|
Hólmavíkurhreppur
|
|
Ár 2004 þriðjudaginn 4. maí var haldinn fundur í hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps og hófst hann kl. 17:00 á skrifstofu hreppsins. Haraldur V.A. Jónsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn Elfa Björk Bragadóttir, Valdemar Guðmundsson, Eysteinn Gunnarsson og Kristín S. Einarsdóttir. Fundarritari var Engilbert Ingvarsson. Sveitarstjóri var fjarverandi. Þetta var gert: Oddviti kynnti eftirfarandi boðaða dagskrá í 7 töluliðum:
Þá var gengið til dagskrár: 1. Erindi frá Heilbrigðisstofnun Hólmavíkur varðandi Lyfsöluna á Hólmavík. Borist hefur bréf dags. 19. apríl 2004 frá Heilbrigðisstofnuninni á Hólmavík varðandi sölu á lyfjum frá Lyfsölunni á Hólmavík. Kvartað er yfir að lyf séu dýr og oft eru ýmsar tegundir ófáanlegar þar til þær hafa verið pantaðar. Fram kom í umræðum að hreppsnefndarmönnum er ókunnugt um rekstur lyfsölunnar og reikningsskil hafa ekki verið lögð fram í nokkur ár. Samþykkt var að fela sveitarstjóra og oddvita að ræða við framkvæmdastjóra og eignaraðila Lyfsölunnar á Hólmavík og afla upplýsinga um málið. 2. Erindi frá Umhverfisstofnun um viðmiðunartaxta ríkisins vegna refa- og minkaveiða fyrir uppgjörstímabilið 1. sept. 2003 til 31. ágúst 2004. Borist hefur bréf dags. 25. apríl 2004 frá Umhverfisstofnun með viðmiðunartöxtum fyrir refa- og minkaveiðar. Lagt fram til kynningar. 3. Erindi frá Freyju Dís Númadóttur um félagslega miðstöð á Hólmavík. Borist hefur bréf dags. 2. apríl 2004 frá Freyju Dís Númadóttur um nauðsyn þess að opna félagslega miðstöð fyrir íbúa á Hólmavík. Samþykkt var að vísa erindinu til félagsmálaráðs Hólmavíkur. 4. Skýrsla sveitarstjóra. Lögð fram skýrsla sveitarstjóra, þar kemur fram að búið er að ráða í öll störf á leikskólanum og Kolbrún Þorsteinsdóttir og Sigurrós Þórðardóttir deila með sér leikskólastjórastarfinu. Ennfremur er rætt um unglingavinnu og ýmsa verkþætti í vorverkefnum. Í þriðja lagi er rætt í skýrslunni um fund með þingmönnum kjördæmisins og fleirum í Reykjavík á morgun 5. maí, þar sem hreppsnefndarmenn og sveitarstjóri mæta. Samþykkt var að fela sveitarstjóra að kynna leikskólanefnd fyrirhugaðar breytingar í starfsmannahaldi, sem kemur fram í 1. lið skýrslunnar. 5. Fundargerð Bygginga-, umferðar- og skipulagsnefndar Hólmavíkurhrepps frá 23. apríl sl. Lögð fram fundargerð B.U.S frá 23. apríl. Fundargerðin var samþykkt samhljóða. 6. Fundargerð 192. fundar launanefndar sveitarfélaga frá 21. apríl sl. Borist hefur bréf dags. 26. apríl 2004 frá Sambandi ísl. sveitarfélaga ásamt fundargerð frá 192. fundi Launanefndar sveitarfélaga. Lagt fram til kynningar. 7. Fundargerð 4. verkfundar vegna byggingar íþróttamiðstöðvar á Hólmavík. Lögð fram fundargerð frá verkfundi vegna íþróttamiðstöðvar. Á fundinum voru hreppsnefndarmenn, sveitarstjóri, verktaki og byggingafulltrúi. Oddviti gerði grein fyrir framvindu verkþátta og gat þess að í næstu viku myndi vera hægt að taka ákvörðun um hvenær sundlaugin yrði opnuð. Lagt fram til kynningar. Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 18:15. Engilbert Ingvarsson (sign) |
|
HÓLMAVÍKURHREPPUR,
HAFNARBRAUT 19, 510 HÓLMAVÍK |
|