Leikfélag Hólmavíkur |
|||||||||||||
Magnús Rafnsson og Arnlín Óladóttir unnu leikgerð eftir smásögunni Náttgalabæ eftir drottningu sakamálasagnanna, Agötu Cristie. Þessi þáttur var svo leikinn af Leikfélagi Hólmavíkur sem hluti af dagskránni Það er list að lifa árið 1991. Undirbúningurinn fyrir sýninguna var ýmsum annmörkum háð. Allir leikarar léku í Fíflinu á sama tíma og það leikrit útheimti ákveðinn forgang til æfinga vegna fjölda leikara. Eins gekk illa að ákveða hvernig leikritið ætti að enda og var það loksins neglt niður rétt fyrir frumsýningu. Slík óvissa hefur ekki góð áhrif á æfingarnar. Í leikritinu átti líka að vera gamall garðyrkjumaður en enginn slíkur virtist á lausu á Hólmavíkursvæðinu. Förðunarmeistarar félagsins reyndu að breyta 13 ára strákling og verðandi stórleikara (Arnari S. Jónssyni) í gamlingja með hroðalegum árangri. Loks komu menn auga á einföldu leiðina - að breyta Georg gamla í handritinu í garðyrkjudrenginn Georg. Þá bættist lögregluþjónn við í leikritið seint á æfingatímanum. Enn eitt vandamálið var lýsingin. Hugmyndin var að hugsanir Alixar birtust sem eins konar uppljómanir - hugsanakassar með einni persónu aftast á sviðinu. Eftir mikla mæðu tókst loksins að græja þetta nokkuð vel, en aðferðin reyndi samt um of á hugmyndaflug nokkurra áhorfenda sem skildu fyrir vikið hvorki upp né niður í leikritinu. Þetta var líka bölvað basl í leikferðum. Sýningar á leikritinu Náttgalabæ höfðu þá sérstöðu að meirihluti leikaranna eru bræður. - Smellið á myndirnar til að sjá stærri útgáfu - Höfundur: Agatha Cristie Leikgerð: Arnlín Óladóttir og Magnús Rafnsson Leikstjóri og hvíslari: Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir Persónur
og leikarar:
- Sjá nánar: Það er list að lifa -
|
|||||||||||||
Spakmæli verksins: „Hann er dáinn, frú.“ |
|