Leikfélag Hólmavíkur |
|
||
Strembin ferð með Húrra krakka Ferðasaga úr leikferð Leikfélags Hólmavíkur í Dalabúð, Króksfjarðarnes, Reykjaskóla og Broddanesskóla með leikritið Húrra krakki eftir Arnold & Bach árið 1984. Lagt var af stað frá Hólmavík á föstudegi og ákveðin sýning um kvöldið í Dalabúð kl. 21. Lagt var af stað upp úr kl. 14 og átti að gefa sér góðan tíma til að ná til Búðardals fyrir sýningu. Með í förinni á lítilli
rútu sem hljómsveitin Þyrlar
áttu, voru náttúrulega allir leikararnir auk ljósameistara og hvíslara.
Leikmunir voru að mestu leyti í smákerru aftan í rútunni sem fengin
var að láni hjá KSH. Aðrir ferðafélagar voru Friðrik Runólfsson, Haraldur Jónsson, Sigurður Atlason, Anna Jóna Snorradóttir, Drífa Hrólfsdóttir, Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir, Katrín Sigurðardóttir auk sjúffler Birna Björnsdóttir. Allt gekk vel í byrjun
og ákveðið að æfa textann í
rútunni á leiðinni og var byrjað inn sýsluna og var um það bil hálfnað
á miðri Laxárdalsheiði er einhverjum var litið aftur og rekur upp skaðræðisóp
og bílstjórinn (Gunnar) sér í speglinum, þar sem rútan var á leið
yfir ræsi, að kerran losnaði aftan úr, tók hring í loftinu fram á
við og aftur á hjólin í vegkantinum, og hefðu ekki verið takmarkaðar
bremsur á rútunni þá hefði kerran umsvifalaust lent aftan á bílnum,
en sem betur fór gerðist það ekki. Kerran laskaðist töluvert sérstaklega
að aftan og húsgögnin okkar fóru illa. Stóll datt út og rifnaði
áklæðið, fætur á öðrum fóru
í gegnum leiktjaldsfleka, en sem betur fer var hægt að setja
veggteppi yfir gatið er á sviðið var komið. Í stólinn varð að
stoppa, stagla og negla fyrir sýninguna í Dalabúð, en kerran var eftir
óhappið opin að aftan. Það sem bilaði var nagli
í festingunni í beislinu en vegurinn var síður en svo góður. En þetta
varð til þess að við urðum að snúa við niður til Borðeyrar og fá
bolta í beislið, það tafði okkur mikið en allt hafðist það nú
fyrir rest. Í Búðardal náðum við
tímanlega en áhorfendur í Dalabúð voru sárafáir
(sirka 35) að okkur fannst á þetta
stórum stað. Gistingin í Dalabúð
var í kjallaranum og legið á dýnum.
Þar gekk allt vel í svefn fyrir rest, ráðnar krossgátur og spjallað
frameftir. En um morguninn var erfitt að fá morgunkaffið, þrautalendingin
var að fara út um bakdyr á kjallara (þá loks þegar við fundum dyr)
og á söluskála kaupfélagsins og fengum okkur morgunhressingu. Sumir
voru daprir en allt fór þetta nú vel. Komið var undir hádegi og eftir
að hlaða bílinn og kerruna og keyra í Króksfjarðarnes í hádegismatinn
sem beið okkar þar, en loksins vaknaði stúlkan sem var með lykilinn að
útgöngudyrunum með leikmunina og í millitíðinni galdraði Drífa
fram gryfjuplast til að þétta kerruna, svo það var hægt að keyra af
stað og var það léttir að allt stóðst áætlun. Í Króksfjarðarnesi var
tekið forkunnar vel
á móti okkur enda skyldfólki og vinum að mæta. Hlaðið borð af kræsingum
og allt fyrir okkur gert sem hægt var, gott hús og búningsaðstaða
enda sýningin vel heppnuð og margt fólk og við ánægð með allan aðbúnað.
Fengum einbýlishús til eigin afnota og allt eins og við vildum. Okkur
ar auk þess boðið í kvöldmat og að horfa á sjónvarp í einkahúsi.
Svo var Hestamannafélagið
með dansleik um
kvöldið í Vogalandi. Það var mikið gaman. Sumir tóku það of geist
til að byrja með og voru útrunnir áður en ballið var búið, en
allir komust í rúmin sín og velsæmið í góðu lagi. Siggi var
reyndar ekki ánægður með að vera settur við hliðina á Hadda, en það
fer nú tvennum sögum af því, það er ekki gott að segja svona daginn
eftir. En óskup var heilsan misjöfn
og bágborin hjá mörgum daginn
eftir, sumir þoldu ekki að gengið væri upp og niður stiga og aðrir að
hafa tóm glös allt í kringum sig og ekki til umræðu annað en að
koma sér í morgunkaffið og drífa sig af stað því sýning var auglýst
kl. 14 í Reykjaskóla. Svona eftir á var það
tóm vitleysa og of mikil bjartsýni
að láta sér detta í hug að vera með sýningu þar á þessum tíma
enda aðsóknin eftir því, kringum 25 manns og flest skólabörn á
barnamiðum. Erfitt var að koma upp leiktjöldum í íþróttahúsinu,
allt í steinsteypu og slæm aðstaða á allan hátt og mannskapurinn
eftir því í lélegu stuði. Við sáum líka að okkur var það ofraun
að komast frá næstu sýningu sem vera átti í Broddanesskóla kl. 21
um kvöldið, með enn einni uppsetningu á leiktjöldum, taka þau niður,
lesta bílinn, fá sér einhverja lífsnæringu í Staðarskála, fara í
Broddanes og setja upp tjöldin aftur, og til Hólmavíkur, kjósa í
prestkosningum fyrir kl. 20 um kvöldið, aftur út að Broddanesi í búninga
og smink og sýna kl. 21. Svo Kata fór í símann í Reykjaskóla og
kallaði á hjálp og fékk Magnús rafvirkja og Ásmund trésmið auk
annarra að mæta okkur í Broddanesi og bílstjóra til að flytja okkur
til Hólmavíkur í prestkosningu og aftur úteftir. Verk rafvirkjans, trésmiðsins
og hinna var að koma upp leiktjöldunum og undirbúa sýninguna og allt fór
það vel úr höndum hjá þeim og dagskráin hélt áætlun. Góð sýning og aðsókn, yndislegar undirtektir, enda var það sem við
þurftum, svo úttauguð sem við vorum. Heim komum við uppúr miðnætti
á sunnudagskvöld og var þá miklum áfanga náð, en illa farin útgerðin.
Ekki vorum við viss um að sófasettið væri nothæft meir því eins og
fyrr segir opnaðist kerran að aftan í byrjun ferðar og jós eftir það
drullunni af veginum inn í sig og urðu leikmunir fyrir því þrátt
fyrir gryfjuplastið. Í svona leikferð förum
við ekki aftur án þess að hafa aukafólk
til að koma upp leiktjöldum, sjá um búninga og vinna önnur aukastörf.
Það er bjartsýni að ætla sama fólkinu það og er að leika, orðið
örþreytt af snúningunum þegar sýningin á að byrja. En mikið var þetta
gaman og á eftir að lifa í minningunum árum saman. Skráð
af Katrínu Sigurðardóttir - Myndir úr þessari leikferð væru vel þegnar -
|
|||
Spakmælið: „Þrjú hjól undir bílnum, áfram skröltir hann þó ...“ |
|