Héraðsbókasafn Strandasýslu

Bókaormur

Grunnskólanum á Hólmavík, Skólabraut 20
Bókavörður: Kristín Sigurrós Einarsdóttir
Sími: 451-3256
Netfang: bokasafn@holmavik.is

Opnunartími:
 10:00-13:30 á skólatíma og 19:30-20:30 á þriðjudagskvöldum.

 
Aðalsíða

Tilkynningar

Bóka- og ljóðakvöld

Safnkosturinn

Saga bókasafnsins

Handskrifuð sveitablöð 

Ef þið hafið ábendingar sendið þá bókaverðinum póst: bokasafn@holmavik.is 
 

Handskrifuð sveitablöð á Ströndum - innlegg í héraðssöguna

Um tíma, fyrir og eftir aldamótin 1900, einkenndi útgáfa á handskrifuðum blöðum menningarlíf á Ströndum eins og í öðrum héruðum landsins. Þessi blöð voru sum hver gefin út af einstaklingum og önnur af félögum. Í þeim er bæði skáldskapur, greinar og fréttir og sumt af þessu efni er merkilegt fyrir sögu héraðsins. Mest af efninu er þó réttara að líta á sem ritæfingar og þessi vettvangur hefur greinilega verið mikilvægur skóli fyrir höfundana, þjálfun í að setja skoðanir og hugmyndir fram í rituðu máli.

Gestur

Árið 1880 var handskrifaða vikublaðið Gestur gefið út í Tungusveit, en ekki er ljóst hve lengi sú útgáfa stóð. Guðbjörn Björnsson í Tungugröf (d. 1912) stóð að útgáfunni. Í blaðinu var innlent og erlent efni, fjallað um afkomu fólks til lands og sjávar, slysfarir, dauðsföll, tíðarfar, aflabrögð og fleiri fréttir úr sveitinni og nágrannabyggðum. Þetta blað var til útláns hjá Lestrarfélagi Tungusveitar. Lýst er eftir upplýsingum um hvar blaðið er varðveitt nú - e.t.v. í Sævangi. 

Unglingur

Um svipað leyti og Gestur kom út annað blað í Tungusveit sem hét Unglingur. Óvíst er hvenær það kom fyrst út, jafnvel á undan Gesti, en kannski tók blaðið við af honum. Vera kann að bæði hafi komið út á sama tíma. 18 tölublöð komu út, það síðasta 27. apríl 1892. Óvíst er hvað blaðið er varðveitt nú - e.t.v. í Sævangi.

Dalbúinn

Árið 1891 gáfu Níels og Halldór Jónssynir frá Tind í Tungusveit út sveitarblaðið Dalbúann, en það hætti að koma út 1893. Níels var ábyrgðarmaður og ritstjóri fyrsta árgangs og Halldór næstu tveggja. Blaðið flutti fréttir, vísur og ritgerðir, mest eftir þá bræður. Í blaðinu eru afar skemmtilegar hugleiðingar um sveitarblöð, eðli þeirra, andlát og ritstjórnarvandræði í bundnu máli. Blaðið er varðveitt í Skotlandi - er í vörslu afkomanda sem þar býr.

Morgunstjarnan

Blaðið Morgunstjarnan var gefin út af Lestrarfélagi Fellshrepps frá því um 1890-91. Forgöngumenn voru Guðjón Guðlaugsson á Ljúfustöðum, síðar alþingismaður, og séra Arnór á Felli, en ritstjórar fyrsta veturinn voru einnig Sigurður Magnússon Broddanesi og Finnur Jónsson í Hlíð. Greinar voru um margvísleg efni. Fram kemur í fundargerð að eitt eintak sé innbundið og talið með bókum félagsins. 

Morgunstjarnan gekk alla leið inn í Hrútafjörð. Blaðið var einnig til útláns hjá Lestrarfélaginu. Morgunstjarnan og Unglingur voru vettvangur hatramms hrepparígs milli Tungusveitunga og Kollfirðinga á þessum tíma. Sögn er um að Guðjón á Ljúfustöðum hafi brennt upplagið. Ekki er vitað um eintak af blaðinu - ath. þarf safnið í Broddanesskóla.

Félagsblaðið

Gefið út á vegum Lestrarfélags Fellshrepps frá 1896, n.k. framhald af Morgunstjörnunni, en kom ekki út í mörg ár. Ekki er vitað hvar blaðið er niðurkomið nú.

Tíminn

Á Handritadeild Landsbókasafns er varðveitt blaðið Tíminn (Lbs 4834, 4to) sem gefið var út í Reykjarfirði í Árneshreppi. Efnið er eingöngu uppskrift á sögunni Leyndarmálið um Mr. Feliz eftir B.L. Farjeon og upphafið að Rudrikshall eftir M. Widdern (í 19. tölublöðum). Ritstjóri er Sörli Guðmundsson verslunarmaður í Kúvíkum. Blaðið er sagt 10. árgangur, 1-19. tbl. 2. jan - 5. maí 1900, en árgangsnúmerið gæti verið villa. Að minnsta kosti er ekkert vitað um fyrri árganga Tímans. 

Skinfaxi

Í fyrsta tölublaði Gests sem talað erum hér á eftir, er blaðið Skinfaxi nefnt og virðist það vera forveri Gests. Blaðið er ekki varðveitt svo vitað sé. 

Gestur

Halldór Jónsson í Miðdalsgröf í Tungusveit (d. 1912) gaf út og skrifaði að miklu leyti blaðið Gest árin 1907 og 1908. Hagnaðurinn af útgáfunni rann til Lestrarfélags Tungusveitar. Árgangarnir tveir eru varðveittir á Handritadeild Landsbókasafns og eru tölublaðafjöldinn 37.

Vísir

Blað Ungmennafélagsins Gróðurs í Kollafirði. Fyrsta tölublað kom út 8. nóv. 1918 og síðan komu út 18 tölublöð til ársins 1929. Allmargir félagsmenn skrifuðu um ýmis málefni og einnig voru í blaðinu framsamdar sögur og ljóð. Óvíst er hvar blaðið er varðveitt. 

Framtíðin

Í Bæjarhreppi gaf Málfundafélagið út handskrifað sveitarblað, en félagið var stofnað 1918 og starfaði til 1932. Efnið var skráð í sérstakar bækur og lesið upp á fundum, gekk einnig á milli bæja. Bjarni Þorsteinsson kennari sat afar lengi í ritnefnd og skrifaði mikið í blaðið. Efnið er ýmiskonar hugvekjur og ritsmíðar, sögur og ljóð. Greinar og ljóð undir dulnefninu Svipdagur eru eftir Jón Matthíasson frá Jónsseli. Blaðið er í vörslu Georgs Jóns Jónssonar á Kjörseyri.

Viljinn

Blað ungmennafélagsins Geisla í Hrófbergshreppi. Hefur sennilega hafið göngu sína um 1922 og hefur þá Ingimundur Magnússon líklega verið fyrsti ritstjóri þess. Jóhann Hjaltason tók síðan við stjórn og ritun blaðsins árið 1925 og kom það þá út mánaðarlega yfir veturinn eða 5-6 sinnum á ári. Í tíð hans var tekin upp sú nýjung að láta blaðið ganga bæ frá bæ í hreppnum, auk þess sem það var lesið upp á ungmennafélagsfundum. 

Efni blaðsins er skoðanaskipti um innansveitarmálefni. Þar birtust einnig sögur og ljóð, vísur, örnefni, auk sagna og fróðleiksgreina eins og Jóhanns er von og vísa. Árið 1928 tók Guðbrandur Magnússon við ritstjórn, óvíst er hve lengi blaðið kom út. Ekki er ljóst hvar blaðið er niður komið nú en mjög líklega er það varðveitt.

Máni

Handskrifað blað sem gefið var út frá 1925 á vegum ungmennafélagsins Neista á Drangsnesi. Matthías á Kaldrananesi var ritstjóri en ritnefndir voru skipaðar á hverjum fundi honum til aðstoðar. Fyrst var Máni lesinn upp á fundum, en gekk síðan á milli bæja. Ekki er ljóst hvenær blaðið lagðist af, en félagið lá niðri frá 1933. Óvíst er hvar blaðið er nú.

Hvöt

Ungmennafélagið Harpa í Bæjarhreppi gaf blaðið út, en það félag var stofnað 1925. Í febrúar árið eftir var lesið úr blaðinu á fundi. Blaðið kom síðan reglulega út fram yfir árið 1940, en þá fór að draga úr þessari starfsemi og á árunum 1950-60 kom blaðið ekki út. Skömmu eftir endurreisn ungmennafélagsins árið 1960 komu út tvö myndarleg eintök. 

Blaðið Hvöt er mikið að vöxtum, en einkum hefur fyrsta ritnefndin - Skúli Guðjónsson á Ljótunnarstöðum, Sæmundur Guðjónsson á Borðeyrarbæ og Guðlaugur Jónsson - unnið mikið starf. Blaðið er varðveitt, en hvar það er nú veit ég ekki. 

Víðir

Árið 1927 var Ungmennafélagið Smári í Bitrufirði stofnað og snemma sama ár hóf blaðið Víðir einnig sinn feril. Óvíst er hve lengi það var gefið út. Blaðið var í bókarformi og stóru broti og lesið upp úr því á fundum. Blaðið Víðir er sennilega glatað.

Hvöt

Blað ungmennafélagsins Hvatar í Kirkjubólshreppi. Þann 30. des 1931 var fyrsta blaðið lesið upp á fundi félagsins. Þrjár ritnefndir sáu um útgáfuna til skiptis. Eftir 1940 var orðið erfitt að fá menn til að skrifa í blaðið og 1944 kom það út í síðasta skipti. Nokkru seinna var tekið upp á því að lesa úr gömlum árgöngum á málfundum félagsins sem voru síðan aflagðir 1956. 

Blaðið er frábær heimild um félagsvinnu á vegum ungmennafélagsins í Tungusveit og samhjálp bændanna í sveitinni. Líklega varðveitt í Sævangi. 

Viljinn

Málfundafélagið Vaka sem starfaði 1934-9 á Hólmavík gaf út handskrifað blað sem Viljinn hét. Hvar og hvort það er varðveitt veit ég ei. 

Kvásir

Blað ungmennafélagsins Neista á Drangsnesi, eftir að félagið var endurvakið 1935. Blaðið kom út frá 1936 og var Guðmundur Þ. Sigurgeirsson á Drangsnesi ritstjóri. Ákveðið var að lesa blaðið upp á fundum en láta það ekki ganga milli manna. Blaðið er líklega varðveitt, hvar veit ég ekki.

Trékyllir

Blað ungmennafélagsins Leifs heppna í Árneshreppi sem stofnað var 1941. Efnið var fært inn í stóra bók sem lesin var á fundum. Útgáfa blaðsins lagðist niður þegar Þorsteinn Matthíasson flutti úr byggðalaginu 1943. Upplag þess brann, að því er best er vitað, á Krossnesi 1971.

Skuggi

Blað ungmennafélagsins Eflingar sem starfaði í Reykjarfirði (Djúpavíkursvæðinu). Ákveðið var á aðalfundi 1941 að gefa blaðið út og valinn var umsjónarmaður til að annast útgáfuna. Fyrstur var Jóhannes Pétursson. Í fundargerðum kemur fram að blaðið var lesið upp á fundum allt til 1947, en þá var lesið upp úr tveggja ára birgðum af félagsblaðinu. Sennilega er þetta blað glatað.

Gæti verið að okkur Strandamenn vanti Héraðsskjalasafn?

 

© 2003 - Jón Jónsson,
þjóðfræðingur á Kirkjubóli

Vefsíðugerð: Sögusmiðjan