Strandabyggð
Hafnarbraut 19, 510 Hólmavík - Sími: 451 3510

   

Skrifstofa

Fundargerðir

Nefndir

Atvinnulíf
& saga

Þjónusta

Sæluhús á Steingrímsfjarðarheiði

- ljósmynd: Ásdís Jónsdóttir

Myndir

Tenglar

Aðalsíða

         
Saga sveitarfélagsins:

Hólmavíkurhreppur
Hólmavík
Verslun á Hólmavík
Atvinnulíf í hreppnum
Uppbygging þjónustu
Mannfjöldi og búsetuþróun

Hólmavíkurhreppur

Steingrímsfjörður er stærsti fjörður sem gengur úr vestanverðum Húnaflóa inn í Strandasýslu, um 28 km langur. Hólmavíkurhreppur eða Staðarsveit eins og svæðið var kallað forðum nær yfir landsvæðið við sunnanverðan Streingrímsfjörð og fyrir botn hans, að Selá í Selárdal að norðanverðu. Eftir sameiningu við Nauteyrarhrepp við Ísafjarðardjúp árið 1994 stækkaði svo Hólmavíkurhreppur til mikilla muna, því Nauteyrarhreppur náði allt frá botni Kaldalóns við norðanvert Djúp að Ísafjarðará sem rennur í botn Ísafjarðar. Fjölgun íbúa var hins vegar ekki í samræmi við landflæmið sem bættist við, því gríðarleg fólksfækkun hefur orðið í sveitunum vestan Steingrímsfjarðarheiðar á síðustu áratugum. Við sameininguna var íbúatala Nauteyrarhrepps komin niður í 31. Árið 2002 voru síðan Hólmavíkurhreppur og Kirkjubólshreppur sameinaðir undir nafni þess fyrrnefnda og nær sveitarfélagið nú suður að Forvaða í Kollafirði. 

Hólmavíkurhreppur hét áður Hrófbergshreppur eftir Hrófbergi sem var þingstaðurinn. Svo hét sveitin fram til 1942, en þá var hreppnum skipt í tvennt við Ósá. Norðan Ósár hélt landsvæðið sínu gamla heiti, en sveitarfélagið fyrir sunnan ána hlaut nafnið Hólmavíkurhreppur. Ástæðan fyrir þessari skiptingu var sú að mönnum þóttu hagsmunir kauptúnsins á Hólmavík um framkvæmdir og fjármagn ekki fara saman við hagsmuni sveitarinnar. Í ársbyrjun 1987 voru hrepparnir síðan sameinaðir aftur undir nafni Hólmavíkurhrepps, enda hafði fólki í Hrófbergshreppi þá fækkað mjög.

  
Hólmavík

Hólmavík er stærsta kauptúnið á Ströndum og jafnframt verslunar- og þjónustumiðstöð sýslunnar. Þorpið stendur undir Kálfanesborgum, innan við miðjan Steingrímsfjörð að vestanverðu og hefur byggst úr landi Kálfaness.

Áður en Hólmavíkurþorp varð til var um tíma þurrabúðarlóð í vestanverðri Hólmavíkinni, austan undir Höfðanum. Þar bjuggu Ásgeir Snæbjörnsson og Elínborg Gísladóttir en þau settust að á Hólmavík árið 1878 og hafa trúlega lifað á sjósókn. Bær þeirra stóð í litlum hvammi, skammt frá við lækjarsytru sem fellur til sjávar rétt við bæinn Hvol (Hafnarbraut 1). Hann ætti því að standa afar nálægt þeim stað sem fyrsti bær Hólmavíkur sem sögur fara af stóð á. Ásgeir og fjölskylda fluttu síðan árið 1883 að Ytri-Ós og bjuggu þar lengstum. 

Sama ár og Ásgeir og Elínborg fluttu frá Hólmavík fluttu Sigurður snikkari og kirkjusmiður Sigurðsson og Guðrún Jónsdóttir frá Felli í Kollafirði að Kálfanesi og bjuggu þar eitt ár. Síðan fluttu þau niður í víkina og byggðu sér nýjan bæ töluvert utar, á túnbletti sem Ásgeir hafði byrjað að rækta. Sigurður vann fyrir sér alla ævi sem smiður, en hann lærði trésmíði í Flatey á Breiðafirði. Þarna bjuggu þau í fjögur ár og þar fæddist sonur þeirra hjóna, Stefán skáld frá Hvítadal, þann 16. október 1887. Hann getur því kallast einn af fyrstu innfæddu Hólmvíkingunum. Minnisvarði um Stefán var reistur nærri fæðingarstað hans árið 1990.


Verslun á Hólmavík

Þann 3. janúar 1890 varð Hólmavík löggiltur verslunarstaður, en frá miðri 19. öld hafði verið verslað um borð í skipum kaupmanna sem sigldu á Skeljavík, svokallaðra spekúlanta. 

Sumarið 1894 auglýsti kaupmaðurinn R.P. Riis sem hafði haft mest umsvif við verslun í Skeljavík að hann myndi ekki sigla þangað oftar og var þá gengið í að fá kaupmann til að hefja verslun á Hólmavík. Haustið 1895 var mæld út lóð og sama ár hóf Björn Sigurðsson, kaupmaður í Skarðsstöð á Skarðsströnd í Dalasýslu, verslun í bráðabirðaskúr sem var hvort tveggja verslun og vörugeymsla. Skúrinn var kallaður Langiskúr og var rifinn um 1950. 

Sama haust lét Riis mæla út byggingarlóð á Hólmavík og Björn seldi honum verslunina í byrjun næsta árs. Næstu sumur var aðeins verslað yfir sumartímann en Riis lét síðan byggja vandað timburhús sem var allt í senn sölubúð, skrifstofa og íbúð handa verslunarstjóra árið 1897. Riis-húsið var hið glæsilegasta og stendur enn, þar er nú rekinn veitingarstaðurinn Café Riis. Eftir þetta var fastaverslun á Hólmavík.

Verslunarfélag Steingrímsfjarðar, sem var forveri Kaupfélagsins, var svo stofnað 29. desember 1898. Guðjón Guðlaugsson alþingismaður og bóndi á Ljúfustöðum í Kollafirði var fyrsti formaður stjórnar og framkvæmdastjóri til 1919. Fyrsta hús kaupfélagsins hefur sennilega verið reist nálægt aldamótunum en Verslunarfélagið var fyrst pöntunarfélagsskapur. Guðjón alþingismaður átti heima á Hólmavík 1907-19 og hafði mikil áhrif á uppbyggingu þorpsins. 

Kaupfélag Steingrímsfjarðar óx hratt, en í september 1931 varð það fyrir verulegu áfalli. Þá kom upp eldur í kaupfélagshúsunum og þau brunnu nær öll; íbúðarhús, verslunin, nærri nýtt sláturhús og nokkur geymsluhús. Engu var bjargað af vörum eða innanstokksmunum. Eitt nýbyggt steinsteypt geymsluhús stóð eftir en í því voru geymd útlend matvara. Í þessu húsi, sem nú hýsir Galdrasýningu á Ströndum, var verslað áfram og endurbygging hófst strax vorið eftir. Þá var sláturhúsið endurbyggt, 1934 var reist verslunarhús og íbúð, 1937 voru hús Riis-verslunarinnar keypt og hraðfrystihús byggt 1943-5. 

Ýmsar verslanir hafa starfað á Hólmavík, en lengst þeirra fyrir utan Kaupfélagið, störfuðu Verslun R.P. Riis 1896-1932 og Verslun G. Brynjólfsson frá 1910 og fram yfir 1960.

 
Atvinnulíf í hreppnum

Í sveitum Hólmavíkurhrepps hefur sauðfjárræktin löngum verið höfuðatvinnuvegur og þykir sauðkindur á Ströndum einstaklega afurðamiklar. Hrossarækt er einnig nokkur. Atvinna í þorpinu byggist hins vegar á útgerð, fiskvinnslu og þjónustu. Útgerð á Hólmavík snýst nú að miklu leyti um rækjuveiðar, úthafsrækjuveiðar árið um kring og innfjarðarrækjuveiðar frá októberlokum og fram í apríl ár hvert. Önnur útgerð hefur aðallega verið smábátaútgerð. Mjög fullkomin rækjuvinnsla er á Hólmavík sem fyrirtækið Hólmadrangur rekur.

Um aldamótin 1900 voru byggðar fyrstu bryggjur á Hólmavík, tvær trébryggjur sem hétu eftir eigendunum, Riisbryggja og Kaupfélagsbryggja. Hafskipabryggja var síðan byggð 1936, vestan við Klifið og stór vinnupallur úr timbri meðfram landi frá bryggjunni og að Klifinu. Þar var söltuð síld allmörg næstu ár, stundum í stórum stíl. Fyllt var upp fyrir austan vinnupallanna 1950 og ný bryggja gerð meðfram þeirri gömlu á árunum 1969-72 enda var hún nær ónýt. Þá var einnig gerð bátabryggja. Umfangsmiklar uppfyllingar í austari hluta víkurinnar hafa verið gerðar á síðustu árum og útbúin þar smábátahöfn.

Um 1950 varð langvarandi aflabrestur þess valdandi að atvinnuleysi varð nokkuð og fólki fækkaði í þorpinu. Ekki rættist úr aftur fyrr en með rækjunni laust fyrir 1970. Síðan þá má segja að atvinnuástand hafi verið gott þó að fólksfækkun hafi verið nokkuð eins og víðar.

Verslun og þjónusta eru mikilvægar atvinnugreinar á Hólmavík og uppbygging ferðaþjónustu hefur verið nokkur í sveitarfélaginu. Miðpunktur hennar nú er Upplýsingamiðstöð sem Hólmavíkurhreppur hefur rekið yfir sumartímann frá 1997 og nú síðast Galdrasýningin sem opnuð var sumarið 2000. 

Á Hólmavík er miðstöðvar Orkubús Vestfjarða og Vegagerðar ríkisins og eru hvort tveggja mikilvægir vinnustaðir. Einnig eiga fjölmargir vörubílstjórar og vinnuvélaeigendur heima á Hólmavík og þónokkur fjöldi iðnaðarmanna og húsasmiða reka þar fyrirtæki sín. Í heildina tekið er atvinnulíf á Hólmavík sennilega töluvert fjölbreyttara og byggir á fleiri stoðum en víða annars staðar í sjávarþorpum af svipaðri stærð.

 
Uppbygging þjónustu

Á Hólmavík er öll opinber þjónusta á svæðinu, t.d. aðsetur sýslumanns Strandasýslu, lögregla, sjúkrahús og heilsugæsla, apótek, bankar, pósthús og verslanir. Saga kauptúnsins er ekki lengri en ein öld og því gefur auga leið að uppbygging ýmiskonar þjónustu var hröð á fyrri hluta 20. aldarinnar. Læknir kom á Hólmavík árið 1903, þegar Guðmundur Scheving læknir flutti frá Smáhömrum í Kirkjubólshreppi þar sem læknir hafði áður haft aðsetur. Árið 1911 var fjögurra rúma sjúkrahús tekið í notkun á Hólmavík og hefur stækkað allmikið síðan, en læknisbústaður var byggður á árunum 1948-50.

Fyrsta skipulega skólahald á Hólmavík fór fram í skúr í eigu Verslunarfélags Steingrímsfjarðar veturinn 1910-11. Guðjón Guðlaugsson frá Ljúfustöðum hafði látið þilja hann að innan, svo úr varð vistleg stofa. Fyrsti kennari á staðnum var Kristinn Benediktsson sem útskrifaðist vorið áður frá Kennaraskóla Íslands og skólabörnin voru ellefu. Árið 1913 var síðan lokið við byggingu skólahúss sem auk þess gegndi öllum þörfum hreppsbúa um samkomuhald í hátt á fjórða áratug. Skólinn varð fljótlega þinghús hreppsins, en þingstaðurinn fluttist 1914 frá Hrófbergi. Um svipað leyti var farið að sýna leiksýningar í skólahúsinu og um tíma voru bækur Lestrarfélags Hrófbergshrepps einnig geymdar þar.

Í gamla skólanum var slökkvistöð Hólmvíkinga til húsa allt til ársins 2000, eftir að kennsla fluttist í nýjan grunnskóla árið 1948. Þessi bygging var síðan stækkuð um helming og árið 1984 var sá hluti hússins tekinn í notkun. Þá fékk Héraðsbókasafn Strandamanna húsnæði þar. Sama ár tók Tónskóli Hólmavíkur- og Kirkjubólshreppa fyrst til starfa. Kirkjubólshreppur er aðili að grunnskólanum á Hólmavík en samstarf hreppanna hófst um 1970.

Nýja félagsheimilið hálfbyggt - ljósmynd: Stefán GíslasonSamkomuhús Hólmvíkinga er sérstakur kapítuli. Nokkrir athafnasamir menn tóku sig til eftir stríðið og keyptu samkomubragga hernámsliðsins á Reykjum í Hrútafirði. Braggann fluttu þeir síðan til Hólmavíkur og reistu þar sem samkomuhús til bráðabirgða. Þar voru sýndar kvikmyndir, haldnir dansleikir, sýnd leikrit, dansað og sungið. Fimmtíu árum síðar var enn líf og fjör í bragganum, en á tíunda áratug 20. aldarinnar var byggt nýtt samkomuhús á Hólmavík sem leysti þá braggann af hólmi. Er ekki laust við að margir Hólmvíkingar sjái eftir því magnaða samkomuhúsi og telji að önnur eins stemmning og þar var á stundum náist aldrei aftur.

Bréfhirðing var lögskipuð á Hólmavík 1897 og símstöð sett upp 1908, en símalína var lögð yfir Steingrímsfjarðarheiði þá um sumarið. Íslandspóstur hefur nú aðsetur í nýlegu húsi að Hafnarbraut 19 á Hólmavík, ásamt Sparisjóði Strandamanna sem nýverið flutti frá Kirkjubóli í Kirkjubólshreppi til Hólmavíkur. Í sama húsi eru skrifstofur Hólmavíkurhrepps.  

Sýslumaður Strandamanna hefur setið á Hólmavík frá 1938, en áður hafði hann aðsetur sunnar í sýslunni - á Felli og Broddanesi í Kollafirði og Bæ og Borðeyri í Hrútafirði. Sýsluskrifstofur eru á efstu hæð húss Búnaðarbanka Íslands en á Hólmavík hefur verið útibú Búnaðarbankans frá 1973.

 
Mannfjöldi og búsetuþróun

Mannfjöldi í Hólmavíkurhreppi var afar breytilegur á 20. öldinni. Fólki sem býr í sveitinni hefur fækkað verulega á sama tíma og kauptúnið á Hólmavík varð til. Fram undir 1920 fjölgaði fólki hægt og sígandi á Hólmavík en síðan tók íbúum og byggingum að fjölga að ráði. Þá höfðu nokkrir iðnaðarmenn sest að í þorpinu og eins fluttist þangað sveitafólk sem hætti búskap. Þorpið var því orðið allfjölmennt áður en útgerð hófst að ráði.

Árið 1916 voru 8 hús á Hólmavík en síðan bættist við hér um bil eitt á ári þangað til á áratugnum 1930-40, en þá voru byggð 25 hús. Frá 1930 og fram á sjötta áratuginn, einkum eftir 1940, fjölgaði fólki mjög á Hólmavík en um það leyti bötnuðu atvinnuskilyrði með vaxandi útgerð. Eftir miðja öldina fækkaði íbúum hins vegar nokkuð, einkum á sjöunda áratug aldarinnar þegar fiskgengd á Húnaflóa minnkaði verulega.  

Hólmavíkurhreppur á í vök að verjast hvað íbúafjölda og búsetuþróun snertir eins og mörg önnur sveitarfélög á landsbyggðinni. Þar búa nú á fimmta hundrað manns, þar af tæplega 400 í Hólmavíkurþorpi. Þó er engin ástæða til að örvænta. Með nýrri öld koma nýir tímar og ný tækifæri. Með dug og framsýni er hægt að snúa vörn í sókn. Og þótt íbúum hafi fækkað um meira en 100 í sveitarfélaginu síðustu 50 árin, er rétt að hafa hugfast að þeim hefur líka fjölgað um meira en 200 sé litið helmingi lengra aftur í tímann.

 

Helsta heimild:
Óli E. Björnsson: Hólmavíkurbók. Hólmavík 1990.  

 © Des 2000 og lagfært í apríl 2003.

Höfundur: Jón Jónsson,
þjóðfræðingur á Kirkjubóli

 

  
Sveitarstjóri:

Senda póst!
Ásdís Leifsdóttir

Sveitarstjórn:



Valdemar Guðmundsson


Rúna Stína Ásgrímsdóttir


Jón Gísli Jónsson


Már Ólafsson


Daði Guðjónsson

Skrifstofa:

Senda póst!

Strandabyggð

Einar Hansen hugar að netum 

      - ljósmynd: Ásdís Jónsdóttir

Strandabyggð Hafnarbraut 19, Sími: 451-3510 ¤ Fax: 451-3403 
© 2001 Vefsíðugerð: SÖGUSMIÐJAN   ¤  Umsjón: Hólmavíkurhreppur

Hólmavíkurkirkja 

      - ljósmynd: Jón Jónsson