Leikfélag Hólmavíkur |
|||
|
Fréttir
af leikárinu 2006-7 með því að smella
hérna.
Skúli Gautason leikur Charlie Brown Allra síðasta sýning Leikfélags Hólmavíkur á ævintýraverkinu Þið munið hann Jörund sem er vel þekkt fyrir leikgleði og söng verður29. júní í félagsheimilinu á Hólmavík og hefst kl. 20:00. Sýningin er hluti af dagskrá Hamingjudaga. Sigurður Atlason sem fór með eitt aðalhlutverkið í vetur er nú staddur í Noregi að skemmta galdraráðstefnugestum og funda um alþjóðlegt samstarf Strandagaldurs er fjarri góðu gamni. Í stað hans tekur enginn annar en leikstjórinn og atvinnuleikarinn Skúli Gautason að sér hlutverk flotaforsjóræningjans og stórkanónuskyttunnar Charlie Brown. Hljómsveitin og aðrir leikarar verða á sínum stað og eru Strandamenn allir og gestir Hamingjudaga hvattir til að skella sér á leikinn. [Innsett
26. júní 2007 - JJ] Harmonikkutónar á Hólmavík Ásdís Jónsdóttir á Hólmavík er þekkt fyrir dæmalausa bjartsýni alla daga ársins, hvernig sem viðrar. Hún setti sig út á tröppur í gleði sinni í morgun og þandi harmonikkuna nágrönnum sínum til mikillar ánægju, sjá má meira af því undir þessum tengli. Ásdís var heiðruð sérstaklega af Leikfélagi Hólmavíkur á lokasýningu á Þið munið hann Jörund í gærkvöldi og hlaut þar nafnbótina, Móðir okkar allra, fyrir óeigingjörn störf í menningarmálum og ekki síst fyrir það eitt að vera til og vera öllum öðrum hvatning til gleði og bjartsýni í hversdagsleikanum. [Innsett
29. apr. 2007 - JJ] Myndagetraun af tilefni leiksýningar Sjöunda
og síðasta sýning
Leikfélags Hólmavíkur á leikritinu Þið munið hann Jörund verður
í Félagsheimilinu á Hólmavík í kvöld og hefst kl. 20:30. Leiksýningin
hefur fengið gríðarlega góða dóma hjá gestum og einhverjir ánetjast
henni og komið nokkrum sinnum. Dæmi eru um að fólk hafi komið allt
að þrisvar sinnum á sýninguna og ætli sér ekki að láta hana
framhjá sér fara í kvöld. Það er nokkuð víst að leiksýningin
í kvöld verður ansi fjörlegt og leikarararnir ætla að sjá til þess
að gestirnir skemmti sér hið besta. Af tilefni síðustu sýningarinnar
á Þið munið hann Jörund hefur strandir.is sett upp litla
myndagetraun á Strandamannaspjallinu.
Lokasýning á Jörundi Laugardaginn 28. apríl verður lokasýning á ævintýraverkinu Þið munið hann Jörund í félagsheimilinu á Hólmavík. Í fréttatilkynningu segir að reiknað sé með gargandi stemmingu þetta kvöld og fullu húsi gesta. Áhugasömum er þess vegna bent á að panta miða á sýninguna í síma 865-3838. Í tilefni dagsins vill Leikfélagið bjóða einn frían drykk með hverjum keyptum miða. Geta gestir valið úr nokkrum tegundum gosdrykkja til að svala þorstanum og þeir sem eru orðnir 20 ára hafa einnig val um léttan eða venjulegan bjór. Kvennakórinn Norðurljós selur kaffi, svala og gómsætt bakkelsi í hléinu. Gestum sem koma lengra að, er bent á að nægt gistirými er á Hólmavík og nærsveitum og afþreying ýmis konar á boðstólum. Leikfélag Hólmavíkur var stofnað í maí 1981 og hefur starfað nær óslitið síðan þá. Í þessari uppsetningu eru þáttakendur um 25 manns á öllum aldri. Skúli Gautason leikari og tónlistarmaður leikstýrði verkinu. Honum finnst krafturinn og jákvæðnin á Hólmavík alveg hreint ótrúleg og menningarlífið með frábært, það sé kannski svolítið kraftaverk að geta sett upp leikrit með 25 leikurum í 500 manna byggðalagi. Það sanni að það sé líf á landsbyggðinni. [Innsett 27. apr. 2007 - JJ]
Hátt í 60 gestir á sýningu Leikfélag Hólmavíkur sýndi Þið munið hann Jörund við góðar undirtektir í Félagsheimilinu á Hólmavík í gærkvöldi. Hátt í sextíu gestir sem komu víða að voru á sýningunni. Þetta var fimmta sýningin á verkinu og hafa þær allar verið ágætlega sóttar. Sýning verður aftur á Hólmavík í kvöld, sunnudag, og hefst kl. 20:30. Leikritið fjallar á skoplegan hátt um dvöl Jörundar hundadagakonungs á Íslandi um tæplega tveggja mánaða skeið sumarið 1809. Þetta er fjörlegt leikrit og mikið sungið og dansað. Jörundur komst aftur í fréttirnar á Íslandi í síðustu viku eftir mikinn bruna í Austurstræti þar sem hús danska stiftamtmannsins Trampe greifa, sem Jörundur gerði að sínu, brann í miklum eldsvoða. Miðapantanir eru í síma 865 3838. [Innsett 22. apr. 2007 - JJ]
Jörundur sýndur tvisvar um helgina Söngleikurinn Þið munið hann Jörund sem Leikfélag Hólmavíkur setti upp í vetur verður sýndur tvisvar sinnum um komandi helgi. Sýnt verður bæði laugardag og sunnudag í Félagsheimilinu á Hólmavík og hefjast báðar sýningar kl. 20:30. Einnig verður leikritið sýnt 28. apríl á Hólmavík og eru þetta lokasýningar að sinni. Ekki verður farið með leikritið í fleiri leikferðalög og Jörundur verður hvorki sýndur á Drangsnesi eða í Árneshreppi vegna umfangs leikritsins. [Innsett 19. apr. 2007 - JJ]
Stórbruni í húsi Trampe greifa
Stórbruni á sér stað í
Reykjavík þessa stundina en eldur
kom upp í Austurstræti 22 og
breiddist yfir í næstu hús. Þar á meðal hús sem Trampe greifi
reisti, en hann var danskur stiftamtmaður á árunum 1806-1813 að
undanskildu því tímabili þegar Jörundur hundadagakonungur réði ríkjum
á Íslandi sumarlangt. Trampe greifi er ein aðalpersóna þeirra atburða
sem áttu sér stað sumarið 1809 þegar Jörundur hundadagakonungur rændi
völdum á Íslandi. Leikfélag Hólmavíkur er einmitt að sýna Jörund
hundadagakonung um þessar mundir og Victor Örn Victorsson skólastjóri
á Hólmavík fer með hlutverk Trampe greifa. Hús Trampe greifa
stendur á horni Lækjargötu og Austurstrætis í Reykjavík. [Innsett 18. apr. 2007 - JJ]
Fjölmenni á Jörundi í Bolungarvík Leikfélag Hólmavíkur sýndi Þið munið hann Jörund í Bolungarvík í gær og var mjög fjölmennt og góð stemmning, vel á annað hundrað gestir. Sýningin hefur sömuleiðis verið ágætlega sótt á Hólmavík, sérstaklega voru margir á frumsýningunni, en fjórða sýning er núna á páskadag í félagsheimilinu á Hólmavík og hefst kl. 20:30. Miðapantanir eru í síma 865-3838. [Innsett 7. apr. 2007 - JJ] Leikfélagið slegið út úr Spurningakeppni Strandamanna Átta liða úrslit í Spurningakeppni Strandamanna fóru fram í gærkvöldi í Félagsheimilinu á Hólmavík. Að vanda var vel mætt og létt stemmning í húsinu. Keppnirnar voru misspennandi en allar voru þær skemmtilegar og keppendur greinilega með það á hreinu að það skipir höfuðmáli að vera með og helst að hafa svolítið gaman af því um leið. Úrslit í tveimur keppnum réðust ekki fyrr en í síðustu spurningunum. Það voru lið Umf. Neista, kennara við Grunnskólann á Hólmavík, Skrifstofu Strandabyggðar og Hólmadrangs sem komust að lokum á úrslitakvöldið sem verður haldið sunnudaginn 15. apríl næstkomandi. Hér fyrir neðan má sjá úrslit kvöldsins og stutta umsögn Arnar S. Jónssonar, spyrils og dómara, um keppni Leikfélagsins: Kennarar Grunnskólanum
Hólmavík - Leikfélag Hólmavíkur = 16-8 [Innsett
4. apríl 2007 - JJ] Sýningarplanið á Jörundi lítur svona út: Frumsýning
24. mars í Félagsheimilinu á Hólmavík kl. 20:30 Miðapantanir í síma 865-3838. [Innsett
28. mars 2007 - JJ] Lesendabréf um Jörund á strandir.is "Landsbyggðin
á í vök að verjast í mörgum
málaflokkum og því miður er
það svo að oft á tíðum gleymist í dægurþrasinu það sem vel er
gert í samfélagi á borð við okkar hér á Hólmavík. [Innsett 28. mars 2007 - JJ]
Charley Brown bloggar um frumsýningu Sigurður Atlason stórleikari og fyrrverandi formaður Leikfélags Hólmavíkur fer með eitt af aðalhlutverkunum í leikritinu Þið munið hann Jörund. Hann bloggaði um frumsýninguna frá sjónarhóli leikarans: "Í gærkvöldi frumsýndum við Þið munið hann Jörund á Hólmavík. Ég er nokkuð lukkulegur með útkomuna og frammistöðu allra leikaranna. Það var ekki marga veika bletti að finna og ótrúlega samheldinn hópur. Ég lenti í örlítilli krísu í upphafi leikritsins en ég hafð farið í bolinn öfugan þannig að hægri höndin á honum lenti vinstra megin. Því tók ég ekki eftir fyrr en skömmu áður en kjúið mitt kom. Það er nefnilega mikilvægt að hægri sé hægri og vinstri vinstri vegna króksins sem Charlie Brown hefur á hægri hendi. Því ef vinstri ermin lendir hægra megin þá er hætt við að ermin dragist langt upp fyrir olnboga og krókurinn og allt mekkanóið sem honum fylgir komi í ljós, og það er frekar leiðinlegt. Því var ekki um annað að ræða en að rjúka úr frakkanum og úr bolnum og snúa honum við. Það þarf talsvert mikið að hafa fyrir því, þar sem bolurinn fer upp fyrir höfuðið og því þarf einnig að fjarlægja höfuðklútinn og hattinn og síðan að koma öllu fyrir á sínum stað. Það tókst ekki fulkomlega á þeim skamma tíma sem ég hafði því kjúið mitt kom rétt í þann mund þegar ég smeygði mér í frakkann og þá var ekki um annað að ræða en að byrja að hrópa og grýta Sir Walter Raleigh inn á sviðið. Hann vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þar sem hann var að reyna að hjálpa mér. Þegar ég kom inn og hlutverk Charlie Brown var þar með opinberlega hafið þá tók ég eftir því að það var ekki allt með felldu, því axlarbandið sem heldur upp gerfifót hans var yfir frakkanum og kuðlaði hann því illa upp auk þess sem höfuðklúturinn hafði ekki haft tíma til að rata á réttan stað og gægðist út úr vinstri erminni. Þetta pirraði mig verulega og gerði að öllum líkindum Charlie Brown en illúðlegri. En atriðið slapp og allt gekk vel. Það var helst að það væri svolítið hik á mér í upphafi eftir hlé, en því hafði ég svosem átt von á. Ég veit ekki hversu mikið hikið náði út í sal. Gestir virtust afar ánægðir við leikslok og ég var örþreyttur svo allt var eins og það átti að vera. Það er sýning aftur eftir tvær klukkustundir. Ég vona að ég komist í gegnum hana, því röddin í mér virðist vera að hverfa. Ég satt að segja efast um að nokkuð hljóð heyrist frá mér þegar líður tekur á verkið." [Innsett 27. mars 2007 - JJ]
Fyrrverandi formaður bloggar um frumsýningu Arnar S. Jónsson stórleikari og fyrrverandi formaður Leikfélags Hólmavíkur situr á hliðarlínunni núna og tók ekki þátt í uppfærslunni á Jörundi. Hann var hins vegar staddur á frumsýningunni og bloggaði svo: "Við fórum öll í gær á leikritið, Þið munið hann Jörund, í félagsheimilinu. Stórskemmtileg uppsetning hjá uppáhalds leikfélaginu mínu og ekki skemmdi að verkið er eitt af mínum uppáhalds leikritum. Hvet alla sem vettlingi geta valdið að mæta á næstu sýningar og sjá leiksigra hjá fjölda manns. Það eru gríðarleg forréttindi (sem ég er ekki viss um að allir Strandamenn geri sér grein fyrir) að eiga jafn frábært leikfélag og Leikfélag Hólmavíkur. Hér verður ekki lagður dómur á leikritið sjálft. Hins vegar verð ég að segja nokkur orð um áhorfendurna sem voru frekar þungir framan af verki í gær. Að öllum öðrum áhorfendum ólöstuðum vil ég halda því fram að Brynjar Freyr Arnarsson hafi skemmt sér best allra, enda búinn að spyrja um leikritið á hverjum degi síðan hann fór á æfingu með mér um daginn. Hann fór að sjálfsögðu í sjóræningjabúningi og hitti síðan alla skipsfélaga sína eftir leikritið: Brynjar hitti að vísu fyrst danska yfirvaldið, leiðindagaurinn Trampe greifa, sem er leikinn á snilldarlegan hátt af öðlingnum Victori Erni Victorssyni. Því sem næst hitti Brynjar konunginn sjálfan, herra Jörund. Þeir æfðu skylmingar og stilltu sér síðan upp fyrir myndavélina. Jöri er leikinn af Gunnari Melsteð sem gerir það frábærlega. Hinn snaggaralegi Hálendingur Laddie var heimsóttur næst. Þar er á ferðinni "Jón Gústi frændi minn" sem átti fantagóðan leik. Aðalatriðið var samt að hitta Charlie gamla Brown, sem var eini alvöru sjóræninginn á svæðinu fyrir utan Brynjar. Charlie otaði króknum og öskraði eins og brjálaður væri, svo mikið að Brynjari varð ekki um sel og ákvað að yfirgefa þetta furðuverk. Siggi Atla leikur Charlie og það þarf ekkert að fullvissa neinn um hans leikhæfileika - hann var frábær. Þegar þarna var komið var Brynjar kominn í ham og gerði tilraun til að drepa Billa Sverris. Það tókst sem betur fer ekki og er þar sennilega að þakka Alexander Jones sem leikinn var af Eysteini Gunnarssyni. Samt dálítið skrítið hvað Sverrir Bassi hefur gaman af þessari hrottafengnu morðtilraun. :)" [Innsett 27. mars 2007 - JJ]
Leikfélagar teknir tali Félagar í Leikfélagi Hólmavíkur stíga á svið í Félagsheimilinu á Hólmavík í kvöld og frumsýna Þið munið hann Jörund eftir Jónas Árnason í leikstjórn Skúla Gautasonar. Leikritið fjallar um ævintýri Jörunds hundadagakonungs og hans kappa. Á Íslandi lenda þeir í allskyns ævintýrum og hitta þar fyrir undarlega þjóð sem býr yfir undarlegu tungumáli og mörgum enn undarlegri siðum. Yfir tuttugu leikarar og hljóðfæraleikarar taka þátt í sýningunni sem undirbúa sig af krafti í dag, hver með sínu lagi. Sýningin hefst kl. 20:30 og ennþá er nóg af lausum sætum. Tíðindamaður strandir.is sló á þráðinn til nokkurra þeirra og innti þá eftir því hvernig þeir höguðu undirbúningnum síðustu klukkustundirnar fyrir frumsýningu. Gunnar Melsted - Jörundur
hundadagakonungur [Innsett 25. mars 2007 - JJ]
Ragnheiður Ingimundar bloggar um generalprufu "Jæja góða kvöldið ég var ein af þeim heppnu sem var boðið á generalprufu hjá leikfélagi Hólmavíkur í kvöld og þar var verið að sýna Þið munið hann Jörund. Þetta er alveg frábær sýning og hvet ég alla Hólmvíkinga og nærsveitunga til að fara á þessa sýningu. Þeir Sigurður Atlason, Gunnar Melsted, Jón Gústi Jónsson fara alveg á kostum og einnig Victor Örn, annars eru allir leikararnir frábærir og hvet ég fólk sem fer á næstu sýningar til að horfa vel á andlitssvipbrigði fólksins, þá sérstaklega Matta og Ester og líka alla hina sem kallaðir eru Íslendingar. Og munið að klappa nóg og einnig að skemmta ykkur vel, ég og Siggi við skemmtum okkur alveg frábærlega og ætlum að fara aftur og sjá þetta. Það er setið við borð og svo er bar og seldur bjór, munið að hafa peninga á lausu það er ekki posi á barnum bara frammi í sælgætinu. Takk og bless, Ragnheiður" [Innsett 24. mars 2007 - JJ]
Jörundur frumsýndur á laugardag Mikið verður um dýrðir á Hólmavík um helgina, en leikritið Þið munið hann Jörund verður frumsýnt á laugardagskvöld kl. 20:30. Önnur sýning verður svo á sunnudag kl. 15:00. Á laugardaginn verður einnig opið í pizzur á Café Riis áður en leiksýningin byrjar og Ferðaþjónustan Kirkjuból mun í samvinnu við Leikfélagið bjóða þeim sem langt eiga heim upp á gistingu og dýrindis morgunverð. Hópar sem koma að geta einnig samið um heimsóknir á Galdrasafnið á Hólmavík og Sauðfjársetrið í Sævangi í tengslum við ferðir á sýningar á Jörundi. Nánar má fræðast um starfsemi þessara aðila á vefsíðunum: www.caferiis.is [Innsett 23. mars 2007 - JJ]
Jörundur hundadagakonungur Eins og alþjóð veit eða má í það minnsta vita verður Jörundur hundadagakonungur og ævintýri hans viðfangsefni Leikfélags Hólmavíkur að þessu sinni. Frumsýning verður n.k. laugardag kl. 20:30. Í myndbandi á vefnum strandir.is er skyggnst á bak við tjöldin á æfingu verksins, en ljósmyndir í myndbandinu tók Arnar S. Jónsson. Það er Charlie gamli Brown, stórskotaliðsskytta Jörundar konungs sem leiðir okkur um undraveröld starfstéttar sinnar. Þar kemur glöggt fram losti hans og ást til kanóna og alls sem þeim fylgir, ásamt margvíslegum athugasemdum um hegðun íslensku þjóðarinnar. [Innsett 20. mars 2007 - JJ]
Sýningarplanið á Jörundi lítur svona út: Frumsýning
24. mars í Félagsheimilinu á Hólmavík kl. 20:30 Miðapantanir í síma 865-3838. [Innsett 17. mars 2007 - JJ]
Vika í frumsýningu á Jörundi Nú er einungis vika til frumsýningar á uppsetningu Leikfélags Hólmavíkur á leikritinu Þið munið hann Jörund, eftir hið ástsæla leikskáld Jónas Árnason. Æfingar hafa staðið yfir síðan snemma í febrúar og það er Skúli Gautason, húsbóndi á Víðidalsá, sem leikstýrir verkinu. Fréttaritari strandir.is kíkti í Félagsheimilið á Hólmavík í gær til að berja verkið augum og smellti hann einnig af nokkrum myndum í leiðinni. Óhætt er að fullyrða að þarna sé á ferðinni mjög metnaðarfull uppfærsla og afar líklegt að aðsókn á leikritið verði mjög góð, en samkvæmt sýningaráætlun verður það sýnt sex sinnum á Hólmavík. Minna verður um leikferðir að þessu sinni en venjulega. Ljósm. Arnar S. Jónsson [Innsett 17. mars 2007 - JJ]
Styttist í frumsýningu á Jörundi Nú styttist í frumsýningu á ævintýraverkinu Þið munið hann Jörund hjá Leikfélagi Hólmavíkur, en hún er áætluð laugardaginn 24. mars. Sýningarplanið er birt hér að neðan. Leikfélag Hólmavíkur langar til að koma því á framfæri að félagasamtökum gefst kostur á að selja kaffi og meðlæti á sýningum sem verða á Hólmavík og er mögulegt að skipta því niður á nokkur félög ef mörg hafa áhuga. Áhugasamir eru vinsamlegast beðnir að hafa samband við Salbjörgu sem fyrst í síma 865-3838 eða sendið póst á netfangið salbjorg@holmavik.is. Minna verður um leikferðir að þessu sinni en venjulega, þar sem umfang verksins og fjöldi leikara gefur ekki almennilega kost á miklum ferðalögum. Sýningarplanið er annars þannig; Frumsýning
24. mars í Félagsheimilinu á Hólmavík kl. 20:30 [Innsett 15. mars 2007 - JJ]
Allt á fullu hjá Jörundi Nú standa yfir stífar æfingar hjá Leikfélagi Hólmavíkur á söngleiknum Þið munið hann Jörund eftir Jónas Árnason. Að sögn Jóhönnu Ásu Einarsdóttur, formanns leikfélagsins, hefur stefnan verið tekin á að frumsýna verkið laugardaginn 24. mars næstkomandi og að líkindum verður farið í einhverjar leikferðir. Leikstjóri verksins er Skúli Gautason, en hann hefur leikstýrt tveimur uppsetningum hjá leikfélaginu áður, Sex í sveit og Tobacco Road. Fréttaritari strandir.is leit við á leikæfingu í vikunni sem leið og komst að því að persónurnar eru óðum að taka á sig mynd; hinn eineygði Charlie Brown haltraði um á staurfætinum, Jörundur bar myndarlegan hatt á höfði og stutt var í dans og söng hjá öllum viðstöddum. Það verður án efa spennandi að sjá afraksturinn nú í lok mánaðarins. Dansæfing í Félagsheimilinu. Gunnar Melsteð skartar fríðu höfuðfati í hlutverki Jörundar.
Jón Gústi Jónsson sem Laddie Sigurður Atlason í hlutverki Charlie Brown. Leikstjórinn Skúli Gautason glaður í bragði, enda allt á réttu róli. Hópurinn tók að sjálfsögðu lagið
samhliða myndatökunni [Innsett 3. mars 2007 - JJ]
Nóttin langa á Steingrímsfjarðarheiði Í gær voru sjálfboðaliðar frá Leikfélagi Hólmavíkur og frá Grunnskólanum á Hólmavík í eldlínunni uppi á Steingrímsfjarðarheiði, en þar var þýskt kvikmyndatökulið statt til að taka upp nokkur atriði í heimildamyndina Nóttin langa (Die Längste Nacht). Það er fyrirtækið Gruppe 5 Film Pruduktion sem framleiðir myndina, en í henni er sýnt frá nokkrum svæðum á jörðinni og þeim afleiðingum sem hrap loftsteins, svipuðum þeim sem útrýmdi risaeðlunum, hefur á mannkynið. Leikararnir uppi á heiði í gær léku Frakka sem börðust áfram í fimbulkulda eftir að ísöldin hafði tekið völdin í Frakklandi. Meðal þess sem var tekið upp var æsileg ferð á handknúnum járnbrautarvagni, sorgleg sena eftir dauða einnar persónunnar og langar gönguferðir fólksins út í kalda óvissuna. Líklegt er að myndin verði sýnd á amerísku rásinni Discovery Channel í júnímánuði næstkomandi, en einnig verður hún sýnd á fleiri erlendum stöðvum. Fréttaritari strandir.is var að sjálfsögðu uppi á heiði í gær og tók fullt af myndum af stemmningunni. Ekki náðust þó margar myndir af senunum sjálfum, enda var þá fréttaritarinn í hlutverki eins Frakkans, eins og allir hinir. Þjóðverjarnir voru með heilmikið af upptökugræjum. Magnús Rafnsson og Þórður Halldórsson rabba um örnefni á Steingrímsfjarðarheiði. Úlfar Hjartarson var ánægður með stóra tækifærið í kvikmyndunum. Hópurinn reynir að koma sér í karakter - loftsteinninn er lentur. Mikill tími fór í tilfærslur og flutning á tækjabúnaði. Magnús Bragason fékk aðalhlutverkið, hér er hann í karakter sem Frakkinn Henry. Húfa, vettlingar, teppi og hlý klæði voru bráðnauðsynlegur búnaður.
Frönsk flóttakona með bros á vör. Kjötbollurnar voru mörgum kærkomnar, enda margra stiga frost á heiðinni. Jón Gústi Jónsson einbeittur á svip. Stella Guðrún Jóhannsdóttir í búningi hinnar frönsku 11 ára gömlu Michelle. Hópurinn stillti sér upp
fyrir myndatöku áður en síðasta senan var tekin upp. [Innsett 1. mars 2007 - JJ]
Loftsteinn rekst á jörðina, fimbulvetur fylgir Þýskt kvikmyndatökulið verður statt á Ströndum næstu daga, en á miðvikudaginn verða tekin upp atriði í heimildamynd sem heitir Nóttin langa (Die Längste Nacht) í snjónum uppi á Steingrímsfjarðarheiði. Leikfélag Hólmavíkur útvegar statista sem taka þátt í kvikmyndatökunum og eru þeir sem áhuga hafa á að taka þátt hvattir til að hafa samband við Jóhönnu Ásu Einarsdóttir, formann Leikfélagsins (456-3626). Fundur verður annað kvöld þar sem farið verður yfir búninga og slíkt, en um 25 Íslendinga á öllum aldri þarf í statistahlutverk. Munu þeir leika Evrópubúa sem hafa verið á flótta í nokkrar vikur og ráfa yfir snjóbreiðuna á heiðinni. Mun handknúinn járnbrautarvagn einnig koma nokkuð við sögu. Myndin á að gerast haustið 2007 í Evrópu eftir að loftsteinn á stærð við þann sem útrýmdi risaeðlunum á sínum tíma hefur hrapað á jörðina og fimbulvetur skollið á. Nánar má fræðast um verkefnið á vefsíðu fyrirtækisins www.gruppe5film.de. Hér er um að ræða virðulegt kvikmyndafyrirtæki sem framleiðir kvikmyndir og heimildarmyndir fyrir margar stærstu evrópsku sjónvarpsstöðvarnar. [Innsett 26. feb. 2007 - JJ]
Leikæfing og fundur í kvöld Stjórn Leikfélags Hólmavíkur og Skúli Gautason ákváðu á fundi í gær að láta reyna á uppsetningu á hinu frábæra verki Þið munið hann Jörund eftir Jónas Árnason. Enn vantar eitthvað af fólki til að leika, sérstaklega karla, en ef karlmenni fyrirfinnast ekki á Ströndum er reiknað með að konur skipi helstu hlutverk. Einnig eru nokkur hlutverk þar sem enga textarullu þarf að leggja á minnið. Ennfremur vantar Leikfélagið sviðsmenn, leikmunareddara, saumafólk, búningafólk, kaffiuppáhellara, ljósamenn og fólk í mörg önnur störf. Fyrsta æfing er í kvöld kl. 20.30 í Rósubúð á Hólmavík, húsi Björgunarsveitarinnar. Allir áhugasamir eru hvattir til að mæta. [Innsett 31. jan. 2007 - JJ]
Arí-dúarí-dúra-dei Stjórn Leikfélags Hólmavíkur veltir nú fyrir sér í fullri alvöru að setja stórleikritið Þið munið hann Jörund á svið í vor. Búið er að ráða leikstjóra, hvert sem verkið verður, og er það góðkunningi Leikfélagsins sem stýrir uppsetningunni að þessu sinni, Skúli Gautason. Til að komast að því hvort þetta stórvirki sé framkvæmanlegt eru allir sem áhuga hafa á því að vinna með Leikfélaginu í vetur við uppsetningu á Þið munið hann Jörund beðnir um að hafa samband, jafnt konur og karlar. Ætlunin er að byrja að æfa á þriðjudaginn svo nú þarf að ákveða sig og hafa samband við Ásu í síma 456 3626 eða Söbbu í síma 4513476. Ekki er nauðsynlegt að geta bæði sungið og leikið, því söngflokkur sér að mestu leyti um sönginn og leikflokkur um leikinn í leikritinu. [Innsett 24. jan. 2007 - JJ]
Leiklestur á Tveimur tvöföldum Leikfélag Hólmavíkur stendur fyrir leiklestri á gamanleikritinu Tveir tvöfaldir í félagsheimilinu á Hólmavík sunnudagskvöldið 7. janúar kl. 20:00. Leiklesturinn er hluti af því að skoða hvort leikritið henti til uppsetningar hjá félaginu, hvort hægt sé að manna það og leysa úr tæknilegum málum varðandi sviðsmynd. Allir sem vilja með einhverjum hætti taka þátt í uppsetningu vetrarins eru sérstaklega hvattir til að mæta og láta í sér heyra og aðrir líka hjartanlega velkomnir. [Innsett 6. jan. 2007 - JJ]
Stórskemmtilegt spunakvöld Í lok ársins stóð Leikfélag Hólmavíkur fyrir spuna- og skemmtikvöldi á Hólmavík og tókst afbragðs vel til, þótt áhorfendur hefðu mátt vera fleiri. Söngtríóið Vaka tróð upp með lög Jónasar og Jóns Múla og einnig kepptu 4 tveggja manna lið í spunaleik og var að venju dregið um hverjir léku saman. Það var liðið Hjónakornin sem fór á endanum með sigur af hólmi eftir harða keppni. Það lið samanstóð af hjónunum Ester Sigfúsdóttur og Jóni Jónssyni á Kirkjubóli, en þau drógust einnig saman og sigruðu á síðasta ári. Arnar S. Jónsson var hins vegar valinn Spunatröll Leikfélagsins af áhorfendum. Margir skemmtilegir leikþættir litu þarna dagsins ljós og má til dæmis nefna spunaþáttinn Vegurinn um Arnkötludal sem liðið Hjónakornin lék í biblíusögustíl. Einnig má nefna stórleik Spunatröllsins Arnars og Jóhönnu Ásu Einarsdóttur í liðinu Ennisættin, í spunaþættinum sem bar nafnið Óeirðir á Kárahnjúkum. Þann leikþátt léku þau í Shakespear-stíl og var innlifunin svo mikil að leikararnir töluðu allan tímann í bundnu máli eftir að hafa fengið hefðbundinn 10 sekúndna umhugsunartíma. Spunatröll Leikfélags Hólmavíkur frá upphafi:
2006 - Arnar S. Jónsson Sigurvegarar í spunakeppni Leikfélagsins frá upphafi:
2006 - Hjónakornin - Ester Sigfúsdóttir og Jón Jónsson [Innsett 4. jan. 2007 - JJ]
Undirbúningur í fullum gangi Undirbúningur fyrir skemmtikvöld Leikfélags Hólmavíkur er nú í fullum gangi, en það verður haldið í félagsheimilinu á Hólmavík í kvöld kl. 20:30. Skemmti- og spunakvöldið er m.a. haldið til að lagfæra bágborna stöðu á bankareikningi félagsins og er aðgangseyrir 500 krónur. Leikfélag Hólmavíkur hefur átt margar góðar stundir og skemmtunin nú er haldin á 25 ára afmæli félagsins. Spunaleikarar sem vilja skemmta sér vel eða jafnvel slá í gegn í spunakeppninni í kvöld geta enn skráð sig til þátttöku hjá Salbjörgu Engilbertsdóttur í síma 451-3476 og 865-3838. Núverandi stjórn Leikfélagsins skipa Salbjörg Engilbertsdóttir, Jóhanna Ása Einarsdóttir og Svanhildur Jónsdóttir. [Innsett 29. des. 2006 - JJ]
Skemmti- og spunakvöld 29. des. 2006 Föstudagskvöldið 29. des. kl. 20:30 verður skemmtikvöld og spunakeppni Leikfélags Hólmavíkur í félagsheimilinu á Hólmavík. Allir hjartanlega boðnir velkomnir og gestum verður fagnað ákaflega. Kaffi, gos og nammi. Skemmtikvöldið er haldið til að bæta stöðuna á bankareikningi félagsins sem einmitt fagnar 25 ára afmæli um þessar mundir. Áhorfendur velja nýtt spunatröll! [Innsett 27. des. 2006 - JJ]
Fjörugur aðalfundur - skemmtikvöld framundan Á dögunum var haldinn aðalfundur Leikfélags Hólmavíkur og var mikill hugur í fundarmönnum. Stefnt er að skemmti- og spunakvöldi á vegum Leikfélagsins á Hólmavík föstudaginn 29. desember og einnig var rætt um verkefnaval fyrir uppsetningu vorsins á aðalfundinum. Fram kom á fundinum að fjárhagsstaða Leikfélagsins er með versta móti sem skýrist helst af dræmri aðsókn á síðasta leikrit. Í stjórn Leikfélags Hólmavíkur voru kosnar Jóhanna Ása Einarsdóttir, Salbjörg Engilbertsdóttir og Svanhildur Jónsdóttir. [Innsett 5. des. 2006 - JJ]
Aðalfundur aðalfundur aðalfundur Aðalfundur Leikfélags Hólmavíkur verður haldinn á sunnudagskvöldið kemur, 26. nóvember 2006 í Félagsheimilinu á Hólmavík. Þar verður lagt á ráðin um verkefni vetrarins, en eins og menn vita er Leikfélagið á Hólmavík eitt allra ofvirkasta áhugaleikfélag landsins. Allir eru boðnir hjartanlega velkomnir og nýjum félögum verður fagnað ákaflega, segir í fréttatilkynningu. Lofað er að kaffi, gos og nammi verði á boðstólum á fundinum. [Innsett 24. nóv. 2006 - JJ]
Aðalfundur framundan 26. nóv. 2006 Sunnudagskvöldið 26. nóv. kl. 21:00 verður aðalfundur Leikfélags Hólmavíkur. Allir hjartanlega boðnir velkomnir og nýjum meðlimum verður fagnað ákaflega. Kaffi, gos og nammi í boðinu. Hefðbundin aðalfundurstörf og rætt um verkefni vetrarins. [Innsett 20. nóv. 2006 - JJ]
Hörður Torfason á Hólmavík Sagt er frá því á vef Popplands að söngvaskáldið Hörður Torfa er að leggja upp í sína síðustu hringferð í kringum landið og verða meðal annars tónleikar á Café Riis á Hólmavík sunnudaginn 24. september kl. 20:30. Hörður hóf að ferðast um landið árið 1970 og smám saman þróuðust ferðirnar út í að hann fór hringinn nánast á hverju ári og stundum tvisvar. Það er varla til það þorp á landinu sem Hörður hefur ekki heimsótt með tónleika og flest þeirra oftar en einu sinni. Hörður hefur ákveðið að fara síðustu hringferðina núna í haust, þó að í framtíðinni muni hann halda áfram heimsækja ýmsa byggðarkjarna og staði með tónleika. Með í farteskinu hefur hann nýútkomna Söngvabók og plötuna Tabú sem hefur verið yfirfærð á geisladisk. Auk þess hefur hann með sér nýútkominn disk með heiðurstónleikum sem honum voru haldnir í Borgarleikhúsinu í september 2005. Hörður er Hólmvíkingum að góðu kunnur, enda hefur hann oft haldið tónleika á Hólmavík og þykir afburðasnjall tónleikahaldari. Hörður dvaldi einnig á Hólmavík við leikstjórn vorið 1992 þegar hann leikstýrði gamanleiknum Glímuskjálfta hjá Leikfélagi Hólmavíkur. Vefsíða Harðar Torfa er á slóðinni www.hordurtorfa.com. [Innsett 19. sept. 2006 - JJ]
|
||
Spakmæli síðunnar: „Eitt er um að tala, annað að framkvæma.“ |
|