóri og kona mættu alltof seint og var hlegið að þeim fyrir
vikið. Eftir matinn var sungið og drukkið og talað og sungið og
drukkið fram á rauða nótt og það var ofsa gaman. Þó settu slagsmál
um farsíma eins leikarans nokkuð leiðinlegan blett á samkvæmið. Nýjustu
fréttir herma að stóra farsíma- [Innsett 25. mars 2003 - ASJ] Skúli er önnum
kafinn
Skúli “okkar" Gautason er önnum kafinn maður, það eru hreinar línur með það. Ásamt því að leikstýra okkur og leika einu sinni í viku hjá Leikfélagi Akureyrar hefur hann verið að kenna tjáningu í afleysingum í Grunnskóla Hólmavíkur. Svo er hann líka að fara að æfa upp leikritið Gullbrúðkaup með LA innan skamms og svo er hann líka önnum kafinn við að búa á gistiheimilinu á Kirkjubóli með konu sinni Þórhildi og þremur börnum. Aðspurður hvort þetta væri ekki heldur mikið fyrir einn mann sagði Skúli: Neinei. [Innsett 25. mars 2003 - ASJ]
Aðstoðarleikstjórinn
Leikfélagið auglýsti grimmt eftir aðstoðarleikstjóra í Útvarpi Hólmavíkur á dögunum. Það bar lítinn sem engan árangur og að lokum var Jón Gísli Jónsson plataður í djobbið. Hann hefur staðið sig vel í því - hingað til. Hins vegar fáum við aldrei nóg af skemmtilegu fólki sem vill leggja hönd á plóginn og því hvetjum við þá sem vilja hjálpa til við uppsetningu sýningarinnar og vera í skemmtilegum félagsskap, nú eða langar bara í gott kaffi og kex og þykjast vera með í öllu saman að hafa samband við okkur eða kíkja í braggann. [Innsett 25. mars 2003 - ASJ]
Leikfélagar í
eldlínunni!
Góugleðin var haldin í félagsheimilinu þann 15. mars og komu leikfélagar þar allnokkuð nokkuð við sögu. Bræðurnir Jón og Arnar Jónssynir, sem eru þrautreyndir leikfélagar af Steinadalsættinni, sáu um að semja skemmtiatriðin. Hálfum mánuði fyrr var haldið þorrablót í Sævangi og þar komu Steinadalsbræður líka við sögu. Þá sáu þeir Jón Gísli og Arnar um atriðin. Báðar skemmtanirnar vöktu óstjórnlega mikla kátínu og þóttu mörg atriðanna nýstárleg. Sérstaklega athygli vakti hversu langt var gengið í gríninu án þess að það færi yfir grínstrikið. [Innsett 25. mars 2003 - ASJ]
Skúli er að koma, Skúli er að koma ... Eftir helgina kemur Skúli Gautason á Strandir og tekur við stjórninni við æfingar á Sex í sveit. Ég hlakka til, mig hlakkar til og mér hlakkar til. Æfingar hafa annars gengið nokkuð vel, samlestrar standa enn. [Innsett 25. febrúar 2003 - ASJ]
Leikfélagið úr leik? Illa fór fyrir liði Leikfélagsins í spurningakeppninni miklu. Lenti liðið sem samanstóð af Einari, Svanhildi og Kristínu í miklum vandræðum með lið Skrifstofu Hólmavíkurhrepps og fór svo að lokum að Leikfélagið varð að játa sig sigrað með herkjum og naumindum. Skipti þar sköpum að Arnar ritari Leikfélagsins sem var spyrill og dómari keppninnar var liðinu ákaflega erfiður og neitaði að láta spurningar af hendi fyrirfram. Eins var ljótt upp á það að horfa hvernig Salbjörg gjaldkeri Leikfélagsins sveik félaga sína. Ekki lét hún nægja að keppa fyrir andstæðinginn heldur sýndi hún enga miskunn og hafði svör á takteinum við allskonar spurningum sem einungis ofvitar og stertimenni geta svarað. Sauðfjársetrið á hrós skilið fyrir að halda keppnina, engu að síður. [Innsett 25. febrúar 2003 - JJ]
Leikfélagið flytur í kjallara Félagsheimilisins Um síðustu helgi tóku röskir leikfélagar sig til og fluttu eignir og verðmæti Leikfélagsins niður í kjallara Félagsheimilisins á fáum klukkustundum. Þarna voru Einar og Sabba og Sverrir og Svanhildur og Jón Gústi og Hrafnhildur og Jón og Ásdís og Maja og nokkrir fleiri. Flutningarnir gengu áfallalaust fyrir sig og skemmtu menn sér hið besta. [Innsett 11. feb. 2003 - JJ]
Leikfélagið mætir Hreppskrifstofunni Dregið hefur verið í spurningakeppninni miklu á Ströndum og mætir lið Leikfélagsins býsna harðsnúnu liði skrifstofu Hólmavíkurhrepps sem er grunað um að hafa stundað þrotlausar æfingar síðustu vikur. Keppnin milli þessara liða fer fram í Sævangi sunnudagskvöldið 23. febrúar næstkomandi og eru aðdáendur Leikfélagsins hvattir til að mæta og hvetja sitt lið til dáða. Mikla athygli vekur að gjaldkeri Leikfélagsins keppir fyrir hreppsskrifstofuna en ekki fyrir Leikfélagið. Kemur það þó ekki mjög að sök því Leikfélagið hyggst fara fram á að fá þriðjung af stigum hreppsins í skaðabætur fyrir mannránið. [Innsett 6. feb. 2003 - JJ]
Samlestur á Sex í sveit Skúli Gautason mætti í stutta heimsókn á föstudaginn til að fara yfir hlutverkaskipan í leikritið sem er fullmannað. Þrír nýliðar í leikarastéttinni á Hólmavík taka þátt í uppsetningunni - Kristín Einarsdóttir, Rúna Stína Ásgrímsdóttir og Hildur Guðjónsdóttir - ásamt þremur þaulvönum leikurum - Einari Indriðasyni, Sverri Guðbrandssyni og Arnari S. Jónssyni. Heimsóknin gekk vel fyrir sig að því frátöldu að Arnar Jónsson ritari leikfélagsins læsti hann og sjálfan sig inni á Galdrasýningunni þegar þeir stálust til að skoða hana í leyfisleysi og banni. Æfingar hefjast af krafti eftir um það bil 4 vikur en stefnt er að sýningum um páskana. [Innsett 27. jan.2003 - JJ]
Æfingar á Jóðlífi ganga illa Æfingar á Jóðlífi ganga illa. Aðspurður um ástæður þess segir Arnar Jónsson að það sé bara eðlilegt. Meðgöngutíminn sé 9 mánuðir og fóstrin séu enn ekki orðin nógu þroskuð til að læra textann sinn. [Innsett 26. jan.2003 - JJ]
Nýja ljósaborðið er á leiðinni Gjaldkerinn reif upp veskið í gleði sinni í gær og pungaði út tæplega milljón fyrir nýjum ljósagræjum, ljósaborði, köplum og tengikassa. Nýja ljósaborðið verður komið á heimaslóðir eftir 3 vikur. Áður en það gerist verður haldinn svonefndur tiltektardagur þar sem koma þess verður undirbúin - það verður nánar auglýst síðar. [Innsett 22. jan.2003 - JJ]
Spurningakeppni - lið frá Leikfélaginu Framundan er spurningakeppni milli fyrirtækja og félaga á Ströndum sem Sauðfjársetrið stendur fyrir. Leikfélagið ætlar sér að senda lið og er að velja keppendur þessa dagana. Þeir þurfa að vera ýmsum kostum búnir og fyrst og fremst óhræddir við að gera sig að fífli. [Innsett 20. jan. 2003 - JJ]
Nýtt ljósaborð ??? Leikfélagið hefur fengið tilboð í nýtt ljósaborð og tilheyrandi tengibretti sem kostar mörg hundruð þúsund. En af því gamla borðið er svo gott sem ónýtt er fátt til ráða. Líkur eru því á að félagið skelli sér á nýjan og margfalt betri ljósabúnað á næstunni, enda er staðan í veskinu ekki svo slæm. [Innsett 19. jan. 2003 - JJ]
Jóðlíf í sveit Stjórn Leikfélagsins hefur fundað stíft undanfarnar vikur og lesið firnafár af allra handa leikritum. Hallast menn helst að því að sýna gamanleikinn Sex í sveit um páskana og vonast jafnvel til að Skúli Gautason, leikarinn geðþekki, taki að sér leikstjórn. Hann hefur áður stýrt Tobacco Road hjá Leikfélaginu. Sex í sveit er ekki eina leikritið sem sýnt verður í vetur á vegum Leikfélagsins því æfingar á leikþættinum Jóðlíf eftir Odd Björnsson hófust laust fyrir jólin. Óvíst er með sýningartíma leikritsins sem gerist í móðurkviði, en bræðurnir Jón og Arnar Jónssynir fara með hlutverk jóðanna. Það hafa þeir reyndar gert áður, því þeir sýndu leikritið í kaffileikhúsinu í Café Riis á árunum 1996-97. Heyrst hefur að ástæðan fyrir því að leikritið er sýnt nú sé sú að ótrúlega margar konur á og frá Hólmavík séu óléttar nú um stundir. [Innsett 14. janúar 2003 - JJ]
Leikfélagsvefurinn opnaður - 14. janúar 2003 Nú fyrr í dag var Leikfélagsvefurinn uppfærður og opnaður endanlega fyrir alla þá sem áhuga hafa á að fræðast um Leikfélag Hólmavíkur. Þetta er mikil gleðistund í lífi vefsmiðanna, bræðranna Jóns og Arnars Jónssona. Þeir eru líka höfundar texta að mestu leyti, en þó á Sigurður Atlason líka heiðurinn af allmörgum gullkornum á vefnum. Haldið var upp á opnunina með finnskum hætti. Fyrst þögðu menn saman í tvo tíma, en síðan var skálað í vodka og haldið áfram að þegja. Ekki neitt helvítis kjaftæði og ræðuhöld. [Innsett 14. janúar 2003 - JJ]
Leikfélagspartí??? Til stóð að halda veglegt leikfélagspartí á haustmánuðum, en ekkert varð úr vegna anna skemmtinefndarmanna við allra handa annarskonar skemmtanalíf. Skemmtinefndin er þó farin að hugsa sér til hreyfings og grunur leikur á að stefnt sé að almennilegu og almennu leikfélagspartíi fljótlega, jafnvel að lokinni vinnutörn í nýju aðstöðunni. Annars hafa áhugasamir leikarar hist tvisvar sinnum undanfarnar vikur og lesið saman leikrit með miklum tilþrifum. Fyrst var lesið Sex í sveit og síðan Hallæristenórinn. [Innsett 12. janúar 2003 - JJ]
Betri aðstaða fyrir búninga og muni Leikfélagið hefur fengið jákvætt svar við beiðni sinni til Hólmavíkurhrepps um geymsluaðstöðu í kjallara Félagsheimilisins og eru ofsakátir með þann áfanga. Að vísu verða menn að hefja hamra hátt á loft og smíða dálítið til að ganga frá inngangnum, en hvað er það svo sem. Menn hafa nú gjört annað eins - það held ég nú. [Innsett í des. 2002 - JJ]
Stjórn Leikfélagsins Stjórnin sem kjörin var á aðalfundinum hefur skipt með sér verkum. Einar Indriðason er formaður eins og áður og Salbjörg Engilbertsdóttir gjaldkeri. Arnar S. Jónsson er ritari og hefur tekið við því trúnaðarstarfi af Arnlínu Óladóttir. [Innsett laust eftir aðalfund 2002 - ASJ]
Verkefni leikársins 2002-2003: Stefnan er tekin á að veturinn 2002-2003 verði sá besti og skemmtilegasti frá upphafi. Til þess að það verði raunin á að: 1) Halda veglegt leikfélagspartý fyrir áramót. 2) Vinna með Grunnskólanum að mögulegri sýningu á þeirra vegum. 3) Reyna sem aldrei fyrr að fala góðan ljósabúnað á vægu verði. 4) Flytja geymslur félagsins niður í litla sal félagsheimilisins. 5) Gera góða aðstöðu fyrir félagsstarfið í sama sal. 6) Setja upp stórt og verulega fyndið leikrit eftir áramót. Þetta var það sem félagar Leikfélagsins ákváðu að gera á aðalfundinum í september síðastliðnum. Eins og venjulega kemst þetta sjálfsagt ekki allt í framkvæmd en það verður að hafa það. Það verður alla vega svakalega gaman. [Innfært eftir aðalfund að haustlagi 2002 - ASJ]
|
||
Spakmæli síðunnar: „Eitt er um að tala, annað að framkvæma.“ |
|