Leikfélag Hólmavíkur |
|
||
Með Glímuskjálfta til Raufarhafnar Farið
var í 2 leikferðir með Glímuskjálfta, eina
helgarferð í Króksfjarðarnes
og Lýsuhól og svo 6 daga leikferð um Norðurland. Í þeirri ferð var
ferðast með rútu og bílstjóra frá Allrahanda. Leikferðin var öll
tekin upp á myndband og er hún í dag mikil heimild um leikferðir þessa
tíma. Aðsókn í ferðalaginu var upp og ofan, en langmest var hún í
vinabæ Hólmavíkur á Raufarhöfn þar sem tekið var á móti hópnum sem kóngafólki.
Honum voru haldnar matarveislur og ræður og færðar ýmsar gjafir.
Á Kópaskeri var leikið í
grunnskóla staðarins, en það var einstök
reynsla, því sviðið er niðurgrafið eins og rómverskt hringleikahús
þannig að áhorfendur horfðu niður á leikarana. Áhorfendurnir hefðu
að vísu mátt vera fleiri á Kópaskeri, en það var þó ekki slæmt
miðað við aðsóknina í Húsavík, en þar var slegið met því að
þar mættu einungis níu manns.
Einstök
sumarblíða var alla ferðina og ýmislegt gert, annað en að
leika. Hópurinn var t.d. sérlega iðinn við að skoða fallega staði.
Í Ásbyrgi stóðust tveir leikarar, Jón Gísli Jónsson og Sigurður
Atlason ekki mátið og spunnu upp leikþáttinn Úhúmaðurinn. Hann
er ekki talinn vera við hæfi ungra barna.
Í Kjarnaskógi á Akureyri var síðan haldin geysimikil grillveisla í tilefni þess að leikferð um Norðurland væri lokið. Þar var meðal annars tekinn upp einþáttungurinn Hver er að ganga á brúnni minni sem er lögfræðidrama sem fjallar um tröllkarl og geitafjölskyldu sem greinir á um eignarrétt brúar nokkurrar.
Allir komust heilir heim að lokum. Köttur út í mýri, setti upp á sig stýri, úti er ævintýri.
|
|||
Spakmælið: „Þrjú hjól undir bílnum, áfram skröltir hann þó ...“ |
|