Héraðsbókasafn Strandasýslu

Bókaormur

Grunnskólanum á Hólmavík, Skólabraut 20
Bókavörður: Kristín Sigurrós Einarsdóttir
Sími: 451-3256
Netfang: bokasafn@holmavik.is

Opnunartími:
   10:00-13:30 á skólatíma og 19:30-20:30 á þriðjudagskvöldum.

 
Aðalsíða

Tilkynningar

Bóka- og ljóðakvöld

Safnkosturinn

Saga bókasafnsins

Saga Héraðsbókasafnsins

Lestrarfélög á Ströndum
Handskrifuð sveitablöð á Ströndum

Lestrarfélag Hrófbergshrepps

Ef þið hafið ábendingar sendið þá bókaverðinum póst: bokasafn@holmavik.is 
  

Gjörðabók Lestrarfélags Hrófbergshrepps

[varðveitt á Héraðsbókasafninu á Hólmavík]

 

Lög Lestrarfjelags Hrófbergshrepps 1897:

1.gr.

Fjelagið heitir Lestrarfjelag Hrófbergshrepps.

2. gr.

Það er til gangur fjelagsins: að efla og auka samheldni og mentun í Hreppnum og afla mönnum saklausrar skemtunar af bókalestri.

3. gr.

Sjerhver maður innan Hrófbergshrepps, hvort heldur er karl eða kona, hefir rjett til að ganga í fjelagið, ef hann æskir þess og ritar nafn sitt undir skuldbindingarskrá fjelagsins, hver fjelagsmaður greiði árlega í sjóð fjelagsins 1 krónu, er borgist fyrir janúarmánaðarlok árhvert.

4. gr. 

Stjórn fjelagsins hafa á hendi 3 menn og eru þeir formaður, bókavörður og gjaldkeri, kosning þeirra frammfer á aðalfundi og gildir aðeins til næsta aðalfundar, og má þá endurkjósa þá, eptir að þeir hafa gjört grein fyrir starfa sínum, þessir þrír menn skulu ráða bókakaupum fjelagsins og hvernig fjármunum þess er varið.

5. gr. 

Formaður hefir á hendi yfirstjórn og hellstu frammkvæmdir fjelagsins, kveður til funda og stjórnar þeim, annast um útvegun bóka þeirra er fjelagið kaupir, útvegar innband á bókum fjelagsins og fl., hann skal hafa bók til að rita í það sem að framm fer á fundum fjelagsins og geima hana ásamt öðrum skjölum þess.

6. gr. 

Bókavörður geimir bækur fjelagsins og annast um útlán þeirra. Hann hafi bók er hann ritar í hverjar bækur fjelagið á, hverjum þær eru ljeðar og hvort þær koma skilvíslega úr láninu. Sjeu bækurnar skemdar tilkynnir hann það formanni, sem ásamt honum metur skemdirnar. Á aðalfundi hverjum skal bókavörður leggja framm skrá yfir bækur fjelagsins og skíra frá hvort þær eru í standi, sömuleiðis skírir hann frá hvort nokkur bók hefir glatast og af hvaða orsökum.

7. gr.

Gjaldkeri inn heimtir tillög fjelagsmanna og ábyrgist þau, ásamt þeim fjármunum sem er fjelagið kann að eignast á annan hátt, einnig annast hann um öll útgjöld fjelagsins, samkvæmt ákvæðum fjelagsstjórnarinnar: Hann hafi bók er hann riti í tekjur og útgjöld fjelagsins, og á aðalfundi skal hann leggja fram skírslu um fjárhag þess og verður hún borinn undir álit fjelagsins.

8. gr. 

Einn aðalfundur skal haldinn á ári hverju í fjelaginu í janúar og skal formaður með nægum fyrirvara tilkynna fjelagsmönnum hvar og hvenær fundur skal haldast. Þá er lögmætur fundur er 7. fjelagsmenn mæta. Á fundinum skal kjósa embættismenn fjelagsins samkvæmt 5. gr., kosningin frammfer skriflega, og gengst hinn fráfarandi formaður fyrir henni. Áður en gengið er til kosninga skíra embættismenn fjelagsins frá ástandi þess samkvæmt 6-7 grein, og þiki eitthvað tortryggilegt í skírslum þeirra hefir fundurinn rjett til að kjósa menn til að rannska þær. Formaður skal bóka allar gjörðir fundarins, einkum þær er snerta fjelagið. Í þeim málum sem eigi breyta lögum fjelagsins, ræður meiri hluti atkvæða.

9. gr. 

Sjerhver fjelagsmaður hefir rjett til að fá lánaðar bækur þess hjá bókaverði, og halda bók hverri eins marga daga og arkir eru í henni, sje hún stærri en 7 arkir, en öllum minni bókum í viku. Aðalreglan sje að lána ekki nema eina bók í senn af stærri bókunum, þá hefir bókavörður vald til að breyta útaf henni þar sem honum þikir þess þurfa, þó svo að það komi sem minnst í bága við aðra fjelagsmenn. Lántakandi ábirgist bækur þær er hann fær að láni, og borgar fyrir spjöll á þeim og eins ef þær glatast hjá honum. Enginn fjelagsmaður má lána utan fjelagsmanni nokkra bók fjelagsins, og varðar tveggja króna sekt ef útaf er breytt, er renni í fjelagssjóð. Öllum bókum fjelagsins sje skilað til bókavarðar fyrir aðalfund, þær sjeu allar heima hjá bókaverði fundardag fjelagsins.

10. gr. 

Allar bækur fjelagsins sjeu merktar sama marki og bókaskápur þess: Lestrarfjelag Hrófbergshrepps. Stjórnendur fjelagsins skulu sjá um [að] allar bækur fjelagsins sjeu innbundnar og í góðu standi.

11. gr. 

Fjelagið taki þakksamlega á móti öllum bókum er því kunna að verða gefnar hvers efnis sem eru.

12. gr. 

Menn skulu ganga í fjelagið á aðalfundi, en þeir sem ganga í það á milli funda tilkynna það formanni, en greiða árstillag fullt. Gjaldkeri tilkynni bókaverði öll vanskil fjelagsmanna í að greiða tillög sín, og getur bókavörður þá hætt að lán[a] þeim bækur er vanskil hefir sýnt. Þeir sem segja sig úr fjelaginu, gjöri það skriflega, eða munnlega á aðalfundi. Fyrir fundarstað hefir fjelagið heimild til að greiða sanngjarna þóknun.

13. gr. 

Lögum þessum verður því aðeins breytt að 2/3 atkvæð[a] á lögmætum aðalfundi sje fyrir breytingunni. Lög þessi öðlast gild[i] 18 desember 1897.

Fjelagsstjórnin.

 

[Fundur 16. jan 1899]

Ár 1899 dag 16. janúar, var haldinn fundur að Hrófbergi fyrir Lestrarfjelag Hrófbergshrepps, til að ræða um: bókakaup, hverjir verði fjelagsmenn næsta ár og hagi fjelagsins yfirhöfuð.

Næst liðið ár voru meðlimir fjelagsins 25 og eru nú mættir af þeim 18. Voru fyrst lesinn upp lög fjelagsins og voru þau samþikt í einu hljóði.

Reikningar fjelagsins voru lagiðr fram og samþiktir í einu hljóð[i].

Því næst voru kosnir menn í stjórn fjelagsins og hlutu atkvæði flest: Magnús Hrófbergi - formaður, Gunnlaugur bókavörður og Sveinn Kirkjubóli gjaldkeri. 

Úr fjelaginu gengu: Sigurður Gilstöðum, Þórarinn Ósi, Magnús Skeljavík, Kristmundur Vatnshorni, Guðrún Björnsd. og Jón Víðivöllum. Nýir fjelagsmenn k..... Finnur Kálfanesi, Hjalti Hólum. 

Teljandi skemdir höfðu engar orðið á bókunum yfir næst liðið ár. Fjelagið skuldaði bókaverði kr. 6,13.

Fleira koma ekki til umræðu.

Fundi slitið.

Hrófbergi 16/1 - 99

Gunnlaugur Magnússon

 

[Fundur 19. febrúar 1900]

Ár 1900 dag 19 febrúar var haldinn lestrarfjelagsfundur að Hrófbergi til að ræða um ástand fjelagsins. Fjelagsmenn borguðu tillag höfðu verið 18 síðastliðið ár og verða þettað ár 20 alls þar af 6 með 0,50 aura tillag.

Skemdir á bókum engar og enginn bók glatast. Formaður fjelagsins kosinn M. Magnússon Hrófbergi, bókavörður Gunnlaugar Magnússon, gjaldkeri Sveinn Sveinsson Kirkjubóli. Fjelagið skuldaði bókaverði 13,38.

Fleiri voru ei gjörðir fundarins. 

Fundi slitið.

Hrófbergi 19/2 1900.
Magnús Magnússon, Gunnl. Magnússon, Sv. Sveinsson

 

[Fundur 8. mars 1901]

Ár 1901, 8. dag marsmánaðar var haldinn lestrarfjelags fundur að Hrófbergi, til að ræða um bóka kaup, hverjir verði fjelagsmenn næsta ár og hagi fjelagsins yfir höfuð. Liðið ár voru fjelagsmenn 20. Bókavörður lýsti því yfir að yfirleitt hefði verið farið vel með bækur fjelagsins og því hreint ekki um neinar skemdir að ræða nema eðlilegt slit, er engum sérstökum verður ætlað að borga. Fjelagið á 150 stikki af bundnum bókum, en í mörgum þeirra eru fleiri bækur innan sömu spjalda. Nokkrar bækur eru óbundnar, er nýlega hafa verið keyptar.

Í stjórn fjelagsins voru kosnir þeir sömu og að undanförnu Magnús M., Gunnl. M. og Sv. Sveinss.

Fjelagsmenn næsta ár viðstaddir 20. Von um fleiri. 

Fjelagið skuldaði bókaverði kr. 19,68. Gunnl. Magnússon bauðst til að láta 5 kr tillag næsta ár. 

Nokkrar bækur voru tilnefndar er fyrst skuli kaupa. Fleira kom ekki til umræðu.

Fundi slitið.

Hrófbergi 8/3 1901

M. Magnússon, Gunnl. Magnússon, Sv. Sveinsson. 

 

[Fundur 1902]

Ár 1902 dag [eyða] var haldinn lestrarfjelagsfundur að Hrófbergi til þess að skoða bókasafn fjelagsins sem fyrirfanst í góðu standi og allt víst. Þá var rædt um kverjir verða mundu fjelagsmenn eptirleiðis eða næsta ár, fjekkst aðeins von um 15. Tillag áliktað að vera skildi 1 kr. frá fermdum en 0/50 frá ófermdum. Fjelagið fyrirfannst að skulda bókaverði 6,33. 

Í stjórn fjelagsins kosnir þeir sömu og fyrri M. Magnússon, Gunnl. Magnúss. og Sveinn Sveinsson Kirkjubóli. 

Fleira kom ekki til umræðu, fundi slitið.

Hrófbergi [eyða] 1902

Fjelagsstjórnin: Sveinn Sveinss., Magnús Magnússon, Gunnlaugar Magnússon.

 

[Fundur 14. mars 1903]

Ár 1903 - dag 14. Martíus var að Hrófbergi haldinn lestrarfélagsfundur, til að ræða málefni félagsins yfir höfuð. 

Félagsmenn næsta ár 15 - til umræðu kom á fundinum að hækka árgjöld félagsmanna úr 1 kr upp í 1,50, er var samþikkt, sömuleiðis kom til umræðu að stofna til tombólu - og fékk það ekki verulegt fylgi var því aðúrslitum að slá því á frest fyrir það fyrsta til sumars. Bókavörður lýsti því yfir að yfirleitt hefði verið farið vel með bækur félagsins, og því ekki um aðrar skemdir að ræða en eðlilegt slit. Félagið á nú sem stendur 159 númeruð bindi mjög lítið óbundið - þar eð ekkert hefir verið hægt að kaupa næsta ár skuld við bókavörð.

Kosnir menn í nemd félagsins vóru fyrir næsta ár undirritaðir, meðlimatala á fundi 15 að tölu.

Fundi slitið.

Hrófbergi 14. Martíus 1903.

Gunnlaugur Magnússon Hrófb. (bókavörður)
Sveinn Sveinsson Kirkjubóli (Gjaldkeri)
Magnús Steingrímsson Hólum (pt. formaður)

  

Tekjur og gjöld Lestrarfélags Hrófbergshrepps 1902-3

[Ekki slegið inn]

  

[Fundur 27. des 1903]

Ár 1903 dag 27 des var að Hrófbergi haldinn Lestrarfélagsfundur, til að ræða málefni félagsins yfir höfuð, félagsmenn næstliðið ár 15. Formaður lagði fram reikninga félagsins sem fundarmenn samþikktu er vóru 7 að tölu. Bækur félagsins vóru yfirlitnar og vantaði 19 alls sem allar hváðu vera í láni, nokkrar bækur eru skemdar svo hvað band snertir að þær þurfa aðgerðar en ekki hvað bókavörður hægt að greina um sjerstakar skemmdir hjá neinum einstökum. Samþikkt var á fundi félagsins að stofnuð yrði tombóla á næsta vori til ágóða fyrir félagið. Félagið á nú sem stendur 176 bindi. Taldir félagsmenn eptirleiðis 13 alls með 1,50 gjaldi hver. Í nemd félagsins kosnir undirritaðir.

Fundi slitið.

Gunnlaugur Magnússon (Bókavörður)
Sveinn Sveinsson (Gjaldkeri)
Magnús Steingrímsson (formaður)

  

Tekjur og gjöld Lestrarfélags Hrófbergshrepps yfir árið 1904

[Ekki slegið inn].

 

[Fundur 21. jan. 1905]

Árið 1905 21 dag janúar var að Hrófbergi haldinn Lestrarfélagsfundur til að ræða um hag félagsins og gjörðir yfirleitt. Það varð helst niðurstaðan að halda félaginu áfram í líku formi og næstliðið ár með einnar krónu og 50 aura gjaldi um árið af hverjum félagsmanni sem taldist að ætti að vera borgað fyrir júlímánaðarlok í sumar. Á fundinum vóru mættir 10 félagsmenn af þeim er vóru meðlimir félagsins næsta ár. Tombóla ekki reynd og litlar athugasemdir gerðar. Reikningur félagsins samþikktur skuld nú á fundi 9,05 - en óinnkomin tillög frá þremur. Svo var Bókaskápur félagsins seldur á 100 kr ókomið enn fyrir hann. Taldir félagsmenn á fundi 15 alls. Í stjórn félagsins kosnir.

Gunnl. Magnússon (Bókavörður)
Magnús Steingrímsson (formaður)
Annas Sveinsson (Gjaldkeri)

 

Tekjur og gjöld ... 1905

Ekki slegið inn.

 

Tekjur og gjöld ... 1906

Ekki slegið inn.

 

[Fundur 26. feb. 1906]

Ár 1906 dag 26 Febrúar var að Hrófbergi haldinn Lestrarfélagsfundur til að ræða um hag félagsins yfir höfuð. Á fundinum vóru mættir margir félagsmenn. Þar kom helst til umræðu að færa félagsbækurnar að Ósi og varð sú uppástunga ofaná og samþikkt í einu hljóði. Í nemd félagsins vóru kosnir þessir Magnús Steingrímsson (formaður). Gjaldkeri Páll Gíslason Víðirdalsá. Kristján Þórðarson p.t. (Bókavörður). 

Gjalddagi á tillag félagsins sem er 1,50 á mann hvorn var ákveðið fyrir 10 Maí vorið 1906. 

Fjelagsmenn næsta ár (20).

 

[Fundur 12. jan 1907]

Ár 1907 dag 12. jan var að Ós innri hjer í hrepp haldinn Lestrarfélagsfundur til að ræða umm hag félagsins yfir höfuð. Á fundinum vóru mættir 8 meðlimir félagsins, þar kom það sjerstaklega til umræðu að þirfti að kaupa skáp utan um bækurnar, og var Halldóri í Skeljavík falið á hendur að selja félaginu skáp og lofaði hann því. Einn þeirra er vóru félagsmenn næstliðið ár hafði ekki greitt tillag sitt en samþykt var að kaupa af honum Skáldsöguna "Kapítola" fyrir kr. 3,00 og greiðist með því tillag hans liðna árið og þettað ár (Sumarliði Jónsson Gilst.). 

Tillag félagsins er 150 eins og næstliðið ár. Í stjórn félagsins vóru kosnir þeir sömu og næstliðið ár. Gjalddagi 10. maí.

Ósi 12. jan. 1907.

Magnús Steingrímsson

 

Tekjur og gjöld ... 1907

Ekki slegið inn.

 

[Fundur 18. jan 1908]

Ár 1908 dag 18 Jan var að Ósi innra hér í hrepp haldin lestrarfélagsfundur til að ræða um hag félagsins yfir höfuð.

Á fundinum voru mættir 7 meðlimir félagsins til að ræða °1 þar kom sérstaklega til umræðu að breytt yrði lestrarfélagstillaginu þannig að 1,00 kr væri tillagið fyrir yngra fólk (undirfólk). °2 en sama tillag og var fyrir húsráðendur (1,50).

Fríviljug samskot komu samtals á fundinum 14,50, og voru þau frá þessum mönnum:

  • Kristján Þórðarson, Ósi 4,00

  • Páll á Víðirdalsá           4,00

  • Magnús í Hólum           3,00

  • Halldór í Skeljavík         1,50

  • Hjalti Kálfanesi             2,00

                                   ___________

                                            14,00

sem lofað var að borga fyrir Ágúst mánaðarlok 1908.

Í stjórn félagsins voru kosnir þeir sömu og næstliðið ár. 

Gjalddagi 10. maí.

Ennfremur var á þessu ári gefið af Tómasi Brandssyni á Hólmavík fyrra heftið af skáldsögunni Alfreð Dreifus. 

Fleira kom ekki til ummræðu, fundi slitið.

Ósi 18. jan 1908.

Magnús Steingrímsson.

 

Tekjur og gjöld ... 1908

Ekki slegið inn.

 

[Fundur 13. des 1908]

Árið 1908 þann 13 des var að Ós innri hjer í hreppi haldinn Lestrarfélagsfundur til að ræða umm hag félagsins yfir höfuð á fundinum vóru mættir af félagsmönnum næstliðið ár 14 að tölu og þar að auk 5 í viðbót 19 alls.

Til ummræðu kom að tillag mætti ekki vera meira ein 1,50 af heimili eða fyrir fullorðið fólk, en þó borgi kvennfólk og börn innan fermingar ára ekki nema 0,50 aura. 

Fjelagsmenn næsta ár teljast þessir:

  • Jón Tómasson Hrófá

  • Páll Gíslason Víðirdalsá

  • Halldór Hjálmarsson Skeljavík

  • M. Júl. Jónsson Vatnshorni 

  • Hjalti Jóhannesson Kálfan.

  • H. Kristján Þórðarson Ósi

  • Magnús Steingrímsson Hólmum

  • Annas Sveinsson Kirkjubóli

  • Ólafur Sveinsson Víðirdalsá

  • Veturliðið Ásgeirsson Víðirdalsá

  • Magnús Sveinsson Kirkjub.

  • Guðjón Kristmundsson Vatnsh.

  • Hjalti Steingrímsson Hólmav.

  • Guðjón Guðlaugsson Hólmav.

  • Ingvar Árnason Fitjum

  • Rósmundur Jóhannesson Gilst.

  • Sigurður Gunnlaugss. Geirm.st.

  • Gunnlaugur Magnúss Ósi

  • Síra Guðlaugur Guðmunds Stað

  • Guðm Guðmundsson Grænan.

  • Aðalsteinn Magnússon Kálfanesi

  • Sæmundur Brynjólfs Kleppust.

  • Halldór Sigurðsson Geirmundarst.

  • Jón S. Eðvald Hólmavík

  • Albert Ingimundarson Ósi

  • Ólína Þorgeirsdóttir Skeljavík

Fríviljug samskot kómu á fundinum frá þessum mönnum sem lofast að borga í ágúst í sumar.

  • Síra Guðlaugur Guðmundsson   4,00

  • Páll Gíslason                           4,00

  • Kristján Þórðarson                    4,00

  • Magnús Steingrímsson             2,00

  • Guðjón Guðlaugsson                1,00

  • M. Júl. Jónsson Vatnsh.           1,00

  • Hjalti Steingrímsson                 1,00

                                               ____________

                                                      14,00

Ennfremur var gefið á þessu ári af Guðjóni Guðlaugssyni tveggja krónu virði í skáldsögunni Leysing. Ákveðinn gjalddagi á tillögum Félagsins var í ágústmánuði í sumar.

Stjórn félagsins endurkosin. 

Fundi slitið.

Ósi 13. des. 1908

Magnús Steingrímsson.

 

Reikningur 1909 

Ekki slegið inn 

 

Meðlimir lestrarfélag Hrófbergshrepps 1909

Ekki slegið inn.

 

[Fundur 30. des 1909]

Árið 1909 d. 30-12 var að Ósi innra haldinn hér í hreppi, haldinn lestrarfélagsfundur til að ræða um hag félagsins yfir höfuð. Á fundinn voru mættir 15 af félagsmönnum. Til umræðu kom að kaupa bækur sögufélagsins og var það felt. - Samþykkt var á fundinum að kaupa 9 árganga af S... ... fyrir 6,00.

Reikningar lestrar félagsins var samþyktur í einu hljóði.

Á fundinum kom fram uppástunga með að færa lestrarfélagið frá á Ósi að Hólmavík og var það samþykt, og í sambandi við það voru kosnir starfsmenn félagsins þannig Kristján Þórðarson Ósi formaður, Páll á Víðirdalsá gjaldkeri, bókavörður Hjalti Steingrímsson Hólmavík. 

Ennfremur var samþykt að reyna að fá 15,00 úr hreppsjóði til styrktar félaginu. 

Gjalddagi tillagsins er 14. marts.

p.t. Ósi 30 des 1909

Magnús Steingrímsson.

 

Tekjur og gjöld ... 1910

Ekki slegið inn.

 

[Fundur 13. nóv. 1910]

Árið 1910 13/11 var að Hólmavík hér í hreppi haldinn Lestrarfélagsfundur til að ræða um hag félagsins yfir höfuð. 

Á fundinum voru mættir 20 félagsmenn. 

Til umræðu kom fyrst, hvað margir nýir félagsmenn, myndu ganga í félagið, og voru þeir 11. 

Þar næst voru samþyktir reikningar félagsins í einu hljóði.

Sú breyting varð á starfsmönnum félagsins, að fyrrverandi formaður þess Kristján Þórarðson Ósi fór frá, en í hans stað var kosinn Guðjón Guðlaugsson í Hólmavík formaður þess, hinir starfsmenn þeir sömu. 

Á fundinum kom fram uppástunga, um að kjósa 3 manna nefnd til að athuga lög félagsins og koma með breitingar við þau fyrir næsta ....... félagsfund og voru til þess kosnir síra Guðl. Guðmundsson Stað, Jón Finnsson Hólmavík og M. Pétursson Hólmavík. 

Ennfremur var stjórninni falið að annast um bókakaup fyrir félagið og ennfremur var stjórninni og eptir því er henni sýndist um að vátryggja bækur félagsins. 

Flesetallir fjelagsmenn greiddu tillög sín á fundinum. 

Að þessu loknu var rætt um ýmislegt viðvíkandi bóka og blaðakaupum.

Sjera Guðlaugar Guðmundsson hjelt sögulegann fyrirlestur og formaður talaði nokkur orð um nytsemi lestrarfjelaga. 

Loks var skemt sjer með söng og kveðskap.

Fleira var svo ekki fyrir tekið og fundi slitið. 

. . .

Guðjón Guðlaugsson

 

[Aftast í bókinni]

Ekki eru fleiri fundargerðir í þessari bók, þótt nægt pláss sé fyrir þær. Líklegt má því telja að fundargerðir hafi ekki verið færðar næstu árin. Í enda bókarinnar eru hins vegar nokkrar vísur um hesta og sjómennsku eftir Gunnlaug Magnússon, Hrófbergi.  

2003 - Jón Jónsson,
þjóðfræðingur á Kirkjubóli

   

Vefsíðugerð: Sögusmiðjan