HREPPSNEFNDARFUNDUR NR. 1056.

Ár 2005 7. júní var haldinn fundur í hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps. Fundurinn var haldinn á skrifstofu hreppsins og hófst hann kl. 17:00. Haraldur V. A. Jónsson setti fundinn og stjórnaði honum en auk þess sátu fundinn Elfa Björk Bragadóttir, Valdemar Guðmundsson, Daði Guðjónsson varamaður og Már Ólafsson varamaður.

Auk þeirra sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri. Fundarritari var Engilbert Ingvarsson.

Þetta var gert :


Oddviti kynnti dagskrá fundarins samkvæmt fundarboði, sem var í 8 liðum og eftirfarandi:


1. Erindi frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða um útfærslu hugsanlegs samstarfs um starf atvinnu-og ferðamálafulltrúa í Strandasýslu.

2. Erindi frá Fjórðungssambandi Vestfjarða um Markaðsskrifstofu Vestfjarða.

3. Beiðni um styrk frá vefritinu Strandir.is

4. Erindi frá Fjórðungssambandi Vestfjarða um tilnefningu fulltrúa Hólmavíkurhrepps í vinnuhóp ungs fólks á Vestfjörðum vegna n.k. fjórðungsþing.

5. Tilhögun skólaskjóls á Hólmavík og skólaaksturs á Langadalsströnd næsta skólaár.

6. Erindi frá Kristínu S. Einarsdóttur um kaup á sláttutraktor fyrir Hólmavíkurhrepp.

7. Fundargerð heilbrigðisnefndar frá 13. maí s.l. og gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða.

8. Fundargerðir Menningarmálanefndar dags. 30. maí og 2. júní s.l.


Þá var gengið til dagskrár:


1. Erindi frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða um útfærslu hugsanlegs samstarfs um starf atvinnu-og ferðamálafulltrúa í Strandasýslu. Borist hefur bréf frá Aðalsteini Óskarssyni framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða er varðar útfærslu hugsanlegs samstarfs Atvinnuþr.fél. Vestfjarða og sveitarfélaga í Strandasýslu. Stjórn Atvinnuþróunarfélagsins telur að tækifæri sé til að efla starfsemi félagsins í tengslum við útfærslu á framkvæmd á Vaxtarsamningi Vestfjarða. Kostnaður við stöðugildi starfsmanns er áætlað kr. 5.940.000.- þar af þyrftu hreppar í Strandasýslu að greiða kr. 3.640.000.- Samþykkt var samhljóða að taka jákvætt í erindið og óska eftir viðræðum við önnur sveitarfélög í Strandasýslu og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða.

2. Erindi frá Fjórðungssambandi Vestfjarða um Markaðsskrifstofu Vestfjarða. Borist hefur bréf dags. 30. maí 2005 frá Fjórðungssambandi Vestfjarða varðandi markaðsskriftstofu á Vestfjörðum, sem sveitarfélögum er boðin aðild að. Fjármögnunaráætlun fylgir bréfinu og gert ráð fyrir að reksturinn kosti samtals kr. 7.025.000.- og framlag Hólmavíkurhrepps verði 6,31% eða kr. 442.930.- Hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps samþykkir að taka jákvætt í erindið, en kannað verði viðhorf annarra sveitarfélaga og hvað mörg taka þátt í verkefninu.

3. Beiðni um styrk frá vefritinu Strandir.is Borist hefur bréf dags. 25. maí 2005 þar sem farið er fram á styrk frá Hólmavíkurhreppi að upphæð kr. 289.000.- Samþykkt var samhljóða að hafna erindinu.

4. Erindi frá Fjórðungssambandi Vestfjarða um tilnefningu fulltrúa Hólmavíkurhrepps í vinnuhóp ungs fólks á Vestfjörðum vegna n.k. fjórðungsþing. Borist hefur dreifibréf til sveitarstjórna á Vestfjörðum með beiðni um tilnefningu ungs fólks í vinnuhóp til að undirbúa málefni sem verður á dagskrá Fjórðungsþings Vestfjarða á Patreksfirði 2. og 3. september n.k. og ber nafnið “Framtíð Vestfjarða byggir á ungu fólki.” Samþykkt var samhljóða að fela sveitarstjóra og oddvita að finna fulltrúa til að mæta á undirbúningsfund í Reykjanesi 26. og 27. ágúst.

5. Tilhögun skólaskjóls á Hólmavík og skólaaksturs á Langadalsströnd næsta skólaár. Borist hefur í tölvupósti frá Kristínu S. Einarsdóttur erindi dags. 2. júní 2005 um nauðsyn þess að ræða skólaakstur/skólaskjól og ákveða fyrirkomulag áður en sumarfrí hefst. Samþykkt var samhljóða að leyta upplýsinga og fela sveitarstjóra að ræða við skólastjórnendur um hugsanlega lausn á tilhögun varðandi erindið.

6. Erindi frá Kristínu S. Einarsdóttur um kaup á sláttutraktor fyrir Hólmavíkurhrepp. Lagt fram erindi um kaup á sláttutraktor til notkunar á vegum Hólmavíkurhrepps og áætlað að muni kosta kr. 169.000.- Samþykkt var samhljóða að hafna erindinu.

7. Fundargerð heilbrigðisnefndar frá 13. maí s.l. og gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. Borist hefur bréf dags. 24. maí 2005 frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða ásamt fundargerð heilbrigðisnefndar frá 49. fundi 13. maí og gjaldskrá fyrir heilbrigðis-og mengunareftirlit Vestfjarða, sem er lögð fram til staðfestingar hjá aðildarsveitarfélögum. Samþykkt var samhljóða að fresta afgreiðslu málsins til næsta fundar.

8. Fundargerðir Menningarmálanefndar dags. 30. maí og 2. júní s.l. Lagðar fram fundargerðir Menningarmálanefndar Hólmavíkurhrepps. Í fundargerðunum eru bókaðir fjölmargir þættir sem eru til umræðu og ákvörðunar hjá nefndinni til undirbúnings að dagskrá Hamingjudaga á Hólmavík 30. júní til 3. júlí nk. Lagt fram til kynningar.


Fundargerð lesin upp og samþykkt. Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:05

 

Engilbert Ingvarsson (sign)

Haraldur V. A. Jónsson (sign)

Valdemar Guðmundsson (sign)

Elfa Björk Bragadóttir (sign)

Kristín S. Einarsdóttir (sign)

Eysteinn Gunnarsson (sign)

Ásdís Leifsdóttir (sign)