Untitled Document
- SATOR ~ AREPO ~ TENET ~ OPERA ~ ROTAS -
 

Viðburðir

 
haus


Viðburðir á vegum Galdrasýningar á Ströndum

 

Galdra- og þjóðtrúardagur, 13. desember 2003


Kristín Helga Gunnarsdóttir les úr bók sinni, Strandanornir

Kristín Helga Gunnarsdóttir mætti norður á Strandir til að segja frá og lesa upp úr bókinni sinni Strandanornir, sem gerist beinlínis á Ströndum. Af því tilefni skipulagði Strandagaldur uppákomu á bókasafninu á Hólmavík í samvinnu við Héraðsbókasafnið.

Upplesturinn var líflegur og skemmtu áheyrendur á öllum aldri sér hið besta, enda sagði Kristín Helga á afar skemmtilegan hátt frá sögunni sinni.

Jón Jónsson jólasveinafræðingur á Kirkjubóli sagði einnig frá jólahyskinu og hvernig það hegðaði sér fyrr á öldum. Voru þar margar ljótar sögur af Grýlu og mönnum hennar, jólasveinunum og jólakettinum dregnar fram í dagsljósið. Félagar í Leikfélagi Hólmavíkur, Matthías Lýðsson og Arnar S. Jónsson, tóku þátt í uppákomunni og sáu um upplestur.

 

Útgáfuteiti Angurgapa 26. júlí 2003

Af tilefni útgáfu bókarinnar Angurgapi - Um galdramál á Ísland var haldið útgáfuteiti á Galdrasýningunni laugardaginn 26. júlí. Magnús Rafnsson las kafla úr bók sinni og áritaði hana.

Fjöldi góðra gesta mættu í hófið til að fagna með aðstandendum Strandagaldurs útgáfu bókarinnar og nutu veitinganna og atriðanna sem boðið var upp á.

Auk Magnúsar komu fram Ása Ketilsdóttir frá Laugalandi sem kvað rímur að gömlum sið og tónlistarmaðurinn Arnar S. Jónsson (Hemúllinn). Sigurður Atlason sá um kynningu og vatt sér í gerfi galdramanns af Ströndum á milli atriða.

 

Skemmtikvöldið 21. desember 2001
- Þjóðlegur jólahryllingur af bestu gerð.


Jón Jónsson og Magnús Rafnsson flytja jólahryllinginn

Þann 21. desember 2001 stóð Strandagaldur fyrir aldeilis magnaðri uppákoma á Café Riis á Hólmavík. Þar voru sagðar ljótar sögur af jólasveinum fyrri alda og illvirkjum þeirra, auk þess sem ófétinu henni Grýlu var gerð rækileg skil.
Andstyggileg kvæði og óhugnanlegar sagnir voru dregnar fram í dagsljósið og meðal annars var flett ofan af nokkrum bræðra jólasveinanna sem settust í helgan stein þegar nöfn sveinanna og hegðun var samræmd og stöðluð milli landsvæða á fyrri hluta 20. aldar. Lungnaskvettir, Bjálminn og Reykjarsvelgur fengu t.d. á baukinn.
Jón Jónsson og Magnús Rafnsson fóru á kostum á afar vel sóttum fyrirlestri sem bar titilinn "Brytjar hún börn í pottinn sinn ..." og skemmtidagskrá. Skemmtunin var bönnuð börnum.

Skemmtikvöldið 5. apríl 2001

Jón Jónsson

Fimmtudaginn 5. apríl kl. 20:30 var haldin þriðja kvöldvaka vetrarins. Jón Jónsson þjóðfræðingur talaði um drauga og draugatrú og nemendur í Grunnskólanum á Hólmavík fluttu dagskrá sem þau kölluðu: „Hvar eru draugarnir okkar?“



 

Skemmtikvöldið 25. nóvember 2000

Viðar HreinssonViðar Hreinsson bókmenntafræðingur heimsótti Strandir laugardaginn 25. nóvember. Þá um kvöldið stóð Strandagaldur fyrir annarri kvöldvöku vetrarins á Hólmavík.

Viðar fjallaði um Strandamanninn Jón lærða Guðmundsson í fyrirlestri sem hann kallaði „Heimur í hrafnshöfði. Um hugmyndaheim Jóns lærða“.

Hér má nálgast fyrirlestur Viðars.

 

Skemmtikvöldið 21. október 2000

Ólína orvarðardóttirÓlína Þorvarðardóttir flutti fyrirlestur þann 21. október 2000 sem hún kallaði „Galdrasveimur á Ströndum“.

Á eftir fluttu heimamenn dagskrá sem fjallaði um galdramál sem komu upp í Trékyllisvík árið 1669.

Hér má nálgast fyrirlestur Ólínu.


botn_haus

síðast uppfært 23.05.2007 <=========> vefhönnun: sigatlas
© strandagaldur - höfðagata 8-10 - 510 hólmavík - galdrasyning@holmavik.is - sími 451 3525